4 og hálf stjarna
Verk eftir Gallo, Pergolesi, Locatelli, Marcello, Vivaldi og Veracini. Kammersveit Reykjavíkur lék. Einleikarar: Laufey Jensdóttir og Steiney Sigurðardóttir.
Norðurljós í Hörpu
sunnudaginn 8. desember
Ef maður er staddur á kaffihúsi þá er ekki ólíklegt að Vivaldi sé á fóninum. Tónlist hans er orðin að klisju, hún er alltumlykjandi, eins konar tónrænt veggfóður; lyftutónlist heldra fólksins.
Margt eftir Vivaldi var vissulega innblásið, eins og t.d. Árstíðirnar og Stabat Mater, en sellókonsertinn hans RV 415 í G-dúr, sem Steiney Sigurðardóttir lék ásamt Kammersveit Reykjavíkur á jólatónleikum sveitarinnar í Norðurljósum í Hörpu, er ekki í þeim flokki. Tónlistin rann vissulega ljúflega niður, en laglínurnar voru fremur litlausar og í heild varð tónlistin aldrei sérlega áhugaverð. Skipti þá engu að einleikurinn var hinn glæsilegasti, bæði tær og yfirvegaður, og kraftmikill þegar við átti. Steiney er greinilega frábær sellóleikari og það var unaður að hlusta á hana spila. Hröð tónahlaup léku í höndunum á henni, tónmótunin var fáguð og innileg. Gaman væri að heyra hana leika eitthvað bitastæðara næst.
Grípandi stemning
Hinn einleikarinn á tónleikunum var Laufey Jensdóttir fiðluleikari og flutti hún ásamt Kammersveitinni konsert í B-dúr eftir samtíðarmann Vivaldis, Pergolesi. Þekktasta verk hans ber heitið Stabat Mater, rétt eins og áðurnefnd tónsmíð Vivaldis, og hefur hún hljómað oftar en einu sinni á tónleikum. Hún er páskatengd, tónræn hugleiðing um þjáningu og endurlausn. Fiðlukonsertinn sem nú var leikinn var talsvert léttúðugari, laglínurnar voru fallegar og stemningin grípandi. Laufey er magnaður fiðluleikari og hún lék af gríðarlegri fagmennsku, nákvæmni og innlifun. Útkoman var einfaldlega dásamleg.
Kammersveitin sjálf var líka með allt á hreinu, en leiðari hennar var Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari. Fiðlur, víólur, selló, bassi og semball voru akkúrat og blönduðust saman á einstaklega smekklegan máta. Túlkunin var ávallt fyllilega í anda barokksins, sem var leiðarstef tónleikanna. Mörgum þykir barokktónlist jólaleg, enda er hún gjarnan hátíðleg og glaðleg í senn. Það átti við um alla dagskrána, sem samanstóð auk einleikskonsertanna af La Cetra nr. 2 eftir Marcello, tríósónötu nr. 1 eftir Gallo, konsert nr. 11 eftir Locatelli og forleik nr. 6 eftir Veracini. Í hinum síðastnefnda bættust tvö óbó við heildarmyndina, sem varð fyrir bragðið enn tignarlegri og bjartari og afar ánægjuleg að upplifa. Þetta voru flottir tónleikar.
Niðurstaða:
Framúrskarandi flutningur á hátíðlegri, en um leið fjörugri barokktónlist.