Tapað fyrir poppgarginu

2 og hálf stjarna

Verk eftir Liszt, Urbancic, Speight og Ravel. Peter Máté og Aladár Racz léku á píanó.

Salurinn í Kópavogi

þriðjudaginn 9. febrúar

Ég hafði útvarpið í gangi á leiðinni á tónleikana, eitthvert poppgarg var spilað sem samanstóð af öskri, vélrænum endurtekningum, fábrotnum hljómagangi og drunum. Maður hugsaði: Mikið er nú gott að vera að fara að hlusta á alvöru tónlist, þ.e.a.s. klassíska.

Máttlaust og klisjukennt

En það sem boðið var upp á í Salnum í byrjun tónleikanna var bara ekkert betra. Liszt var vissulega stórbrotið tónskáld og eftir hann liggja ódauðlegar tónsmíðar. Concerto Pathetique er ekki í þeim flokki. Tónlistin einkennist af leitandi laglínum sem hitta aldrei í mark, og úrvinnsla þeirra er máttlaus og klisjukennd. Talsvert er um yfirborðslega fingrafimi, alls konar tónarunur, og ægileg heljarstökk, en þau hafa engan tilgang. Ekkert af þessu nær að breiða yfir skortinn á innblæstrinum.

Liszt hlýtur að hafa verið fullur þegar hann samdi þetta.

Út vil ek

Næsta verk var ekki betra. Það var mjög andlaus útsetning eftir Victor Urbancic á Vínarvalsi eftir Strauss. Herlegheitin voru lítið annað en innantóm sýndarmennska tónahlaupa upp og niður hljómborð flyglanna, án þess að eitthvað viti borið gerðist í framvindu og uppbyggingu tónlistarinnar.

Þegar hér var komið sögu var ekki laust við að mann langaði til að ganga á dyr.

Heitar tilfinningar

Þeir félagar, Peter og Aladár, eru samt færir píanóleikarar, mikil ósköp. Og það var gott að að hlýða á þá flytja tónsmíð eftir John A. Speight, sem var næst. Hún var dálítið kuldaleg á yfirborðinu, en undir niðri voru heitar tilfinningar.

Einn kaflinn hét Noktúrna, þ.e. næturljóð; þar mátti heyra endurómun af Chopin. Hann var óneitanlega meistari næturljóðsins. Hér var Chopin hins vegar umvafinn fjarrænni stemningu, í allt öðru samhengi en hann sjálfur setti stefin sín í. Útkoman, bæði í þessum kafla og verkinu í heild, var litrík og full af skáldskap. Fágaður píanóleikurinn átti þar stóran hlut að máli.

Áhorfendur tóku andköf

Best af öllu var lokatónsmíðin, La Valse eftir Ravel. Það er meistaraverk, gædd ævintýralegum átökum og spennandi tilþrifum. Þau voru svo glæsileg að áheyrendur tóku andköf á tónleikunum. Spilamennskan var frábær, hárnákvæm og einbeitt, snörp og djörf, svo mjög að unaður var á að hlýða. Mikið hefði verið gaman ef allt á efnisskránni hefði verið svona gott.

Niðurstaða:

Tónleikarnir byrjuðu mjög illa, en enduðu þeim mun betur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s