Far niður… fjandans limur

3 og hálf stjarna

Verk eftir Hjalta Nordal, Þorkel Nordal og Jón Nordal. Flytjendur: Dómkórinn, Björn Steinar Sólbergsson, Frank Aarnink, Hávarður Tryggvason, Inga Rós Ingólfsdóttir og Tinna Þorsteinsdóttir. Einsöngvarar: Harpa Ósk Björnsdóttir og Jón Svavar Jósefsson. Stjórnandi: Kári Þormar.

Hallgrímskirkja

sunnudaginn 24. nóvember

Særingamaðurinn, The Exorcist, er ein magnaðasta hrollvekja allra tíma. Á Netflix er að finna heimildarmynd eftir sama leikstjóra, William Friedkin, sem fjallar um raunverulegar andasæringar. Þær virðast talsvert saklausari en í skáldskapnum og eru a.m.k. mjög frábrugðnar Umbót eftir Hjalta Nordal, en verkið var flutt í Hallgrímskirkju á sunnudaginn. Umbót byggir á einhverju orðljótasta særingakvæði sem um getur, Snjáfjallavísum hinum síðari. Jón lærði Guðmundsson orti þær í viðureign við einstaklega illskeyttan draug. Kvæðið samanstendur af formælingum: „Far niður, fýla, fjandans limur og grýla… Fúll fjandans bolur…“

Of einsleitt

Tónlistin var flutt af Dómkórnum og nokkrum hljóðfæraleikurum, en Kári Þormar stjórnaði. Í takt við kvæðið var músíkin brjálæðisleg, ómstríð og fráhrindandi. Auðvitað er ekkert að því, listaverk eiga síður en svo að vera alltaf sæt og hugguleg. Vandamálið hér var að ekkert gerðist annað en skrækir í kórnum og barsmíðar hljóðfæraleikaranna, án merkjanlegrar stígandi. Fyrir bragðið var tónlistin aðeins hávaði, það vantaði í hana einhvers konar framvindu og dýpt. Hún var of einsleit. Þess ber þó að geta að Hjalti, sem er ungur að árum, er enn að læra, og krafturinn í tónmálinu bendir a.m.k. til þess að hann er efnilegt tónskáld.

Heillandi dulúð

Þorkell Nordal átti hina tónsmíðina fyrir hlé. Hún bar nafnið Orðfæri, og var mun skáldlegri en hin fyrri. Sveimkennt andrúmsloft í upphafi var grípandi, og orð á stangli sem ómuðu eins og úr fjarlægð, voru heillandi dulúðug. Kaflar verksins voru fjórir, og í síðustu tveimur söng kórinn meira „hefðbundið“. Það var ekki alveg eins spennandi, laglínurnar voru aldrei það bitastæðar að tónlistin kæmist á flug. Helsti galli verksins var samt að organistinn, Björn Steinar Sólbergsson, þurfti að gefa kórnum tóninn í byrjun kafla þrjú og fjögur, sem eyðilagði stemninguna. Afhverju gat Þorkell ekki bara samið millispil sem hefði tengt kaflana betur og verið tóngjöf í leiðinni?

Í ágætu jafnvægi

Eftir hlé var komið að Jóni Nordal, afa tónskáldanna á fyrri hluta tónleikana. Fluttir voru Óttusöngvar að vori. Meginuppistaðan í textanum er Sólhjartarljóð eftir Matthías Johannessen, sem er innblásið af Sólarljóðum, en einnig kemur hefðbundinn kaþólsku messutexti við sögu. Óttusöngvar eru sá hluti tíðabæna sem beðinn er snemma morguns, og eftir því er tónlistin full af andakt og helgi. Hún er mjög víðfeðm, allt frá dökkum ómstríðum yfir í dáleiðandi hendingar, ákaflega fagrar. Hér loksins gat Dómkórinn sýnt hvað í honum býr, söngurinn var í ágætu jafnvægi, tær og þéttur, tilfinningarþunginn og innilegur. Einsöngvararnir, þau Harpa Ósk Björnsdóttir sópran og Jón Svavar Jósefsson kontratenór, stóðu sig prýðilega, frammistaða þeirra var örugg og markviss í hvívetna. Hljóðfæraleikurinn var sömuleiðis snyrtilegur og heildarmyndin sterk. Bravó.

Niðurstaða:

Tónlistin var misáhugaverð, verk Jóns Nordal stóð upp úr.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s