Roooooosalega langir tónleikar

2 stjörnur

Kammertónleikar

Verk eftir Cutright, Elgar, Sjostakóvitsj, Yi, Kimura, Bruce, Áskel Másson og Þráinn Hjálmarsson.

Flytjendur voru aðstandeendur og þátttakendur í Harpa Internation Music Academy.

Norðurljós í Hörpu

fimmtudaginn 15. ágúst

„Fyrirgefðu, herra minn, en veistu nokkuð hver stjórnandinn er hér á tónleikunum?“ Ölduð kona sem sat við hliðina á mér spurði mig. Ég ypti öxlum. Virðulegur maður með vingjarnlegt bros stjórnaði hljómsveitunum. Þær samanstóðu ýmist af langt komnum strengjanemendum, eða atvinnuhljóðfæraleikurum. Líklegast var þetta Eugene Drucker ef marka má heimasíðu viðburðarins, en það er þó ekki alveg á hreinu.

Um var að ræða hátíðartónleika Harpa International Music Academy, sem stendur fyrir námskeiðum á sumrin í Hörpu. Efnisskráin var úr ýmsum áttum, en var ekki nægilega vel byggð upp, auk þess sem tónleikaskráin var í skötulíki. Engar upplýsingar voru þar um verkin og sú sem kynnti dagskrána virtist ekki átta sig á að hún var á sviðinu í sal, en ekki í litlum klefa. Það sem heyrðist var aðallega muldur, ef maður sat langt í burtu.

Nemendurnir léku af kostgæfni

Flutningurinn á tónleikunum var yfirleitt góður. Nemendurnir spiluðu ágætlega, þeir voru samtaka og einbeittir. Atvinnuhljóðfæraleikararnir léku oftast fallega, en sumt virtist þó ekki hafa verið sérlega mikið æft.

Hið fjörlega Shuo eftir Chen Yi virkaði flausturlegt hjá fimm hljóðfæraleikurum, og Steampunk eftir David Bruce var býsna losaralegt, fyrir utan hvað það var leiðinlegt. Sumir tónar voru ekki hreinir og samspilið fremur ófókuserað. Sennilega átti tónlistin að vera fyndin því hljóðfæraleikararnir voru í 19. aldar búningum. Afhverju í ósköpunum? Gerningurinn missti fullkomlega marks. Flytjendunum var þó vorkunn; á þessum tímapunkti var liðið vel á þriðja klukkutímann, sem er alltof langt fyrir svona tónleika. Fólk hlýtur að hafa verið orðið þreytt.

Tvær íslenskar tónsmíðar voru fluttar, og komu báðar prýðilega út. Eftirspilið úr óperunni Sölumaður deyr eftir Áskel Másson var fallegt, mjög lagrænt og tilfinningaþrungið, dáleiðandi í einfaldleika sínum. Hið kyrrláta Immaterial/Fleeting eftir Þráin Hjálmarsson var líka flott, það byggðist á síeundurteknum, ofurveikum hljómum, á mörkum hins heyranlega, eins og hugleiðing um eilífðina.

Súrrealískt fiðluverk

Áhugaverðasta verkið á dagskránni var þó eftir Mari Kimura, sex kaprísur, eða glettur, eins og orðið capriccio hefur verið snarað yfir á íslensku. Tónlistin hverfðist um tæknina sem er notuð til að spila lægri tóna en náttúrulegt telst fyrir fiðluna. Mikið var því um djúpa og dálítið skringilega tóna. Í heild var tónlistin skemmtilega duttlungafull, hröð, létt og leikandi; nánast súrrealísk. Tónskáldið sjálft spilaði af yfirburðum. Leikur hennar var tær og kraftmikill; útkoman glæsileg.

Eins og áður segir voru tónleikarnir skelfilega langir, og upplýsingarnar um tónlist og flytjendur af skornum skammti. Námskeiðin í Hörpu eru vissulega frábær og hafa mælst afar vel fyrir, en hér hefði þurft að tálga aðeins dagskrána og að sumu leyti vanda betur til verka.

Niðurstaða:

Allt of langir tónleikar, flutningurinn var misgóður og efnisskráin á köflum lítt áhugaverð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s