Óbrjáluð útsetning eftir brjálaðan mann

4 og hálf stjarna

Stuart Skelton og Bjarni Frímann Bjarnason á streymistónleikum Íslensku óperunnar

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 8. nóvember

Fyrsta lagið á streymistónleikum Íslensku óperunnar á laugardaginn var eftir brjálaðan mann. Eða kannski undarlegan mann.

Þetta var Percy Grainger, ástralskur píanóleikari og tónskáld, sem var uppi á árunum 1882-1961. Hann var furðulegur út á við að því leyti að hann gekk yfirleitt í fötum sem hann hafði saumað úr gömlum handklæðum.

Einkalífið var einnig skrautlegt; hann var sadómasókisti og fannst kynlífið með konunni sinni ekki spennandi nema þau lemdu hvort annað. Mamma hans barði hann þegar hann var lítill og hann dreymdi um að eignast börn svo hann gæti barið þau líka. Sem betur fer varð honum ekki að ósk sinni.

Seiðandi þjóðlag

Með þetta í huga var lagið Willow, Willow, sem var fyrst á efnisskránni, býsna venjulegt. En lagið sjálft var reyndar ekki eftir Grainger, þetta er þjóðlag og aðeins útsetningin eftir hann sjálfan. Lagið var fallegt og hljómarnir sem lágu til grundvallar voru seiðandi.

Textinn er um ástarsorg, ljóðmælandinn situr á trjábol og grætur. Tónlistin var einstaklega falleg í meðförum Stuarts Skelton, en hann er svokallaður hetjutenór. Slíkur tenór hefur volduga og kröftuga rödd, sérstaklega á mið- og neðra sviði raddarinnar, og á ýmislegt sameiginlegt með baritón. Skelton mótaði laglínurnar af smekkvísi og fegurð. Píanóleikur Bjarna Frímanns Bjarnasonar var safaríkur og skapaði viðeigandi andrúmsloft trega og eftirsjár.

Eftir Hollywood stórlax

Næst á dagskránni var Lieder des Abschieds eftir Erich Wolfgang Korngold. Tónlistin var prýðilega flutt af söngvara og píanóleikara, en missti engu að síður marks. Korngold var Austurríkismaður sem sló í gegn í Hollywood í kringum seinni heimsstyrjöld. Verkin hans, sem ekki voru samin við kvikmyndir, eru lítt spennandi. Tónlistin sem hér um ræðir einkenndist af hugvitsamlegri píanórödd, en frekar máttlausum sönglínum sem náðu aldrei flugi. Fyrir bragðið virkaði hún klisjukennd.

Næsta atriði var miklu meira krassandi. Skelton er frægur Wagnertúlkandi og arían Allmächt’ger Vater úr Rienzi eftir tónskáldið var stórbrotin. Hún var full af dramatík og mögnuðum andstæðum sem framkölluðu gæsahúð. Sömu sögu er að segja um Niun mi tema úr Otello eftir Verdi og Winterstürme úr Valkyrjunni eftir Wagner. Þetta var einstaklega hrífandi og tilkomumikill flutningur.

Fersk og spennandi

Ég minntist á klisjur hér að ofan. Dein is mein ganzes Hertz eftir Lehár, sem heyrst hefur á ótal Vínartónleikum í gegnum tíðina, er vissulega klisja. Í meðförum Skeltons var hins vegar eins og maður væri að heyra lagið í fyrsta sinn, slíkur var áhrifamáttur túlkunarinnar. Hún var fersk og spennandi, og varð til þess að maður sá tónlistina í alveg nýju ljósi. Hvílík snilld!

Tónleikunum lauk með hinu gamla, góða Draumalandi Sigfúsar Einarssonar, sem var heillandi hjá þeim Skelton og Bjarna Frímanni. Framburður söngvarans var lýtalaus og stemningin í mjúkum píanóhljómunum var innileg.

Þetta voru frábærir tónleikar, hljómurinn í útsendingunni var afar góður og nánast eins og maður væri á staðnum sjálfur. Á þessum síðustu og verstu er varla hægt að biðja um meira.

Niðurstaða:

Glæsilegir tónleikar þar sem saman fór flottur söngur og píanóleikur, og yfirleitt skemmtileg tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s