Úps!

4 stjörnur

Söngtónleikar

Lög eftir Kurt Weill í flutningi Bjarkar Níelsdóttur og Matthildar Önnu Gísladóttur.

Gljúfrasteinn

sunnudagur 11. ágúst

Það er gaman að koma á tónleika í Gljúfrasteini. Stofa skáldsins er falleg, viðarklæddir veggirnir eru hlýlegir. Á sófaborðinu er veglegt silfurbox fyrir sígarettur ásamt öskubökkum; minnisvarði um það þegar sjálfsagt þótti að reykja hvar sem var. Maður upplifir tímaleysi, þarna stendur tíminn í stað.

Tónleikar eru haldnir reglulega í Gljúfrasteini, og vegna þess að stofan er bara venjuleg að stærð, 35-40 fermetrar á að giska, þá skapast skemmtileg nálægð við listafólkið. Á sunnudaginn var komu þarna fram þær Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari og Björk Níelsdóttir sópran, en hún var valin bjartasta vonin á Tónlistarverðlaununum í fyrra.

Óvanalega vítt verkefnasvið

Björk átti þau verðlaun fyllilega skilið. Undanfarið hefur hún vakið athygli fyrir glæsilega frammistöðu. Rödd hennar er fögur og hún miðlar ætíð athyglisverðri listrænni sýn til áheyrenda.

Verkefnaval hennar er óvanalega breytt. Á meðan aðrir tónlistarmenn halda sig innan marka ákveðinnar greinar; ljóðasöngs frá rómantíska tímanum, túlkun kassastykkjanna úr óperugeiranum eða framúrstefnu, þá er Björk jafnvíg á hvað sem er. Ég hef heyrt hana syngja aðalhlutverkið í aðgengilegri barnaóperu og leika sér að djörfustu tilraunatónlist eins og ekkert væri, auk þess sem hún hefur spilað á trompet út um allan heim með heimsfrægu tónlistarfólki. Nú bætti hún leikhústónlist Kurts Weill við safnið sitt og það var ekkert síður skemmtilegt.

Fjölbreytt lög

Lögin eftir Weill eru melódísk og grípandi, en samt ekki einföld. Hljómagangurinn í þeim er margbrotinn og oft óvæntur, stundum grípur píanóleikarinn laglínurnar á lofti á meðan söngvarinn brestur í tal. Lögin á efniskránni voru fjölbreytt, þarna var vangalagið Je ne t‘aime pas, grínlag um hoppandi kjötbollur, Surabaya Johnny, sem fjallar um ástarsorg, og fleira.

Lögin voru á mismunandi tungumálum, enda starfaði Weill í ólíkum heimshornum eftir að hann flúði frá Þýskalandi nasismans. Eitt var meira að segja í íslenskri þýðingu, en það var Sjóræningja-Jenny úr Túskildingsóperunni. Það var mjög fyndið. Björk brá sér í hlutverk morðóðs sjóræningja og söng: „Þegar hausarnir rúlla, þá segi ég úps“ og vakti það mikla kátína tónleikagesta.

Söngurinn var ávallt glæsilegur; Björk söng hvert lag af ríkulegri tilfinningu og tæknilegum yfirburðum. Röddin var tær og jöfn hvarvetna á tónsviðinu. Matthildur Anna spilaði svo af kostgæfni á píanóið, leikur hennar var vandaður og nákvæmur, lifandi og fullur af innlifun.

Endurómunin í stofunni var reyndar minni en ákjósanlegt er, en nálægðin við söngkonuna bætti það upp og úr skapaðist notaleg, hlýleg stemning. Útkoman var mögnuð.

Niðurstaða:

Skemmtilegir tónleikar; glæsilegur flutningur, flott tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s