Andlegt ferðalag fullt af spennu

5 stjörnur

Kammertónleikar

Verk eftir Prókofíev, Dvorák, Grieg og Piazzolla. Auður Hafsteinsdóttir lék á fiðlu, Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 12. maí

Tónlistarnám  bætir minni, tungumálafærni og rökhugsun, svo fátt eitt sé nefnt. Töluverð gróska er í tónlistarkennslu á Íslandi enda margir frábærir kennarar starfandi. Sumir þeirra eru einnig einleikarar sem koma reglulega fram á tónleikum, þar á meðal er Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari. Um þessar mundir fagnar hún tvöföldu afmæli, þrjátíu ár eru liðin síðan hún hóf feril sinn sem fiðluleikari og tuttugu ár síðan hún byrjaði að kenna. Af því tilefni hélt hún tónleika í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara.

Nokkuð dimmt var yfir byrjuninni. Tónleikarnir hófust á fyrstu sónötunni eftir Prókofíev, í f-moll op. 80. Byrjunin er grafalvarleg, og eftirleikurinn er það líka, en framvindan er þó alltaf spennandi. Laglínurnar þróast sífellt í óvæntar áttir með verulega mögnuðum hápunktum. Tónlistin er ekkert sérstaklega auðmelt, en hún er þó eitt helsta verk tónskáldsins, og gerir miklar kröfur til flytjendanna.

Rauði þráðurinn slitnaði ekki

Skemmst er frá því að segja að túlkun Auðar og Önnu Guðnýjar var stórfengleg. Hlustandinn var tekinn í andlegt ferðalag þar sem rauði þráðurinn slitnaði aldrei. Slík var einbeitingin og ákafinn í túlkuninni. Tæknilega séð var leikurinn gríðarlega öruggur. Hljómurinn í fiðlunni var unaðslega safaríkur og hröð tónahlaup beggja hljóðfæraleikaranna voru skýr og jöfn; allt var á sínum stað. Styrkleikajafnvægið á milli þeirra var sömuleiðis eins og best verður á kosið. Heildarútkoman var ógleymanleg.

Önnur stór sónata var á dagskránni, sú þriðja í c-moll op. 45 eftir Grieg. Tónmálið er vissulega öðruvísi en hjá Prókofíev, rómantískt og fullt af safaríkum melódíum sem grípa mann strax. Atburðarrásin er viðburðarík og einnig hér var flutningurinn í fremstu röð. Hljóðfæraleikararnir fóru beinlínis á kostum. Samspilið var hárnákvæmt og allskonar heljarstökk eftir strengjum og hljómborði voru listilega framkvæmd. Sem dæmi þá var töluvert um áttundahlaup í píanóröddinni, afar hröð og krefjandi, en Anna Guðný hristi þau fram úr erminni eins og ekkert væri.

Glæsilegir hápunktar

Flutningurinn var þó ekki bara eitthvert sirkusatriði, heldur frásögn sem var full af tilfinningum. Þeim var öllum miðlað til áheyrenda á óviðjananlegan hátt. Laglínurnar voru mótaðar af næmni og smekkvísi. Hraðavalið var ávallt fyllilega sannfærandi og hápunktarnir glæsilega útfærðir og óheftir.

Tvö rómantísk smástykki op. 75 eftir Dvorák voru einnig á dagskránni, sem og Le Grand Tango eftir Piazzolla. Smástykkin runnu áfram ljúflega og tangóin var líflegur, þrunginn ástríðu og snerpu. Útkoman var frábær.

Niðurstaða:

Tónleikarnir voru einstök skemmtun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s