Nektin umvafin á nýjum geisladiski

Geisladiskur

5 stjörnur

Benedikt Kristjánsson syngur Schubert og íslensk þjóðlög. Alexander Schmalcz leikur á píanó.

Genuin.

Þegar málaliði reyndi fyrir margt löngu að ræna tveimur börnum frá íslenskri konu og flytja þau til feðra sinna í Bandaríkjunum, tókst honum ekki betur upp en svo að hann var settur í fangelsi. Hann slapp hins vegar, og síðar er tekið var við hann viðtal, sagði hann: „Ef þú lendir í fangelsi á Íslandi, þá gengurðu bara út.“ Svipað ráð hefur verið gefið ef maður villist í skóginum hér á landi; það er best að standa upp.

Íslenskt landslag er nakið, og það endurspeglast í íslensku þjóðlögunum. Þar er ekkert prjál, ekkert glingur, ekkert skraut. Laglínurnar eru einfaldar, en hnitmiðaðar. Auðvitað hafa þær verið klæddar misíburðarmiklum útsetningum í gegnum tíðina, eins og t.d. þegar Þursaflokkurinn gaf út plötu með þeim á áttunda áratugnum. Sú plata var mjög skemmtileg, kröftug og lifandi. Útgáfan sem heyra má á nýútkominn plötu Benedikts Kristjánssonar tenórs er þó eins ólík og hugsast getur. Hann syngur lögin öll án undirleiks, nema Ísland farsælda frón, en þar spilar hornleikari mótröddina.

Fuðulegt samhengi

Maður gæti hugsað: Og hvað með það? Er fólk ekki alltaf að spila þessi þjóðlög og matreiða þau ofan í túristana í hinum og þessum búningi? Jú, en það sem hér er til umfjöllunar er miklu meira og frumlegra. Benedikt situr lögin í furðulegt samhengi, hann blandar þeim saman við ljóðasöng Schuberts. Þau lög eru eitthvað allt annað, teljast með því æðsta í fagurtónlistinni á meginlandinu. Munurinn á þeim og þjóðlögunum er sláandi.

En samt ekki. Lög Schuberts eru í meirihluta á diskinum, þjóðlögin koma inn á milli, og svo merkilegt sem það er, þá magnar annað hitt og öfugt. Ólík lögin skapa sterkar andstæður sín á milli; þar er dagur og nótt, vonleysi og gleði, harmur og hamingja.

Fullkomið flæði

Eina íslenska lagið sem er ekki þjóðlag er vögguvísa Jóns Leifs. Hún er mögnuð í meðförum Benedikts. Einstaklega fallegt er hvernig hann fer beint úr Sofðu, unga ástin mín yfir í vögguvísu Jóns, og þaðan yfir í Unglinginn við uppsprettuna eftir Schubert. Það síðastnefnda er hástemmt, fullt af birtu. Flæðið úr einu í annað er fullkomið, náttúrulegt og eðlilegt, eins og fallegur morgun eftir dimma nótt.

Benedikt hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í stórverkum Bachs. Enginn er betri í hlutverki guðspjallamannsins sem segir söguna inn á milli aríanna og kóranna. Hann er ekkert síðri hér. Söngur hans er dásamlega tær, í senn yfirvegaður og fullur af skáldavímu. Du bist die Ruh (Þú ert friðurinn) eftir Schubert er einhver unaðslegasti flutningur á laginu sem undirritaður hefur heyrt. Sama má segja um mörg önnur lög.

Píanóleikur Alexanders Schmalcz er einnig vandaður í hvívetna, agaður og nákvæmur, en líka þrunginn viðeigandi tilfinningum. Hornleikur Tillmanns Höfs í tveimur lögum er sömuleiðis flottur. Og upptakan er í prýðilegu jafnvægi tærleika og endurómunar. Það gerist varla betra.

Niðurstaða:

Tandurhreinn, fágaður, tilkomumikill söngur og frábær samsetning á lögum.

 

 

 

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s