Raunverulegur innblástur er sjaldgæfur

Tónlist

4 og hálf stjarna

Opnunartónleikar Kirkjulistahátíðar

Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson, auk tónlistar eftir Messiaen. Flytjendur: Schola cantorum, Mótettkukór Hallgrímskirkju, Hátíðarhljómsveit Kirkjulistahátíðar. Einsöngvarar: Herdís Anna Jónasdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Oddur Arnþór Jónsson. Stjórnandi: Hörður Áskelsson.

Hallgrímskirkja

laugardaginn 1. júní

Í tónsmíðum eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Tónskáld sem hafa lítinn innblástur grípa stundum til þess bragðs að fela sig á bak við trúarlegt efni; það virkar svo djúpt. Útkoman getur verið afkáraleg, bæði ýkt og yfirborðsleg og á eftir er maður með óbragð í munninum. Þetta hef ég sem gagnrýnandi æði oft upplifað.

Ein af undantekningunum er Hafliði Hallgrímsson, en stórt verk eftir hann var frumflutt á opnunartónleikum Kirkjulistahátíðar á laugardaginn. Það bar nafnið Mysterium og var flutt af tveimur kórum, Schola cantorum og Mótettukór Hallgrímskirkju, hátíðarhljómsveit og fjórum einsöngvurum. Umfjöllunarefnið var hin leyndardómsfulla upprisa Krists eins og henni er lýst í Jóhannesarguðspjalli, og var textinn allur á latínu. Hann var þó ekki bara úr guðspjallinu, heldur fleygaður með allmörgum helgikvæðum frá ýmsum tímabilum.

Hafliði skapaði svipaðan texta í stórverki sínu, Passíunni, sem var frumflutt fyrir mörgum árum, en þar var textinn þó á íslensku. Passían var einstaklega áhrifarík og því var óneitanlega spennandi að heyra nýju tónsmíðina.

Andi kyrrðar og hugleiðslu

Skemmst er frá því að segja að hún olli ekki vonbrigðum. Ólíkt því sem gjarnan gerist í trúarverkum voru engin ódýr trix í tónmálinu, ekkert sem virkaði yfirborðslegt. Tónlistin var allan tímann myndræn og studdi við merkingu textans. Það er auðvitað eins og algilt er í óperum og öðru sem fjallar um áþreyfanlegt efni, en munurinn hér og víða annars staðar var að Hafliði leyfði sér að fylgja innsæinu. Tónlistin endurspeglaði textann, en svo var eins og hún tæki á sig sjálfstætt líf, öðlaðist sína eigin verund. Flæðið sem þá var í skáldskapnum var engu líkt. Þetta gerðist hvað eftir annað.

Yfirbragð tónlistarinnar var framandi, lítið um venjulega dúr- og mollhljóma, en þó voru hljómarnir ekki óþægilegir. Þeir voru fyrst og fremst annarlegir vegna þess að yrkisefnið var um óskiljanlega leyndardóma. Laglínurnar voru smástíga, þ.e. fóru sjaldnast yfir stór tónbil, en þannig virkuðu textalínurnar fókuseraðar og íhugular. Yfir öllu saman var andi hugleiðslu og kyrrðar, líka þegar mikið gekk á.

Flutningur vel heppnaður

Flutningurinn sjálfur, undir stjórn Harðar Áskelssonar, var yfirleitt prýðilegur. Einsöngvararnir, þau Herdís Anna Jónasdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Oddur Arnþór Jónsson stóðu sig vel. Helst mátti finna að dálítið máttlausum söng Herdísar. Kórarnir sungu hreint og af alúð, en af og til hefði mátt heyrast meira í þeim í samanburði við hljómsveitina. Hún spilaði samt ágætlega í sjálfu sér, þótt strengirnir hafi verið óhreinir á stöku stað. Isabelle Demers lék líka af kostgæfni á orgelið og hljómar þess runnu á sannfærandi hátt saman við heildina. Almennt talað var flutningurinn gæddur rétta andrúmsloftinu og skilaði meiningu tónskáldsins fyllilega til áheyrenda.

Mysterium tók um þrjú korter í flutningi. Á undan lék Isabelle Demers á orgelið af aðdáunarverðri fagmennsku tvo alvöruþrungna kafla úr Upprisunni eftir Messiaen. Tónmálið var ekki svo ósvipað, og voru kaflarnir því nánast eins og upphitun fyrir verk Hafliða. Fyrir bragðið kom það ennþá betur út og er tónskáldinu hér með óskað til hamingju með magnaða tónsmíð.

Niðurstaða:

Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson var sérlega tilkomumikið og glæsileg byrjun Kirkjulistahátíðar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s