Tónlistarárið 2019 gert upp
Einu sinni las ég fantasíubók sem hefst í helvíti. Þar kveljast sálir fordæmdra um alla eilífð, en illu andarnir passa upp á logarnir brenni sem heitast. Á meðan er spiluð tónlist. Þetta er eingöngu tónlist eftir misheppnuð tónskáld, verk sem voru í mesta lagi flutt einu sinni á jörðinni. Sagan dæmdi þau úr leik, en í helvíti eru þau spiluð endalaust, hinum fordæmdu til enn meiri skapraunar.
Ég hugsa að Hafliði Hallgrímsson endi ekki á vonda staðnum. Ein magnaðasta tónsmíðin sem leit fyrst dagsins ljós á árinu var eftir hann og bar nafnið Mysterium. Hún var flutt á Kirkjulistahátíð í byrjun júní. Þetta var tónlist sem unaður var að hlusta á. Hún fjallaði um upprisu Krists, mikinn leyndardóm sem dulúðugt tónmálið gerði ljóslifandi fyrir manni. Tónlistin var íhugul, hljómarnir voru framandi og útkoman var annarleg, en einhvern veginn háleit um leið. Hafliði hefur samið mjög mörg tónverk, en honum virðist sérstaklega lagið að semja um trúarleg málefni. Það geta svo sannarlega ekki allir, eins og ótal tilgerðarleg trúarverk bera vott um.
Ferskur andblær
Annar minnistæður frumflutningur á árinu var flautukonsert eftir Jón Ásgeirsson. Emilía Rós Sigfúsdóttir lék hann með Sinfóníuhljómsveit Íslands snemma á árinu. Hið óvenjulega við konsertinn var að hljómarnir voru hefðbundnir og laglínurnar í öndvegi. Við hliðina á öðrum íslenskum einleikskonsertum, sem oft eru dálítið spúkí og drungalegir, var verk Jóns eins og ferskur andblær. Þjóðin þekkir hann sennilega fyrst og fremst fyrir lögin Maístjörnuna og Hjá lygnri móðu, en þau eru bæði mjög grípandi. Jóni lætur einkar vel að semja flottar laglínur, og það er gáfa sem mörg tónskáld myndu gefa útlim fyrir. Í flautukonsertinum var sérstaklega ein melódía sem var svo falleg að maður gat ekki fengið nóg af henni. Jón hafði vit á að endurtaka hana oft, í mismunandi útfærslum.
Gamalt en glænýtt
Annað skemmtilegt verk sem var frumflutt á árinu var barnaóperan Konan og selshamurinn, en tónlistin var eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson og textinn eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Björk Níelsdóttir sópran var þar stjarna sýningarinnar og tónlistin var lagræn og aðgengileg, en samt hnyttin og spennandi. Lítið þýðir að bjóða börnum upp á eitthvað ómstrítt og vírd, og hér var tónlistin sérlega vel heppnuð.
Uppfærslan var hluti af verkaröðinni „Gamalt en glænýtt“, þar sem þjóðsögum er miðlað til barna með hjálp tónskálda og textahöfunda. Röðin er undir merkjum Töfrahurðar, félagi um starfsemi sem er helguð tónleikum og útgáfu. Það hefur að markmiði að opna heim tónlistarinnar, bæði ný verk og gömul, fyrir börnum, sem er óneitanlega göfugt.
Íslenska óperan gerði það gott
Talandi um óperur þá var Íslenska óperan á miklu flugi á árinu. Tvær uppfærslur, La Traviata eftir Verdi og Brúðkaup Fígarós eftir Mozart, voru vel heppnaðar, sérstaklega hin síðari. Hún fór fram í Þjóðleikhúsinu, en langt er síðan ópera hefur verið sett þar upp. Harpan er auðvitað frábært tónleikahús, en sviðsuppfærslur þar eru samt takmarkaðar, enda húsið ekki hannað fyrir slíkt. Í Þjóðleikhúsinu er hringsviðið, og það var notað afar hugvitsamlega í Brúðkaupinu. Sjálfur tónlistarflutningurinn var líka frábær.
Gítargoðsögn og píanóundur
Hér er nauðsynlegt að vekja athygli á öðru merkilegu fyrirbæri í tónlistarlífinu, sem ekki hefur farið mjög hátt. Salurinn í Kópavogi er kannski ekki eins fyrirferðamikill núna og áður en Harpan var opnuð, en þar er samt athyglisverð tónleikaröð sem er í algerum sérflokki. Hún heitir Jazz í Salnum og byggist á einleikstónleikum. Slíkt fyrirkomulag er fáheyrt í djassheiminum á Íslandi, því venjulega spila menn saman, oftast þrír eða fleiri. Í þessari röð fór undirritaður á tvenna stórfenglega tónleika á árinu, með gítargoðsögninni John Scofield og píanóundrinu Gwilym Simcock. Hvort tveggja var opinberun. Það sem heyrðist var ekki bara röð af einhverjum standördum með smá útúrdúrum hér og þar. Nei, þarna fór saman óaðfinnanleg tækni og gríðarlegt ímyndunarafl, og fyrir bragðið upplifði maður ferðlög um alls konar undraheima.
Sjaldgæft andrúmsloft
Nokkrir flottir einleikarar glöddu áheyrendur á árinu. Víkingur Heiðar Ólafsson, sem Deutsche Grammophon valdi listamann ársins, spilaði einleikinn í tíu ára gömlum konsert eftir Daníel Bjarnason á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í haust. Konsertinn var fallegur, en ekki síðra var aukalagið eftir Bach. Víkingur skapaði þar andrúmsloft sem er sjaldgæft að upplifa á tónleikum og skal ekki einu sinni reynt að lýsa því hér. Tónlist er um eitthvað sem ekki verður komið orðum að, en er um leið ómögulegt að þegja yfir – eins og Victor Hugo komst einu sinni svo skemmtilega að orði.
Fiðlur og hörpur
Annar magnaður einleikari var Joshua Bell, sem kom einnig fram í haust, en hann er óþarfi að kynna. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari hélt líka framúrskarandi tónleika í vor ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara, og Elísabet Waage og Katie Buckley spiluðu á sitt hvora hörpuna á glæsilegum tónleikum í mars. Ekki er oft sem tveir hörpuleikarar troða upp saman, og þar var m.a. flutt innblásin tónsmíð eftir Kolbein Bjarnason. Útkoman var eftirminnileg.
Hér er ekki pláss til að nefna allt sem stóð upp úr á árinu, en af nógu er að taka. Tónlistarlífið á Íslandi er fjölbreytt og oftast skemmtilegt, mælikvarðinn er hár og hefur hækkað mikið frá því fyrir tíu árum. Engin ástæða er til að ætla annað en að gaman verði líka á næsta ári, svo óhætt er að hlakka til. Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu og óska öllum gleðilegs árs.