4 stjörnur
Sinfóníutónleikar
Verk eftir Chabrier, Brahms og Farrenc. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Einleikarar: Ari Þór Vilhjálmsson og Sigurgeir Agnarsson. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 16. maí
Farsímar á sinfóníutónleikum eru plága. Á tónleikunum í þar síðustu viku var m.a. á efnisskránni píanókonsertinn eftir Grieg. Á viðkvæmum stað í hæga, rólega kaflanum, hringdi sími. Hástemmdur náttúruseiðurinn í tónlistinni var þar með ónýtur. Svo vildi til að Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri var meðal gesta og sat fyrir framan undirritaðan. Hann kipptist auðsjáanlega til.
Atvikið sat greinilega í honum, því áður en hann sjálfur hóf upp tónsprotann á tónleikunum síðastliðinn fimmtudag, ávarpaði hann tónleikagesti með nokkrum þjósti. Hann minni þá á að slökkva á símunum og var svo hvass að allnokkrir áheyrendur drógu upp símana sína í dauðans ofboði og fullvissuðu sig um að allt væri í lagi. Þetta svínvirkaði og maður gat notið tónleikanna í friði og spekt.
Konur sem þóttust vera karlar
Efnisskráin var óvanaleg, því annað aðalverkið var sinfónía nr. 3 eftir Louise Farrenc, sem var kona. Nú kann einhver að hvá og segja: Og hvað með það? En Farrenc var ekki bara kona, heldur kona á 19. öldinni. Á þeim tíma var almennt litið niður á konur sem tónskáld. Þær áttu bara að halda kjafti og vera sætar. Kventónskáld sem ætluðu sér eitthvað þóttust því stundum vera karlar.
Farrenc var þó með bein í nefinu og naut talsverðrar virðingar á meðan hún lifði. Gaman er að verið sé að dusta rykið af tónlist hennar, en fyrir nokkru var flutt verk eftir hana í Kammermúsíkklúbbnum sem hljómaði ágætlega. Sinfónían sem hér var leikin var líka frábær! Hún var einstaklega glæsileg, í senn fáguð og fjörmikil, með safaríkum laglínum og spennandi atburðarrás. Bjarni Frímann hafði rétta tilfinningu fyrir tónlistinni, túlkun hljómsveitarinnar undir stjórn hans var djörf og tilfinningaþrungin. Tæknileg atriði í samspili voru lýtalaus, meira að segja þegar strengjaleikararnir spiluðu á ofurhraða. Í það heila var tónlistin svo flott að mann langaði strax til að heyra hana aftur.
Andlaus konsert
Hinn aðalrétturinn á seðlinum var ekki nærri því eins skemmtilegur, konsert fyrir fiðlu og selló eftir Brahms. Tónskáldið samdi vissulega magnaða einleikskonserta, en þessi stendur hinum langt að baki. Sagt er að Brahms hafi verið geðvont gamalmenni og það heyrist hér. Laglínurnar eru þurrlegar og framvindan máttlaus. Þetta er tónlist sem hefur engan tilgang. Einleikurinn kom samt vel út, en hann var í höndunum á Ara Þór Vilhjálmssyni fiðluleikara og Sigurgeiri Agnarssyni sellóleikara. Ari Þór var reyndar feimnislegur til að byrja með, leikur hans var dálítið mjór og varfærnislegur. En svo hrökk hann í gírinn og var þá með sitt á hreinu. Sigurgeir var hins vegar pottþéttur allan tímann, spilaði af andríki og með sannfærandi tilþrifum.
Tvær minni tónsmíðar voru einnig á efnisskránni, Akademískur hátíðarforleikur eftir Brahms og España eftir Chabrier. Þær voru í senn hugljúfar og snarpar með innblásnum laglínum sem voru ágætlega útfærðar af mismunandi hljóðfærahópum. Báðar hljómuðu prýðilega, ekki síst vegna þess að aldrei hringdi sími, sem betur fer.
Niðurstaða:
Hljómsveit og einleikarar fóru á kostum.