Minningargrein um Atla Heimi Sveinsson
Mín fyrstu kynni af Atla Heimi Sveinssyni, sem nú er látinn áttræður að aldri, hófust þegar ég var fjórtán ára gamall. Hann hafði þá nýlega hlotið tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir flautukonsertinn sinn, og var hann fluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Robert Aitken var einleikari, en Jean-Pierre Jacquillat stjórnaði. Ég var á þessum tónleikum og féll í stafi yfir nýstárlegu verkinu. Það hófst á kaótískum barsmíðum slagverksleikaranna í næstum heila mínútu, en svo byrjaði einleiksflautan, íhugul og leitandi, eins og ákall til fornra guða. Nokkru síðar tók við kafli þar sem síendurteknar hendingar voru leiknar á hörpu, og alls konar hljóð úr mismunandi hljóðfærum ómuðu sitt á hvað. Það hafði dáleiðandi áhrif. Heildarmyndin var líkt og af einhverjum frumstæðum seið í fjarlægu landi, nánast eins og að tjaldið á milli þessa heims og annars hefði verið dregið frá um stund. Það var makalaus, ógleymanleg upplifun.
Vegna fjölskyldutengsla var ég í veislunni á eftir tónleikana og þar hitti ég Atla. Ég sagði honum frá því hvernig ég hafði upplifað tónlist hans, og hann kunni augljóslega að meta það. Hann sagði mér að einhverjir hljóðfæraleikarar úr Sinfóníunni hefðu kallað konsertinn Tunglskinssónötuna vegna hörpuhendinganna síendurteknu. Fyrsti kaflinn í Tunglskinssónötunni eftir Beethoven byggist einmitt á svipuðu stílbragði. Honum fannst það greinilega fyndið.
Gísli Marteinn og venjulegt fólk
Atli var fjölhæft tónskáld. Hver þekkir ekki lagið Snert hörpu mína, sem hefur hljómað á milljón kórtónleikum í gegnum tíðina? Færri þekkja sinfóníurnar hans, eða einleikskonsertana og öll kammerverkin. Þau eru enda miklu tyrfnari.
Einu sinni var Atli í sjónvarpsviðtali hjá Gísla Marteini Baldurssyni. Það fór nokkuð vel á með þeim, en svo sagði Gísli Marteinn að venjulegt fólk eins og hann skildi ekki tónlistina hans. Atli spurði hann þá hvort hann hefði einhvern tímann komið á tónleika þar sem hún var flutt. Gísli Marteinn kvaðst ekki hafa gert það. Þetta var furðulegt augnablik, sem opinberaði vanda samtímatónlistar í hnotskurn. Þekktur sjónvarpsmaður hélt því fram að hann skildi ekki tónlist, sem hann hafði þó aldrei haft fyrir að hlusta á. Það á örugglega við um fleiri.
Iron Maiden og Alfreð Flóki
Annað atvik kemur upp í hugann. Þegar hljómsveitin Iron Maiden kom fram í Laugardalshöllinni árið 1992 birtist klausa í Pressunni sálugu. Sagt var að ef Atli myndi segja frá því í fjölmiðlum að þar væru á ferðinni áhugaverðir tónlistarmenn, myndi hann gulltryggja að engir færu á tónleikana!
Þriðja atvikið tengist Alfreð Flóki myndlistarmanni. Er hann féll frá var haldið minningarkvöld um hann á Kjarvalsstöðum. Á dagsskránni var ljóðaupplestur og ýmis erindi. Atli þekkti Flóka og hann kom fram og spilaði fáein píanóverk. Þau voru fráhrindandi, mikið var um hvassa, háværa, ómstríða hljóma. Á næsta bekk fyrir framan mig var lítill drengur með mömmu sinni. Á meðan Atli var að spila heyrði ég drenginn segja: „Mikið spilar maðurinn illa á píanóið!“
Meistari allra stíla
En hvað var annað hægt að gera? Um þar síðustu aldamót var klassísk tónlist komin upp að vegg. Það var einhvern veginn ekki hægt að gera neitt nýtt lengur með þeim aðferðum sem þá þekktust. Menn fóru að leita logandi ljósi að ferskri nálgun í tónsköpun og til urðu alls konar stefnur. Atli var endalaust forvitinn um þær og hann var óhræddur við að gera tilraunir.
Atli samdi ótal verk, hann var einstaklega afkastamikill. Verk hans voru samin í ólíkum stílum, m.a. rapp og sveimtónlist, tangó og hvaðeina. Hvert svo sem yfirbragðið var þá var innblásturinn alltaf greinilegur. Tónlist hans var ávallt þrungin merkingu. Maður hafði tilfinningu fyrir einhverju óræðu og djúpu, þar var nærvist sem ekki verður skildgreind með orðum. Hann kunni allar formúlurnar í mismunandi tónsmíðaaðferðum, en hann var ekki bundin af þeim. Líkt og Beethoven fór hann handan við formið er andinn kallaði á það.
Ögraði og hneykslaði
Atli virðist hafa verið víðfeðmur karakter sem gat verið ögrandi. Hann hafði unun af því að hneyksla smáborgarana, a.m.k. á því tímabili þegar hlustendur skiptust alveg í tvær fylkingar hámenningar og lágmenningar. Annars vegar voru poppunnendur sem töluðu um Jóhann Sebastían Bjakk og svo fagurkerarnir sem flýttu sér að slökkva á útvarpinu ef popplag heyrðist. Atli gaf báðum hópunum langt nef. Hann samdi rapp fyrir tónleika sem áttu að vera helgaðir einhverju sinfónísku fíneríi. Svo spilaði hann hryssingslega tónlist á minningarkvöldi þar sem meira að segja lítil börn urðu hneyksluð.
Segja má að allt höfundarverk Atla hafði birst í sjöttu sinfóníunni hans, sem var frumflutt á afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar Atli varð sjötugur. Sinfónían var í óvanalega mörgum köflum, alls þrettán. Þeir voru fjölbreyttir, heyra mátti kammerkenndan fuglasöng, langa, stemningsríka hljóma, útflúraðan tangó, djöfullegan búgívúgí, ofsafengna hryllingsmyndatónlist og nostalgískan slagara.
Á vissan hátt voru síðustu tveir kaflarnir einskonar hnotskurn verksins. Andstæðan á milli hryllings og þunglyndislegrar eftirsjár var alger en undarlega heildstæð. Annað var skugginn af hinu.
Atli sýndi þarna svo berlega enn einu sinni að hann kunni að blanda saman ólíkum stílum svo úr varð sterk heild. Sinfónían eftir hann var viðburðarríkt ferðalag um ytri og innri heima, um mannlega reynslu og sálarlíf, um síbylju og áreiti; tilfinningar, bæði sárar og ljúfar. Það var mergjuð upplifun. Svo mergjuð að tónlistin situr enn í mér, tíu árum síðar, eins og draumur, martröð úr fortíðinni en líka eftirsjá – og kannski boðberi merkra tíma.