Geisladiskur
4 stjörnur
Herberging. Tónlist eftir Berglindi Maríu Tómasdóttur.
Hver hefur ekki farið í nudd og hlustað á slökunartónlist? Undir slíkum kringumstæðum er hún að vísu höfð á mörkum hins heyranlega, en ómurinn hefur venjulega mjög róandi áhrif. Margir hlusta líka á svona músík fyrir svefninn, nú eða þá til að hjálpa til við hugleiðslu.
Nýútkominn geisladiskur Berglindar Maríu Tómasdóttur flautuleikara með eigin tónlist er skyld þessari grein. Hún gengur samt miklu lengra, því hún sjálf er hugleiðsla. Einkennismerki hennar er ró og íhugun, og gríðarlegur fókus. Stemningin er afar myrk en ekki eins og hefðbundin tónlist í moll tóntegund. Nei, hér eru bara langir tónar sem þróast án þess að úr verði atburðarrás. Í tónlist Berglindar Maríu er ekki beint framvinda eins og í klassíkinni, en þrátt fyrir það á sér stað ákveðið ferli. Það er fíngert og byggist á síbreytilegum litbrigðum fremur en hljómfræðilegum formúlum.
Fíngerð stígandi
Þrjú verk eru á geisladiskinum. Það fyrsta samanstendur af nokkrum hljóðrásum misdjúpra flaututóna sem taka aðallega breytingum í styrkleika. Þeir líka hverfa og koma svo inn aftur. Engin laglína er heyranleg. Heildarmyndin er lágstemmd, stemningin innhverf. Smám saman magnast þó raddirnar og heildarhljómurinn í lokin er býsna þéttur, en þar er einskonar djúpur þytur áberandi.
Næsta tónsmíð er styttri, að mestu bara einn tónn sem er bæði spilaður og sunginn, stundum að því er virðist inn í flautuna. Rétt eins og í fyrsta verkinu „gerist“ ekkert nema í áferðinni, en samt á sér stað stígandi sem er grípandi.
Myrkur sem er ekki myrkur
Í síðustu tónsmíðinni á diskinum, sem er bæði eftir Berglindi Maríu og Ólaf Björn Ólafsson, eru djúpir tónar. Veik blásturshljóð ofarlega á tónsviðinu skapa svo sterkt mótvægi. Hér er mesta myrkrið, en þó ekki. Í heimsmynd tíbetskra búddista, þar sem tónlist er ríkulegur hluti trúariðkunar, og langir, djúpir tónar eru ríkjandi, er þessu öfugt farið. Þar eru dýpstu tónarnir næst Guði, ólíkt því sem tíðkast í vestrænni kvikmyndatónlist.
Í öllu falli skapa þessir dásamlega djúpu tónar athyglisverða stemningu og endirinn, þar sem þeir líkt og renna saman við eilífðina, er magnaður.
Geisladiskur Berglindar Maríu er glæsilegt framtak; það þarf hugrekki til að koma svona krefjandi tónlist án nokkurra málamiðlana á framfæri. Fyrir þá sem hafa áhuga á tengsl tónlistar við hugleiðslu og andleg fræði, og eru almennt með opinn huga, ætti tónlistin að vera einkar áhugaverð.
Niðurstaða:
Dulúð er í forgrunni í innhverfri, áhrifaríkri tónlist.