4 og hálf stjarna
Söngtónleikar
Andri Björn Róbertsson söng lög eftir Schumann, Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar, Atla Heimi Sveinsson og Árna Thorsteinsson. Ástríður Alda Sigurðardóttir lék á píanó.
Hafnarborg
Föstudaginn 28. júní
Flestir kannast við ánægjuna við að detta í konfektið um jólin. Mér leið einhvern veginn þannig á opnunartónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg á föstudagskvöldið. Og það án þess að fá samviskubit.
Konfektmolarnir voru gömlu góðu lögin; Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns, Kall sat undir kletti eftir Jórunni Viðar, Nótt eftir Árna Thorsteinsson og mörg fleiri. Þau voru sungin af Andra Birni Róbertssyni bassa-bariton. Hann er ungur að árum og greinilega rísandi stjarna ef marka má söngferil hans erlendis upp á síðkastið, m.a. í Covent Garden óperuhúsinu í Lundúnum.
Óhætt er að segja að frammistaða Andra á tónleikunum í Hafnarborg hafi verið hrífandi. Hann hafði líka allt með sér. Röddin var mögnuð, í senn hljómmikil og tær, tæknin prýðileg og tilfinningin fyrir inntaki mismunandi laga ávallt sannfærandi. Útkoman var glæsileg í hvert sinn.
Tíminn stöðvaðist
Fyrsta lagið á efnisskránni var Á Sprengisandi. Krafturinn og tilþrifin í túlkuninni voru grípandi, áhrifin slík að manni fannst maður vera kominn á þeysireið á hestbaki úti í víðáttunni.
Næstu lögin voru einnig eftir Sigvalda, unaðslegar laglínur sem Andri söng af dásamlegri næmni og smekkvísi. Þar á eftir komu lög eftir Jórunni Viðar og Árna Thorsteinsson, og voru þau öll þrungin andakt, en líka léttleika þegar við átti. Friður á jörðu eftir Árna var svo seiðmagnað að það var sem tíminn stöðvaðist. Hvílíkir hápunktar!
Ríkuleg innlifun
Eftir hlé var söngljóðabálkur eftir Schumann á dagskránni, Liederkreis. Þar er hlutverk píanósins veigameira, raddir þess og söngvarans eru jafn mikilvægar. Ástríður Alda Sigurðardóttir lék á píanóið, og var leikur hennar sérlega vandaður, mjúkur og dreymandi, en líka snarpur og líflegur þegar tónlistin krafðist þess. Andri söng sömuleiðis af ríkulegri innlifun, mismunandi andrúmsloft var ætíð útfært af skáldlegum innblæstri.
Sönghátíðin í Hafnarborg er nú haldin í þriðja sinn. Þetta árið er hún tileinkuð minningu Atla Heimis Sveinssonar sem lést fyrir skömmu. Þau Andri og Ástríður fluttu eitt aukalag, sem var eftir Atla við ljóð eftir Jónas Hallgrímsson. Það var afar fagurt, laglínan dillandi og meðleikurinn hugljúfur; óneitanlega frábær endir á tónleikunum.
Niðurstaða:
Glæsilegur söngur og píanóleikur, falleg tónlist.