Samkynhneigðir kórar sungu frá hjarta

4 stjörnur

Kórtónleikar

Rock Creek Singers og Hinsegin kórinn sungu blandaða dagskrá. Stjórnendur: Dr. Thea Kano og Helga Margrét Marzellíusardóttir.

Norðurljós í Hörpu

miðvikudaginn 14. ágúst

Orðið negrasálmur, sem ég ólst upp við, þykir ekki við hæfi lengur. Skemmst er að minnast þess þegar kurr skapaðist vegna tónleika sem haldnir voru í Akureyrakirkju fyrir fimm árum. Á plakatinu var talað um negrasálma og mynd var af afrískum þræl í hlekkjum. Það mæltist ekki vel fyrir. Þannig tónlist var þó í öndvegi á tónleikum Hinsegin kórsins í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudagskvöldið. Stjórnandi kórsins, Helga Margrét Marzellíusardóttir, sagði í ávarpi á undan einum sálminum að finna yrði nýtt orð við þessa tónlist og stakk upp á amerískum þrælasöngvum.

Um er að ræða trúarlega söngva sem þrælarnir í Bandaríkjunum sömdu, yfirleitt til að stytta sér stundir við vinnuna á plantekrunum. Þetta er áleitin tónlist með grípandi viðlögum og magnaðri undiröldu; ótal slík lög eru til. Þau fjalla um mikilvægi kristinna gilda, en inn í þau fléttast frásagnir af erfiðri vist þrælanna.

Tengd réttindabaráttu samkynhneigðra

Þrælasöngvarnir voru með þeim skemmtilegustu á dagskránni, bæði hjá Hinsegin kórnum, sem er blandaður og taldi rúmlega fjörutíu manns, og einnig gestakórnum. Hann heitir Rock Creek Singers og samanstóð af 18 samkynhneigðum karlmönnum. Söngur karlanna var hástemmdur, tær og vandaður, í góðu innra jafnvægi og með fallegan heildarhljóm. Inn á milli laganna kynntu kórmeðlimir, eða stjórnandinn, Dr. Thea Kano, efnisskrána. Þau blönduðu gjarnan sögum úr eigin lífi við kynninguna, og oftar en ekki tengdist hún réttindabaráttu samkynhneigðra. Það var hjartnæmt; söngurinn var ekki bara einhver söngur, heldur ákall um bætt samskipti og minni fordóma, frelsi til að lifa lífi sínu eftir eigin geðþótta.

Eins og áður sagði voru þrælasöngvarnir áberandi hjá Rock Creek Singers, en þarna voru líka þekkt dægurlög og meira að segja Hærra, minn Guð, til þín í nokkuð poppaðri útsetningu með glæsilegum hápunktum sem komu einkar vel út.

Kórinn vill stækka

Hinsegin kórinn söng einnig ágætlega. Heildarhljómurinn var hreinn og tilkomumikill; helst mátti finna að fremur veikri altrödd, sem sennilega skortir bara fleiri söngvara. Enda er það yfirlýst markmið kórsins að stækka upp í 300 manns! Í það heila var söngurinn samt prýðilegur, fullur af lífi og einlægum tilfinningum; sönggleðin var svo sannarlega smitandi. Efnisskráin var fjölbreytt en þó innan dægurlagageirans, og væri of langt mál að telja hana alla upp hér. Hún var öll skemmtileg og tengdist málefnum samkynhneigðra á einn eða annan hátt.

Með íslenska kórnum lék Halldór Smárason á píanó. Það var miður að hann var aldrei kynntur, ekki einu sinni í lok tónleikanna eins og gjarnan tíðkast. Hann fór á kostum, leikur hans var nákvæmur og kröftugur, afar fjöllbreyttur með skemmtilegum djassinnskotum þegar við átti. Var það ekki síst píanóleikaranum að þakka hve tónleikarnir tókust vel.

Niðurstaða:

Sérlega líflegir og skemmtilegir tónleikar með frábærri tónlist.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s