Svanavatnið náði ekki flugi

3 stjörnur

Tsjajkovskí: Svanavatnið. Hátíðarballettinn í St. Pétursborg og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vadim Nikitin stjórnaði. Danshöfundar: Marius Petipa og Lev Ivanov. Aðalhlutverk: Nikita Moskalets, Irina Khandazhevskaya, Anton Bashmakov og Sergey Dubrovin.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 22. nóvember

Ballett er vinsæll hjá ungum krökkum, stúlkum aðallega. Á undan sýningunni á Svanavatninu eftir Tsjajkovskí í Hörpu á föstudagskvöldið margar litlar telpur með ballethnút í hárinu, og eftirvæntingin skein úr andlitinu. Þarna var ævintýri að fara að gerast. Eða hvað?

Svanavatnið byggir á sögunni um prinsessuna Odette sem vondur galdramaður breytir í svan, en hún er samt alltaf í mannsmynd á næturnar. Sigfried prins uppgötvar hana í ljósaskiptunum og verður ástfanginn af henni. Hún segir honum að ef hann heiti henni ævarandi tryggð, verði álögunum létt, en galdramaðurinn villir um fyrir honum og sagan endar illa.

Verkið var sett upp af Hátíðarballett Pétursborgar, hinum sama og setti upp Hnotubrjótinn í fyrra, sem var dásamleg sýning. Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg spilaði stórkostlega tónlistina og Vadim Nikitin stjórnaði. Það merkilega er að ballettinn sló ekki í gegn fyrr en að tónskáldinu látnu, tónlistin þótti svo fyrirferðamikil og nýstárleg. Á þessum tíma var ballettónlist sviplítil, ef ekki stöðnuð, en Tsjajkovskí heillaðist af ballettinum og samdi átakamikla, ástríðuþrungna tónlist. Í dag er hún meðal öndvegisverka tónbókmenntanna.

Máttlaus hljómsveitarstjórn

Sýningin var að mörgu leyti glæsileg. Sviðsmyndin var að vísu nokkuð flöt og mun litlausari en í fyrra. Dansararnir voru hins vegar afar flinkir, þeir svifu um sviðið í fallegum búningum, hreyfingarnar voru prýðilega samhæfðar og mörg hópatriðin aðdáunarverð. Aftur á móti náði sagan sjaldnast neinu flugi, og má m.a. kenna þar um máttlítilli hljómsveitarstjórn Nikitins. Honum tókst aldrei að magna upp áhrifamikla stígandi. Tónlist Tsjajkovskís einkennist af glæsileika og snörpum andstæðum, hrífandi laglínum og spennuþrungnum hápunktum, en þeir skiluðu sér seint. Tæknilega séð var hljómsveitarleikurinn þó yfirleitt góður, helst mátti finna að einleiksfiðlunni, sem var með heldur miklu víbratói og virkaði því ansi einkennilega heilt yfir.

Á sýningunni var alltaf verið að klappa á milli atriða, sem er auðvitað eðlilegt, en hér var útkoman eins og verkið væri ekki annað en samansafn af skrautatriðum. Sjálf sagan lifnaði ekki við, dramað og sársaukin var ekki fyrir hendi í leiknum, það var aldrei neitt flæði. Þetta var fyrst og fremst tækni og yfirborðsmennska, fremur en innihald. Manni var því slétt sama um meinleg örlög elskendanna, töfrana einfaldlega vantaði.

Niðurstaða:

Yfirborðsleg sýning sem átti sín augnablik, en var býsna flatneskjuleg þegar á heildina er litið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s