Ódauðleg lög Sigvalda Kaldalóns

Geisladiskar

4 og hálf stjarna

Ég lít í anda liðna tíð og Svanasöngur á heiði

Minningarsjóður Sigvalda Kaldalóns, Fermata

Ég sá því nýlega haldið fram á Facebook að munurinn á popplagi og sinfóníu sé eins og munurinn á hringekju og epískri skáldsögu. Það getur vel verið, en þá má líka benda á að ekki er sjálfgefið að semja popplag. Allir skilja poppið; menn heyra á augabragði ef eitthvað virkar ekki. Ómögulegt er að fela sig á bak við akademískar kúnstir ef innblásturinn vantar, eins og stundum gerist í íburðarmeiri tónverkum.

Sigvaldi Kaldalóns (sem var læknir) samdi einföld lög, einfaldar melódíur sem eru stuttar, ólíkt sinfóníunum. Hann hafði fábrotna tónlistarmenntun miðað við mörg önnur tónskáld, var að mestu leyti sjálfmenntaður. Engu að síður hafði hann þann merkilega hæfileika að geta samið grípandi laglínur, og svo virðist sem þær hafði bókstaflega runnið upp úr honum. Hann þurfti ekki annað en að setjast við píanó með eitthvert ljóð fyrir framan sig og lagið varð til í einni sviphendingu. Mörg tónskáld myndu gefa útlim fyrir slíka getu.

Ófáanlegir komnir út aftur

Fyrir rúmum áratug var ráðist í að hljóðrita öll einsöngslögin eftir Sigvalda og út komu tveir tvöfaldir geisladiskar, sá fyrri árið 2004 en hinn síðari 2006. Þeir hafa verið ófáanlegir um langt skeið, og því er mikill fengur að því að þeir séu nú komnir út aftur. Afhverju? Vegna þess að lögin eru dásamleg. Þau eru konfektmolar sem ekki er hægt að fá nóg af.

Jónas Ingimundarson píanóleikari hafði listræna stjórn með útgáfunni, deildi lögunum á milli óperusöngvaranna sem á þessum tíma voru mest áberandi í tónlistarlífinu. Þetta eru söngvarar á borð við Ólaf Kjartan Sigurðarson, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Sesselju Kristjánsdóttur, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Bergþór Pálsson og fleiri.

Jónasi hefur tekist vel að velja réttu söngvarana í mismunandi lögin, valinn maður er í hverju rúmi, alveg eins og í góðri bíómynd. Gunnar Guðbjörnsson, með sína fögru rödd, syngur glæsileg lög á borð við Hamraborgina; Jóhann Friðgeir Valdimarsson er stórbrotinn í aríukenndum lögum; húmorinn og leikurinn er aldrei langt undan hjá Bergþóri Pálssyni, og gríðarlegar tilfinningar eru í söng Ólafs Kjartans Sigurðarsonar. Þannig mætti lengi telja.

Hrífandi lög

Sérstaklega verður að geta söngs Guðrúnar Jóhönnu. Hann er afar fallegur, svo hjartahlýr og ljóðrænn að maður fellur í stafi. Langt er síðan ég hef heyrt eitthvað jafn hrífandi og Vöggubarnsins mál eða Lofið þreyttum að sofa. Þessi tvö lög eru ekki jafn þekkt og margt annað eftir Sigvalda, en ættu svo sannarlega að vera það.

Jónas spilar af ríkulegri tilfinningu á píanóið, hann kann þá list að syngja á hljóðfærið og leikur hans er ávallt skreyttur fínlega ofnum blæbrigðum. Auðheyrt er að hann elskar tónlist Sigvalda, sú ástríða rennur saman við sönginn svo úr verður magnaður seiður.

Þess ber að geta að lög Sigvalda eru um helmningi fleiri en hér er að finna, en þá eru kórlögin meðtalin. Örfá einsöngslög komust ekki fyrir á geisladiskinum, en í undirbúningi er útgáfa á öllum kórlögunum, og einsöngslögin sem eftir urðu verða þar. Óhætt er að hlakka til.

Niðurstaða:

Sérlega vel heppnuð útgáfa á einsöngsperlum Sigvalda Kaldalóns.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s