Óheppilegar aðstæður á djasstónleikum

2 og hálf stjarna

Freyjujazz

Djasstónleikar með Theresiu Philipp, Juliu Hülsmann, Sunnu Gunnlaugs, Clöru Däubler, LIzzy Scharnofske og Stínu Ágústsdóttur.

Listasafn Íslands

Fimmtudagur 13. júní

Kynbundin mismunun á sér stað í djassinum eins og víðar. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós að karlar í djasshljómsveitum taka oftar sóló en konurnar. Þær eru líka sjaldnar leiðarar í hljómsveitunum og eru dæmdar harðar.

Hér á landi voru konur lengi vel lítið áberandi í djassheiminum, en það er að breytast. Í Listasafni Íslands er tónleikaröð sem nefnist Freyjujazz, en þar er áherslan á konur í djassi. Margir þessara tónleika hafa verið áhugaverðir og skemmtilegir.

Til heiðurs búferlaflutningum

Á tónleikunum á fimmtudaginn komu fram sex konur; fimm hljóðfæraleikarar og ein söngkona. Fjórar eru frá Þýskalandi, en tónleikarnir voru haldnir til heiðurs þeim tæplega 240 konum þaðan sem fluttu hingað eftir seinni heimsstyrjöld. Þýskaland var þá í rúst eins og nærri má geta, með engum möguleikum fyrir konur, og karlpeningurinn rýr eftir hildarleikinn. Búnaðarfélag Íslands sá sér leik á borði og auglýsti í Þýskalandi eftir konum í vinnu á bóndabæ. Það hafði þau áhrif að konur flykktust hingað.

Flytjendurnir á tónleikunum voru þær Theresia Philipp á saxofón, Julia Hülsmann og Sunna Gunnlaugs á píanó, Clara Däubler á bassa og LIzzy Scharnofske á trommur. Stína Ágústsdóttir söng. Lögin voru fjölbreytt, þau voru eftir hljómsveitarmeðlimina, en einnig brá fyrir þekktum standördum. Tónlistin var almennt mjög skemmtileg, bæði krefjandi og áhugaverð, en líka fjörleg og grípandi. Hljóðfæraleikurinn var í fremstu röð, tæknilega lýtalaus og hugvitsamlegur og djarfur.

Tvö atriði voru ekki í lagi

Tónleikarnir hefðu því átt að vera góðir, en því miður voru tvö atriði ekki í lagi. Endurómunin í Listasafni Íslands er gríðarleg og þegar svo margir komu saman magnaðist hljómurinn upp úr öllu valdi. Þetta var reyndar misslæmt eftir hljóðfærum. Einna best komu saxófónsólóin út, hljóðfærið er svo áleitið og skært að dálítið bergmál kemur ekki að sök. Píanóið hljómaði líka ágætlega, en trommusólóin voru ógurleg, drunurnar svo miklar að helst líktist loftárás. Í heild var samhljómurinn óþægilega gruggugur.

Hitt atriðið sem var ekki í lagi var of lágt stilltur söngur Stínu. Hljóðfæraleikurinn valtaði gersamlega yfir hann, og sat ég þó framarlega. Stína er lífleg söngkona, en hér naut hún sín engan veginn. Að hluta til má kenna því um hve rödd hennar hefur dökkt yfirbragð, fyrir vikið rann tónsvið hennar og hinna alltof mikið saman. En svo hefði líka bara átt að hækka í henni og synd að það var ekki gert. Heildarmyndin var alls ekki ásættanleg.

Niðurstaða:

Skemmtileg tónlist sem naut sín ekki í sal Listasafns Íslands.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s