5 stjörnur
Djasstónleikar
Gwilym Simcock lék að mestu eigin tónlist á tónleikaröðinni Djass í Salnum.
Salurinn í Kópavogi
þriðjudaginn 15. október
Hver er munurinn á djasstónlistarmanni og extrastórri pizzu? Pizzan mettar fjögurra manna fjölskyldu, en það gerir djasstónlistarmaðurinn ekki. Þessi brandari kom upp í hugann á tónleikum í Salnum í Kópavogi á þriðjudagskvöldið. Gwilym Simcock píanóleikari hélt þar einleikstónleika, og hann er einn af fremstu djasstónlistarmönnum heims. Hafði einhver áhuga? Nei, varla. Ég taldi áheyrendur ekki sérstaklega, en þeir hafa ekki verið fleiri en fimmtíu. Það var eins og að vera á einhverri sýningu fyrir frík, og vera sjálfur eitt af fríkunum.
Þeir sem heima sátu misstu af miklu. Einu sinni skrifaði ég um ónefndan djasspíanóleikara að leikur hans hafi verið stirður, tónmótunin skort karakter; hún hafi verið of flöt, ekkert kom á óvart, ekkert djúsí, þetta hafi bara verið daufur undirleikur. Einhver mótmælti þessu á Netinu og sagði að ég væri alltof klassískur í viðmiðum; djasspíanóleikur lyti einfaldlega öðrum lögmálum sem ég virtist ekki vera meðvitaður um.
Þetta er auðvitað tóm vitleysa. Samanburðurinn við þennan ónefnda og Simcock var eins og dagur og nótt. Simcock er ekki bara einhver djassgeggjari sem spilar standarda með smá stirðu imprói af og til. Nei, hann er hámenntaður píanóleikari sem greinilega hefur hlotið gríðarlega skólun, bæði í heimi klassískrar tónlistar og djassi. Leikur hans á tónleikunum var algerlega áreynslulaus. Tónmyndunin var lýtalaus, hún var lýrísk og fáguð; tæknin að öllu leyti fullkomin. Hröðustu tónahlaup voru tær og nákvæm, mörkin á milli undir- og aðalraddar ávallt auðheyrileg; mismunandi raddir í prýðilegu jafnvægi.
Samanburður við Keith Jarrett
Meginuppistaðan í efnisskránni var nýútkomin plata Simcocks, Near and Now. Þar er tónlistin öll helguð ýmsum átrúnaðargoðum píanistans, mönnum á borð við Brad Mehldau, Billy Childs og Egberto Gismonti. Simcock sagði á tónleikunum að auk þess að spila reglulega opinberlega (hann er í kvartett Pats Metheny) sinnti hann líka kennslu. Hann tæki eftir því aftur og aftur að allir væru að reyna að vera frumlegir, enginn vildi hljóma eins og einhver annar. Því væri öfugt farið á Near and Now, Simcock væri þar einmitt að semja tónlist í anda mismunandi meistara.
Simcock nefndi það að hann hefði upphaflega ætlað sér að verða klassískur konsertpíanóleikari, og eitt af því sem hann spilaði á tónleikunum var eigin djassútgáfa á hæga kaflanum í píanókonsertinum eftir Grieg. Það var einstaklega skemmtilegt, flæðið úr upphaflegum hljómunum í verkinu yfir í djassinn var eðlilegt, án tilgerðar. Heildarútkoman var afar falleg.
Almennt talað var tónlistin á tónleikunum ekki bara „lög“ þar sem lítið gerist annað en einhver ein stemning, heldur var farið með mann í ferðalag aftur og aftur. Upplifunin var ekki ósvipuð því sem gerist á mörgum plötum Keiths Jarret. Framvindan, atburðarrásin í tónlistinni var litrík og spennuþrungin, hún tók óvæntar stefnur aftur og aftur. Stemningin var ætíð þrungin einhverju ósegjanlegu sem ekki verður komið orðum að; tónlistin sagði einfaldlega allt. Þetta var magnað.
Niðurstaða:
Algerlega frábærir tónleikar með dásamlegri tónlist.