Þegar dauðir rísa úr gröfum sínum

4 og hálf stjarna

Verdi: Requiem. Óperukórinn í Reykjavík söng við leik sinfóníuhljómsveitar. Einsöngvarar: Þóra Einarsdóttir, Sesselja Kristjánsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Kristinn Sigmundsson.

Norðurljós í Hörpu

þriðjudaginn 3. desember

Í einni Monty Python gamanmyndinni er eldri kona að skoða myndaalbúm. Þetta er dauflegt og óspennandi fjölskyldualbúm en svo allt í einu sér konan þar ljósmynd  af spænska rannsóknarréttinum. Þá opnast dyr og inn ganga nokkrir valdsamlegri menn í miðaldabúningum. Einn þeirra hrópar: Þú býst aldrei við rannsóknarréttinum!

Sjálfur rétturinn er mættur á svæðið í öllum sínum hryllingi.

Þessi súrrealíska sena flaug upp í hugann á tónleikum Óperukórsins í Norðurljósum á þriðjudagskvöldið. Í lengsta kaflanum, sem fjallar um dómsdag, reis einn einsöngvaranna, Kristinn Sigmundsson, á fætur. Hann gnæfði yfir alla hina og var svo vonskulegur á svipinn að maður hrökk í kút. Hann var líka að syngja um þau undur er menn, konur og börn rísa úr gröfum sínum „til reikninsskapar við boði Herrans“. Þarna var spænski rannsóknarrétturinn lifandi kominn.

Óperukennd sálumessa

Allur kaflinn um dómsdag er svaðalegur. Hann byrjar á svipuhöggum og pákurnar hljóma eins og risaeðlur að bylta sér. Fjórir einsöngvarar skiptast á að syngja og yfir öllu trónir blandaður kór.

Þegar sálumessa Verdis var frumflutt fór hún fyrir brjóstið á mörgum; hún þótti svo dramatísk að hún minnti fullmikið á óperu. Það er reyndar alveg rétt, mikið gengur á og stemningin í tónlistinni er afar ástríðufull. En falleg er hún.

Óperukórinn í Reykjavík söng undir stjórn Garðars Cortes. Söngur hans var ákafleg glæsilegur. Samhljómurinn var þéttur og fókuseraður, krafturinn í túlkuninni gríðarlegur og allt hið innhverfa vel mótað. Byrjunin, þegar kórinn söng „requiem aeternam dona eis, Domine“, eða „Veit þeim eilífa hvíld, Ó Drottinn“ hlýtur að vera með áhrifamestu augnablikum í tónleikalífinu á árinu. Það var einfaldlega ekki af þessum heimi.

Gætt réttu ákefðinni

Með kórnum spilaði lítil kammersveit sem virtist að öllu leyti vera samansett af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún spilaði ágætlega, þótt strengjaleikararnir hafi aðeins misst einbeitinguna í lok kaflans um dómsdag og byrjuninni á þeim næsta. Í heild var leikur hljómsveitarinnar líflegur og gæddur réttu ákefðinni.

Einsöngvarararnir voru frábærir. Þóra Einarsdóttir söng af innleika og raddfegurð. Sömu sögu er að segja um Sesselju Kristjánsdóttur, Gissur Páll Gissurarson og Kristinn Sigmundsson. Þau voru hvert öðru betri. Meira að segja vandasamasti, fléttukenndi samsöngurinn var tær og í prýðilegu jafnvægi.

Eins og áður segir stjórnaði Garðar Cortes og hann var réttur maður á réttum stað. Þekking hans á verkinu, og á tónlist Verdis almennt, skein í gegn. Túlkun hans einkenndist af djúpum innblæstri og ást á tónlist. Útkoman var stórbrotinn og einstaklega ánægjulegur flutningur á mögnuðu verki sem lengi verður í minnum hafður.

Niðurstaða:

Stórfengleg túlkun sem byggðist á innlifun og djúpri listrænni innsýn.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s