Steinaharpa og gasfylltir nótnahausar

4 og hálf stjarna

Kórtónleikar

Verk eftir Pál Guðmundsson og fleiri. Flytjendur; Kammerkór Suðurlands, Páll Guðmundsson, Andri Freyr Hilmarsson, Frank Aarnink og Hjörur B. Hjartarson.

Hafnarborg

laugardagur 29. júní

Á tónleikum í Hafnarborg á laugardaginn mátti sjá gasfyllta nótnahausa svífa upp og niður fyrir ofan sviðið. Kórmeðlimir allt í kring reyndu að syngja í takt við tónhæðina. Nótnahausarnir voru fjórir. Þetta voru svartar blöðrur sem höfundar gerningsins, Haraldur Jónsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir, létu ferðast um ímyndaðan tónstiga í loftinu, fram og til baka.

Hugmyndin að láta söngvara eða hljóðfæraleikara fylgja sjónrænum bendingum án þess að vita hvað kemur næst er ekki ný. Þetta var t.d. fastur liður á tónleikum tilraunahópsins SLÁTUR fyrir nokkru síðan. Þar voru bendingarnar þó yfirleitt á tölvuskjá, en á tónleikunum nú voru nóturnar lifandi.

Útkoman var kómísk; kórinn, Kammerkór Suðurlands, hefði kannski mátt fylgja bendingum betur, tónarunur upp og niður voru á köflum stirðar, en maður gat alla veganna flissað. Skrifuð tónlist er í eðli sínu dauð, bara nótur og nótnastrengir, bogar, þagnir og áherslur. Það þarf flytjendur í einhverri mynd til að hún öðlist líf. Nýstárlegt var því að sjá sjálfar nóturnar á hreyfingu og fullar af anda.

Nýjar víddir

Í heild voru þetta óvanalegir tónleikar. Þeir skiptust í tvennt. Fyrir hlé voru fjölmörg, mjög stutt verk eftir Atla Ingólfsson, Huga Guðmundsson, Benna Hemm Hemm, Elínu Gunnlaugsdóttur og fleiri. Textinn var úr ólíkum áttum, en öll tónlistin hafði á sér framandi blæ, bauð stöðugt upp á nýjar víddir. Eitt skemmtilegasta lagið var eftir fyrrnefndan Atla, tvíeggjað sverð þar sem annars vegar var falskur tónn, hins vegar hreinn. Þetta tvennt rann saman svo úr varð sérkennileg hljóðmynd, undarlega heillandi.

Skemmtilegt var hve sterkur heildarsvipur var á dagskránni fyrir hlé, þrátt fyrir að tónskáldin væru ólík. Kórstjórinn, Hilmar Örn Agnarsson, hafði auðheyrilega valið og raðað lögunum af smekkvísi. Flæði í söngnum var lýtalaust og óheft, líkt og um eitt heilsteypt verk væri að ræða.

Kliður úr álfaheimi

Dagsskráin eftir hlé var ekki síður spennandi. Þá voru flutt allmörg lög eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli í  útsetningum ýmissa tónlistarmanna. Lögin voru við ljóð mismunandi skálda og voru ávallt grípandi og falleg. Við kórsöngin var leikið á hljóðfæri sem Páll hefur smíðað, steinahörpur og flautur úr rabbarbara. Páll sjálfur spilaði með nokkrum öðrum músíköntum og þeir gerðu það allir vel. Útkoman var kliður sem auðveldlega mátti ímynda sér að kæmi úr einhverjum álfaheimi, hann var töfrandi og ómótstæðilegur.

Söngurinn var líka prýðilegur, kórmeðlimir voru ágætlega samstilltir, mismunandi raddir í góðu jafnvægi sín á milli. Saman voru þær þéttar og safaríkar. Kórstjórn Hilmars var kraftmikil og nákvæm, lífleg og innileg; maður naut hvers tóns. Meira svona, takk.

Niðurstaða:

Frumleg efnisskrá, flottur flutningur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s