Grasið græna, hassið væna

Tónlist

4 og hálf stjarna

Stórsveit Reykjavíkur flutti sveiflualdartónlist. Stjórnandi: Sigurður Flosason. Fram komu Stína Ágústsdóttir, KK, Björgvin Franz Gíslason og dansarar frá Sveiflustöðinni.

Eldborg í Hörpu

sunnudagur 5. janúar

Einhver brandarakarl sagði að saxófónar væru í rauninni ásláttarhljóðfæri. Það ætti að berja þá með hömrum. Stórum hömrum. Saxófónarnir geta vissulega verið skerandi, en það voru þeir þó ekki á tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur á sunnudagskvöldið. Stjórnandinn var líka einn besti saxófónleikari landsins, Sigurður Flosason.

Sigurður kynnti jafnframt hvert atriði tónleikanna, og hann var hafsjór af fróðleik. Efnisskráin samanstóð af svokallaðri sveiflutónlist frá fyrri hluta aldarinnar sem leið. Þekktasta tónlistarfólkið sem tilheyrir þessari stefnu er m.a.Count Basie, Ella Ftzgerald, Glenn Miller, Benny Goodman og Artie Shaw. Sá síðastnefndi var helvítis drullusokkur að sögn Sigurðar. Hann var með átta mislukkuð hjónabönd á samviskunni, fór illa með allar eiginkonurnar og fleiri til.

Drukkin tónlist

Lögin á tónleikunum voru yfirleitt býsna fjörug, og sum voru meira að segja ögn tilraunakennd.   Hassvíman var sennilega umfjöllunarefnið í laginu Chant of the Weed eftir Don Redman. Það byggðist að hluta til á svokölluðum heiltónaskala. Hann er alltaf dálítið annarlegur, og fyrir bragðið var heildarsvipurinn á tónlistinni ekki beinlínis edrúlegur. Útsetningin einkenndist af fjölbreytileika, málmblásarar og tréblásarar kölluðust á, sem var smekklega útfært. Útkoman var mögnuð.

Þrír söngvarar tróðu upp með sveitinni. Stína Ágústsdóttir söng Tisket, a Tasket sem Ella Fitzgerald gerði frægt. Stína söng með afbrigðum fallega. Alveg rétta stemningin var í söngnum, hann var dillandi fjörugur, örlítið barnslegur og ávallt gæddur réttu litbrigðunum. Tvö lög sem Marylin Monroe söng svo eftirminnilega, Diamonds are a Girl‘s Best Friend og I Want to be Loved by You, voru ekki síðri. Þau voru full af smitandi innlifun og gleði. Þannig mætti áfram telja.

Röddin of hörð

Björgvin Franz Gíslason var ekki eins sannfærandi. Hann var bestur í laginu Minnie the Moocher, sem hann söng með tilþrifum, en ýmis Sinatra-lög náðu aldrei flugi. Röddin var of hörð, söngstíllinn stirður. KK var miklu betri, enda gamalt brýni í svona tónlist. Lögin sem hann söng virkuðu, flutningurinn var áreynslulaus, röddin sjarmerandi hrjúf, sviðsframkoman heillandi.

Dansarar úr danshópnum Sveiflustöðinni voru augnayndi. Dansinn þeirra var hrár og hömlulaus. Fyrsta dansatriðið, sem var sóló, minnti mjög á Josephine Baker, en hún gerði allt brjálað þegar hún dansaði næstum nakin í París árið 1927. Dansinn nú gaf tónlistinni líf, og ekki bara það, maður fór hreinlega aftur í tímann, slík var stemningin.

Hér mætti halda að söngvararnir og dansararnir hafi verið í aðalhlutverki, en svo var ekki. Um helmingur dagskrárinnar var „aðeins“ tónlist með Stórsveitinni sjálfri, og hvert atriði var öðru betra. Í lokin brast á ægilegur trumbusláttur í laginu Sing, Sing, Sing (With a Swing), en þar fór trommuleikarinn á kostum. Mig langaði þá mest til að standa upp og stíga trylltan dans, og svo var um fleiri eins og greinilegt var. Þetta var flott.

Niðurstaða:

Stórfenglegir tónleikar með líflegri tónlist, frábærlega leikin. Söngurinn var yfirleitt góður og dansinn líka.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s