Skrímslinu hafnað í Hallgrímskirkju

4 stjörnur

Händel: Messías. Mótettukór Hallgrímskirkju og Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju. Einsöngvarar: Herdís Anna Jónasdóttir, David Erler, Martin Vanberg og Jóhann Kristinsson. Stjórnandi: Hörður Áskelsson.

Hallgrímskirkja

laugardaginn 7. desember

Í óratóríunni sívinsælu, Messíasi eftir Händel, sem flutt var á laugardagskvöldið í Hallgrímskirkju, er m.a. sungið: „Wonderful… the Mighty God.“ Ef óratórían hefði verið sett upp á síðari hluta nítjándu aldar, hefði allt eins mátt syngja: „Wonderful… the Mighty Godzilla.“

Händel samdi meistaraverkið árið 1741 í London. Á næstu hundrað árum urðu uppfærslurnar æ voldugri þar til fytjendur voru orðnir um 3000 talsins. Erfitt er að ímynda sér slíkan óskapnað. Á tónleikunum í Hallgrímskirkju voru aðeins um sjötíu flytjendur, þar af fimmtíu manna kór, og það var alveg nóg.

Frábær einsöngur

Tónleikarnir voru prýðilega heppnaðir. Einsöngvararnir voru frábærir. Herdís Anna Jónasdóttir sópran var björt og yfirveguð. David Erler kontratenór var líflegur og tæknilega pottþéttur, sömu sögu er að segja um Martin Vanberg tenór og Jóhann Kristinsson bassa. Þar var allt á hreinu.

Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju var að vísu stundum dálítið ósamtaka, sérstaklega í byrjun. Hún gerði þó margt vel. Hin svokallaða Sveitasinfónía (Pastoral Symphony), sem er millispil til að skapa stemningu fyrir frásögn af því þegar hirðarnir eru að gæta fjárins og engill vitrast þeim, var fallega spiluð. Hún var gædd viðeigandi mýkt og andrúmsloftið var hæfilega draumkennt.

Margt fleira mætti nefna, eins og trompetleikinn víða í verkinu, en hann var skær og glæsilegur, þótt leikið væri á barokktrompet, sem er takkalaus. Slíkt hljóðfæri er mun vandasamara í meðförum en nútímagerðin.

Fíngert en smekklegt

Almennt talað var hljómurinn í sveitinni notalega fíngerður, hið tignarlega í músíkinni var vissulega til staðar, en það var smekklega útfært. Því var aldrei troðið ofan í kokið á áheyrandanum eins og 3000 manna skrímslauppfærsla hlýtur að gera.

Hljómsveitin rann ágætlega saman við söng Mótettukórsins, og heildaráferðin var breið og safarík. Mismunandi raddir kórs og hljómsveitar voru í góðu jafnvægi undir stjórn Harðar Áskelssonar. Í heild var túlkunin óvanalega sannfærandi. Hófsamur hljómurinn í hljómsveitinni og tilfinningahlaðinn kór- og einsöngurinn sköpuðu réttar andstæður. Flæðið í tónlistinni var óheft og spennandi. Sífellt var eitthvað að gerast í tónmálinu sem gladdi eyrað. Útkoman var mögnuð.  

Hallelúja!

Hallelúja-kaflinn, sá frægasti í verkinu, olli ekki vonbrigðum. Hann var þrunginn gleði og andakt í meðförum Mótettukórsins, afar kraftmikill og glæsilegur. Helmingur tónleikagesta stóð þá á fætur; hvaðan sú venja kemur er ekki á hreinu. Satt best að segja er þetta augnablik í Messíasi alltaf hálf vandræðalegt. Sumum finnst það við hæfi að stökkva á fætur þegar himnarnir opnast í tónlistinni, en öðrum þykir það barnalegt. Útkoman er undarleg togstreita á meðal áheyrenda og ekki laust við að maður fyndi fyrir henni þarna. Að öðru leyti voru þetta skemmtilegir tónleikar og án efa með betri útgáfum á Messíasi hér á landi.

Niðurstaða:

Flutningurinn var lifandi og fullur af stórfenglegum tilþrifum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s