Spennan í hámarki þegar Jesús breytti vatni í vín

4 og hálf stjarna

Sinfóníutónleikar

Verk eftir Saariaho, MacMillan og Beethoven. Einleikari: Jean-Yves Thibaudet. Stjórnandi Osmo Vänskä.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 23. maí

Bach er vinsælt tónskáld en fáir vita nokkuð um guðfræðina í tónlist hans. Fyrir honum var tónlist beinlínis framlenging á guðfræðilegum vangaveltum, og fyrir bragðið er allskonar táknfræði í tónlist hans. Ofurlítið dæmi er venjulegur þríhljómur, sem er ekki bara einhver hljómur, heldur tákn fyrir heilaga þrenningu.

Fleiri tónskáld hafa reynt að endurspegla guðfræði í tónlist sinni, þ.á.m. á okkar tímum. Eitt þessara tónskálda er Skotinn James MacMillan, og var þriðji píanókonsertinn hans fluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Einleikari var Jean-Yves Thibaudet og stjórnandi Osmo Vänskä.

Fimm leyndardómar

Konsertinn er innblásinn af kaþólska rósakransinum, en MacMillan er kaþólikki. Kaþólikkar halda margir upp á rósakransinn, en á honum eru 59 perlur. Af þeim er 50 perlum skipt í fimm raðir, og hver röð er helguðum ákveðnum atburði úr ævi Jesú. Þessir atburðir eru kallaðir leyndardómar og lengi vel voru þeir fimmtán talsins, fimm um fæðingu Jesú, fimm um dauða hans og fimm um upprisuna. Árið 2002 bætti Jóhannes Páll II páfi við 5 leyndardómum úr starfi Jesú, og voru þeir í brennidepli í konsertinum.

Rósakransinn er einskonar hugleiðslutól og því hefði maður haldið að meiri íhugun væri að finna í konsertinum, frið og dulúð. En þá má ekki gleyma að konsert er í eðli sínu mjög ákafur, einleikarinn er jú í einskonar keppni við hljómsveitina. Átök eru því konsertinum eðlislæg. Þau voru svo sannarlega að finna í verki MacMillans. Jú, vissulega var kaþólskur Gregorsöngur rauður þráður, en tónlistin í heild einkenndist af spennu og hamagangi, ofsa og dramatískum andstæðum.

Líflegur dans í brúðkaupi

Fyrsti kaflinn, sem fjallar um skírn Jesú í ánni Jórdan, byggðist á tveimur þáttum, annars vegar Gregorsöng sem hefur í gegnum tíðina verið sunginn við Maríubænina; hins vegar alvörugefnu stefi sem var nokkuð þrúgandi. Annars kaflinn fjallaði um fyrsta kraftaverkið, þegar Jesús breytti vatni í vín, en þar mátti heyra líflegan dans, enda gerist atburðurinn í brúðkaupsveislu. Þriðji kaflinn, um boðun Guðsríkisins, var afar tignarlegur, með löngum hljómum sem sköpuðu gríðarlega stemningu. Fjórði kaflinn, um umbreytingu Jesú á Taborfjalli, var mjög hraður og hápunkturinn spennuþrunginn. Síðasti kaflinn, um stofnun altarissakramentisins sem mun hafa átt sér stað í síðustu kvöldmáltíðinni, var einnig hraður, taktfastur og fullur af gleði.

Í heild var gaman að konsertinum. Tónmálið var krefjandi og byggðist mikið á ómstríðum tónbilum, en það var líka glæsilegt, enda verkið afburðavel flutt af Thibaudet. Leikur hans var glitrandi, skýr og þróttmikill í hvívetna. Hljómsveitin spilaði einnig prýðilega og af miklu öryggi.

Tímalaust snilldarverk

Önnur samtímatónsmíð var á dagskránni, Vetrarhiminn eftir Kaiju Sariaaho. Hún kom vel út en jafnaðist ekki á við lokaverkið, þriðju sinfóníuna eftir Beethoven. Sinfónían þarfnast ekki margra orða, enda tímalaust snilldarverk sem kemur samt stöðugt á óvart, slíkur var óþrjótandi innblástur tónskáldsins. Skemmst er frá því að segja að tónlistin skilaði sér ákaflega vel undir öruggri og kröftugri stjórn Vänskä, öll smæstu blæbrigðin voru skýr og heildalínur prýðilega dregnar fram. Hljómsveitin var svo gott sem pottþétt; meira að segja hornin voru tær, og það gerist ekki alltaf. Heildarútkoman var svo sannarlega grípandi.

Niðurstaða:

Glæsilegur píanókonsert og stórbrotin sinfónía gerðu tónleikana eftirminnilega.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s