Fiðluleikari af holdi og blóði

5 stjörnur

Joshua Bell og Alessio Bax fluttu verk eftir Schubert, Franck, Bach og Ysaÿe.

Eldborg í Hörpu

sunnudaginn 20. október

Eitt kvöld birtist fiðluleikarinn Niccolo Paganini á götum Lundúna. Fólk æpti af skelfingu og sumir hlupu í burt. Aðrir, sem voru hugrakkari, gengu hikandi til hans og snertu til að fullvissa sig um að hann væri af holdi og blóði. Paganini spilaði betur á fiðlu en nokkur annar. Leikni hans var þvílík að hann hlaut að hafa selt sál sína Djöflinum.

Atburðurinn átti sér stað um miðja nítjándu öldina. Árið 2007 birtist annar fiðluleikari meðal almennings, að þessu sinni í neðanjarðarlestarstöð í Washington. Hann spilaði Bach í 45 mínútur. Öllum var sama. Enginn æpti af skelfingu, enginn reyndi að koma við hann. Menn flýttu sér framhjá, sumir hentu einhverju klinki til hans.

Þetta var Joshua Bell, einn frægasti fiðluleikari heims. Hann var að taka þátt í tilraun til að sjá hversu almenningur væri meðvitaður um veröld klassískrar tónlistar. Furðuleg uppákoman var kvikmynduð með falinni myndavél og má sjá hana á YouTube. Hún er sorgleg, það er dapurlegt að upplifa hve fólk er gersamlega lokað fyrir ótrúlegri fegurðinni, sem er þó aðeins í nokkurra metra fjarlægð.

Kaþólsk trúarvíma

Áheyrendur voru hins vegar allir með á nótunum þegar Bell kom fram á tónleikum í Eldborg Hörpu á sunnudagskvöldið. Með honum lék Alessio Bax á píanó og dagskráin vakti mikla lukku. Hún hófst með rondói í h-moll eftir Schubert, óvanalega glæsilegu verki sem sýndi vel tæknilega yfirburði fiðluleikarans. Leikni hans var ótrúleg, öll tónahlaup voru framkvæmd af aðdáunarverðu öryggi. Þau voru skýr, jöfn og tandurhrein.

Næsta tónsmíð,  sónatan í A-dúr eftir Cesar Franck, bauð upp á meiri listræn tilþrif. Þar var talsvert um langa, draumkennda tóna og hástemmdar laglínur. Bell hafði þær fullkomlega á valdi sínu og lék af gríðarlegri andakt. Franck var lengst af orgelleikari og tónlist hans er gegnsýrð af kaþólskri trúarvímu. Bell náði að skila þessari stemningu til áheyrenda, og það gerði píanóleikarinn, Bax, líka. Hann var þar ekki í neinu undirleikshlutverki, bæði hljóðfærin eru jafn mikilvæg. Bax lék af innblásinni fegurð.

Engar beinagrindur

Ekki síðri var fjórða sónatan eftir Bach, sem var upphaflega hugsuð fyrir fiðlu og sembal, forföður píanósins. Semballinn hefur sinn sjarma, en hann hljómar stundum eins og beinagrindur að elskast uppi á blikkþaki. Píanóið býr yfir mun meiri mýkt og fjölbreytileika. Hér var tónlistin lífræn, hljóðfærið skapaði hlýlegt andrúmsloft. Fyrsti kaflinn, sikileyskur dans, var svo yndislega fallegur hjá báðum hljóðfæraleikurunum að maður komst við.

Lokaverkið var einleikssónata eftir Eugene Ysaÿe, rafmagnað verk sem er afskaplega erfitt í flutningi, en Bell hristi það fram úr erminni. Þetta er dramtísk tónlist, full af átökum, myrk og seiðandi; útkoman var stórfengleg.

Bell kynnti þrjú aukalög í lokin, konfektmola eftir Clöru Schumann, Wieniawski og Chopin, sem öll runnu ljúflega niður. Hann er hinn viðkunnanlegasti náungi sem hrósaði Eldborginni, sagði hana vera besta tónleikasal í heimi, betri en Carnegie Hall. Við megum svo sannarlega vera stolt af Hörpunni sem hefur lyft tónlistarlífinu á Íslandi upp um nokkrar hæðir.

Niðurstaða:

Stórkostlegir tónleikar með mögnuðum flytjendum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s