Sungið frekar en að höggva mann og annan

Bækur

Tónlist liðinna alda. Íslensk handrit 1100-1800.

5 stjörnur

Árni Heimir Ingólfsson

Útgefandi: Crymogea

Fjöldi síðna: 231

Karlar eiga að bera virðingu fyrir konum og alls ekki sjá þær sem leikföng. Þetta er boðskapur kvæðisins Eitt sinn fór ég yfir Rín, en þar segir frá ungum manni sem ferðast yfir Rínarfljót til að hitta stúlku. Hann vill hana bara fyrir nóttina, en hún neitar að hleypa honum inn nema eitthvað meira hangi á spýtunni. Loksins fá systur súlkunnar nóg, bjóða honum inn fyrir, en ráðast á hann, binda hendur hans og fætur og henda honum út um glugga.

Nóturnar við lagið sem þetta kómíska kvæði er sungið við er að finna í gömlu íslensku handriti, Melódíu, sem er frá sautjándu öld. Þar eru þýðingar við erlendan kveðskap, lög úr íslenskum, dönskum og enskum sálmabókum, kaþólskir söngvar og fleira. Árni Heimir Ingólfsson segir frá handritinu í bókinni Tónlist liðinna alda, sem er þverskurður íslenskra tónlistarhandrita frá 1100-1800 með ítarlegum greiningum á völdum sýnishornum.

Ekki eins rýrt og talið var

Sumir halda að menningarlífið á Íslandi hafi verið fátæklegt, það voru a.m.k. hughrifin sem maður fékk á Þjóðminjasafninu í gamla daga. Safnið hlaut andlitslyftingu upp úr aldamótum, en áður ríkti þar myrkur og drungi. Í hnotskurn virtist það vera eymdarveröld fólks sem hafði misst af síðasta strætó og glatað tækifærum hvað eftir annað, öld eftir öld.

Þetta var þó ekki svona. Siðaskipti voru árið 1550 með nokkrum aðdraganda, við vorum kaþólsk í 550 ár. Hér voru klaustur og þar var sungið Guði til dýrðar, líklega átta sinnum á sólarhring, auk messu. Bænasöngurinn kallast tíðabænir og veglegur hluti bókar Árna Heimis fjallar um handrit frá kaþólskum tíma. Í bókinni er finna sálma í nótum sem átti að syngja við mismunandi tíðir á ólíkum tímabilum. Þessi handrit eru fjölmörg. Menningarlífið dó svo ekki út eftir siðaskipti og handritin bera vott um það.

Í stærra samhengi

Alls eru tónlistarhandritin um hundrað talsins frá kaþólskri tíð, og um fimmtíu eftir siðaskipti. Þar eru laglínur í misnákvæmri nótnaskrift, og því er ekki alltaf á hreinu hvernig tónlistin hljómaði í flutningi. Sögulegar heimildir um tónlistariðkun á Íslandi, fyrir utan sjálf nótnahandritin, eru mjög af skornum skammti. Árni Heimir hefur þó unnið ótrúlegt þrekvirki að rekja mörg lögin til erlendra handrita á söfnum víða um heim og finna fyrirmyndir þeirra. Það er eins og að leita að nál í heystakki, því gnægð handrita eru til. Hið skýra sögulega samhengi við evrópska tónlistariðkun sem Árni Heimir bregður upp í bókinni er því aðdáunarvert.

Tónlist liðinna alda er fögur bók. Hún er í A4 broti með myndum af fjölda handrita með nótnaskrift, og höfundurinn greinir hverja mynd, segir frá því hvaðan lagið kemur og við hvaða tækifæri það hlýtur að hafa verið sungið. Útkoman er gríðarlegur fróðleikur um sögu tónlistar á Íslandi, en hann hefur hingað til verið takmarkaður. Margir halda að annar hver karlmaður í gamla daga hafi verið víkingur og að hasar og sverðaglamur hafi verið daglegt brauð. Svo var ekki. Sverðin sem hér hafa fundist eru örfá; tónlistarhandritin eru miklu fleiri. Það segir sína sögu.

Niðurstaða:

Frábær bók með miklum fróðleik um íslenska tónlistarsögu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s