Ljósið frá símunum vakti hina dauðu

2 og hálf stjarna

Mozart: Píanókonsert nr. 20 og Sálumessa. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands lék ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu og Kammerkór Norðurlands. Einleikari: Alexander Edelstein. Stjórnandi: Anna-Maria Helsing.

Langholtskirkja

Föstudaginn langa

Það er umdeilanleg ákvörðun af Menningarfélagi Akureyrar að hafa tónleikaskrár Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands eingöngu á rafrænu formi. Ákvörðunin er sögð vera af umhverfisástæðum. Þetta má þó ekki vera á kostnað upplifuninnar á tónleikum. Í Hofi á Akureyri eru nauðsynlegar upplýsingar á skjá fyrir ofan hljómsveitina, en ekkert slíkt var í boði þegar sveitin kom fram í Langholtskirkju á Föstudaginn langa.

Tvö verk voru á dagskránni, bæði eftir Mozart. Hið fyrra var píanókonsert nr. 20 og einleikari var Alexander Edelstein. Hann spilaði vasklega og hristi allskonar tónahlaup fram úr erminni. Þetta vakti aðdáun konu fyrir framan undirritaðan, og hún dró síma upp úr veskinu og byrjaði að lesa um einleikarann. Ljósið frá skjánum var afar truflandi og eyðilagði upplifunina af tónlistinni allt of lengi. Því miður var það ekkert einsdæmi, eins og sjá mátti af skjám víðs vegar um kirkjuna á meðan Alexander lék.

Skortur á styrkleikajafnvægi

Einhverjir virðast hafa kvartað yfir þessu, því eftir hlé, rétt áður en hitt verkið var flutt, steig kona fram fyrir tónleikagesti og bað fólk vinsamlegast um að vera ekki í símunum á meðan á tónlistarflutningi stæði. Það væri svo truflandi!

Umrædd tónsmíð var sálumessan eftir Mozart, sem á sér langa og merkilega sögu, og fengur hefði verið fyrir marga að glugga í tónleikaskrána á meðan tónlistin hljómaði. Fyrirkomulagið var því talsverður galli á tónleikunum.

Hljómsveitin má samt eiga það að hún spilaði prýðilega. Að vísu var upphafið að einum kaflanum í sálumessunni dálítið gruggugt hjá selló- og víóluleikurum, en í það heila var spilamennskan fagmannleg og tær undir líflegri stjórn Önnu-Mariu Helsing.

Söngsveitin Fílharmónía og Kammerkór Norðurlands sungu einnig margt ágætlega, söngurinn var öruggur og hreinn. Því miður var hann líka fremur belgingslegur á köflum; vissulega eru magnaðir hápunktar í kórköflunum en hljómstyrkurinn má ekki skerða fegurðina. Víða var krafturinn svo mikill að kórsöngurinn drekkti hljómsveitarleiknum, nokkuð sem er óhugsandi. Mozart samdi tilfinningaþrungna tónlist, en hennar helsta einkenni er samt fágun og hana var ekki alltaf að finna í sálumessunni í þetta sinn.

Mistækur einsöngur

Fjórir einsöngvarar voru í miðlungsveigamiklu hlutverki, þau Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Garðar Thór Cortes og Ágúst Ólafsson. Helena Guðlaug var ansi mjóróma og lítið heyrðist í Ágústi. Garðar Thór hefði hins vegar mátt dempa sig aðeins, þótt hann hafi sungið prýðilega í sjálfu sér, en Hanna Dóra söng af öryggi. Heildarsvipurinn var ekki góður, styrkleikahlutföllin voru undarleg, raddirnar fjórar pössuðu illa saman og útkoman var hvorki fugl né fiskur.

Alexander, sem lék einleikinn í píanókonsertinum, spilaði vasklega eins og áður segir. Hann er kornungur og enn í námi, en frammistaða hans var samt aðdáunarverð, hún einkenndist af tilfinningadýpt og tæknilegu öryggi. Miðkaflinn var þó helst til hraður; hin himneska ró sem þar svífur yfir vötnum hefði mátt vera meira ríkjandi, auk þess sem síðasti kaflinn hefði þurft vera stöðugri í takti, sérstaklega í byrjuninni. En almennt talað var leikur Alexanders glæsilegur og gefur fyrirheit um bjarta framtíð. Spennandi verður að fylgjast með honum á tónleikapallinum, og þá án þess að símar séu að trufla.

Niðurstaða:

Sálumessa Mozarts skorti fágun, en einleikarinn í píanókonsert nr. 20 er efnilegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s