Hryllingur í Hallgrímskirkju

4 og hálf stjarna

Orgeltónleikar

Tónlist eftir Berlioz, Oldfield, Alain og Bach. Yves Rechsteiner lék á orgel.

Hallgrímskirkja

sunnudagurinn 21. júlí

Í kvikmyndinni Sleeping With the Enemy frá árinu 1991 leikur Julia Roberts kúgaða eiginkonu. Maðurinn hennar er bilaður og beitir hana ofbeldi. Eitt af því sem hann gerir til að hrella hana er að spila hátt kafla úr Symphonie fantastique eftir Berlioz í stofugræjunum. Þetta er alltaf forleikurinn að því að hann gengur í skrokk á henni.

Tónlistin fjallar um mann sem er heltekinn af ást og upplifir fyrir vikið ofskynjanir. Þær enda á martröð þar sem illir andar og nornir koma við sögu. Tveir kaflar úr þessari mögnuðu sinfóníu voru á dagskránni hjá Yves Rechsteiner orgelleikara á tónleikum á sunnudaginn í röðinni Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju. Verkið er upphaflega samið fyrir sinfóníuhljómsveit, en Rechsteiner var hér búinn að snara því yfir á orgelið.

Dómsdagur

Útsetningin var sannfærandi, gædd fjölbreyttum litbrigðum, rétt eins og upphaflega útgáfan. Leikurinn sjálfur var öruggur, einkenndist af skýrleika og krafti, léttur og leikandi út í gegn. Hápunkturinn í lokin var glæsilegur og heildarútkoman stórfengleg.

Vert er að geta þess að í lokakafla Symphonie fantastique er sálmur úr Kaþólsku kirkjunni frá 13. öld, Dies irae, sem fjallar um dómsdag. Lagið hefur hljómað víða, það var t.d. upphafsstefið í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð og var líka spilað í byrjuninni á kvikmyndinni The Shining.

Særingamaðurinn

Enn önnur hryllingsmynd kom við sögu á tónleikunum, The Exorcist. Rechsteiner flutti fyrsta kaflann úr raftónverkinu Tubular Bells eftir Mike Oldfield, en byrjunin á því var einmitt notað sem upphafsstef kvikmyndarinnar.

Tubular Bells kom út í byrjun áttunda áratugarins, og er sérkennileg samsuða af þjóðlagatónlist, klassík, rokki og mínímalisma. Laglínurnar eru mjög grípandi og flæðið úr einum hluta í annan er óheft og ávallt spennandi. Gífurlega krefjandi var að leika margbrotna músíkina á orgel og má með sanni segja að Rechsteiner hafi baðað út öllum öngum. Hann lék ógnarhratt með fótunum, og ekki bara á fótstigið, sem er heilt hljómborð í sjálfu sér, heldur sparkaði hann líka af og til í takka við hliðina, til að breyta um stillingar. Þetta þurfti hann að gera eldsnökkt.

Á sama tíma og fæturnir dönsuðu salsa eftir hljómborðinu voru hendurnar á fleygiferð, maður bjóst hálfpartinn við að organistinn spilaði með nefinu. Hann var á við marga hljóððfæraleikara. Upp í hugann kom Arnold Schwarzenegger í lokahnykknum á hinum ýmsu spennitryllum, þar sem hann er með stórt vopnabúr meðferðis, eins manns herdeild sem leggur allt í rúst. Þetta var flott.

I‘ll be Bach…

Lokaatriðið á tónleikunum voru þjú smástykki eftir Jehan Alain, Fantasmagorie, Aria og Litanies. Þau einkenndust af hnitmiðuðum endurtekningum, sem uxu upp í miklar tónasprengingar í lokin. Flutningurinn var þrunginn smitandi ákefð, tæknilega pottþéttur og flottur.

Aukalagið var enn ein útsetningin, að þessu sinni byrjunin á fyrstu einleikssvítu Bachs fyrir selló. Hún rann ljúflega niður eftir allan gauraganginn á undan, frábær endir á dagskránni á þessari skemmtilegu tónleikaröð í Hallgrímskirkju.

Niðurstaða:

Snilldarlegar útsetningar, grípandi tónlist, framúrskarandi flutningur.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s