Ingibjörg, Ingibjörg og Ingibjörg

3 stjörnur

Tónlist eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur við ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur. Ingibjörg Fríða Helgadóttur söng.

Kaldalón í Hörpu

fimmtudaginn 14. nóvember

Einu sinni sátu þrjú tónskáld á kaffihúsi. Það voru þeir Rimskí-Korsakoff, Skrjabín og Rakhmanínoff. Umræðuefnið var hvernig tónlist er á litinn. Hinir tveir fyrrnefndu sögðust sjá tónana ekkert síður en að heyra þá. Fljótlega voru þeir farnir að rífast heiftarlega um það hvort E-dúr væri appelsínugulur eða blár. Rakhmanínoff var jarðbundnari og horfði hneykslaður á félaga sína, en sagði fátt.

Tvær konur sem báðar heita Ingibjörg, kváðust líka vera ósammála um hvernig tónar og lög væru á litin. Þetta var á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Þær voru þó sammála um að eitt lagið, sem bar titilinn Angist, væri brúnt. Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki neitt slíkt á tónleikunum. Lagið var engu að síður fallegt, draumkennt og innhverft, melódían hrífandi og innileg, undirspilið kliðmjúkt og fínlegt.

Margbrotin áferð

Þessi draumkennda stemning var ráðandi á tónleikunum, en lögin voru flest eftir aðra listakonuna, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Hún útskrifaðist í tónsmíðum frá LHÍ fyrir þremur árum. Tónlist hennar ber miklum hæfileikum vitni. Margbrotinn hljóðheimur, sem framkallaður var með ólíkum hljóðfærum, myndaði fjölbreytt tónbrigði. Tónskáldið spilaði sjálft á næstum öll hljóðfærin, sem voru píanó, klarinetta, lítið sofuorgel,  þumlapíanó, langspil og hvaðeina. Hljóðfæraleikurinn var ávallt vandaður; helst mátti finna að píanóleiknum, sem var dálítið varfærnislegur.

Textinn var úr ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur og þriðja Ingibjörgin, sem einnig heitir Fríða og er Helgadóttir, söng, en nafna hennar tók líka af og til undir. Ljóðin eru meitluð, stundum bara fáein orð sem samt segja heila sögu. Í takt við það voru laglínurnar grípandi. Þær voru einfaldar og byggðust gjarnan á markvissum endurtekningum.

Takmarkaður söngur

Ingibjörg Fríða söng í einskonar vísnasöngsstíl, söngurinn var hreinn en nokkuð takmarkaður. Ekki mikil breidd var í tilfinningum, lögin voru of keimlík í meðförum söngkonunnar. Ákveðin krúttstemning var ríkjandi í túlkuninni, sem fór lögunum misvel. Þessi stemningin var undirstrikuð víða með spiladósum og undir einu laginu heyrðist barnshjal úr hátölurunum, sem gerði ekkert fyrir tónlistina.

Ríkulegur hljóðheimur mismunandi hljóðfæra skapaði samt sem áður margt fallegt; upphafslagið, þar sem píanóið líkti eftir brimi, var t.d. heillandi, og baðstofustemningin í laginu Húm við langspilsundirleik var sterk. Þannig mætti lengi telja. Skáldavíman var alltaf til staðar í lögunum.

Listkonurnar hyggjast á upptökur á lögunum, sem er góð hugmynd;  brothættur söngurinn kemur örugglega betur út í hljóðupptöku en á lifandi tónleikum, og lögin sjálf, brún, appelsínugul og blá, eiga það svo sannarlega skilið að heyrast víðar.

Niðurstaða:

Viðkvæmur söngurinn var misáhugaverður, en lagasmíðarnar voru innblásnar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s