Byrjaði vel, endaði illa

3 stjörnur

Verk eftir Ginastera, Schubert og Þuríði Jónsdóttur. Einleikari: Xavier de Maistre. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 4. febrúar

„Leið svo veturinn og bar ekkert til tíðinda.“ Þennan frasa er að finna í Íslendingasögum, ef minnið svíkur mig ekki. Hann má yfirfæra á líf Albertos Ginastera, sem var argentínskt tónskáld á 20. öld. Samkvæmt Wikipediu fæddist hann 1916, lærði músík í tilteknum skóla, kenndi síðar við aðra skóla, og svo dó hann. Með greininni er mynd af manni sem er þungbúinn á svipinn. Það er eins og hann horfi fram á veginn og hugsi: „Það mun ekkert bera til tíðinda í lífi mínu. Og svo dey ég.“

Hörpukonsertinn eftir Ginastera, sem fluttur var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, var samt allt annað en viðburðalítill. Einleikari var Xavier de Maistre, sem var áður fastur starfsmaður í Vínarfílharmóníunni. Sjálfsagt hefur honum fundist það óskaplega leiðinlegt, enda takmarkað svigrúm fyrir persónulega tjáningu, þótt upphefðin hafi verið mikil.

Dans og fjör

Greinilegt var að einleikarinn skemmti sér konunglega. Hann réði öllu. Stjórnandinn, Eva Ollikainen, fylgdi honum og skugginn. Tónlistin var spennandi og gædd óvæntum uppákomum. Til dæmis var hægur miðkaflinn eitt risavaxið, hugleiðslukennd sóló, en hinir þættirnir fullir af eggjandi danstakti og spennandi framvindu.

Gárungar hafa sagt að harpan er bara píanó eftir skatta. Það er búið að fjarlægja hamrana, kassann, lappirnar og lokið; harpan ein stendur eftir, nakin í allri sinni dýrð. Þarna fékk hún að njóta sín til fulls, því de Maistre var hreint og beint göldróttur. Fingrafimin var fullkomin, tónmyndunin dásamleg. Útkoman var flugeldasýning sem lengi verður í minnum höfð.

Bjöguð heildarmynd

Hin svokallaða Ófullgerða sinfónía eftir Schubert var næst á dagskrá. Hún er aðeins í tveimur köflum, ekki þessum venjulegu fjórum. Ekki er vitað af hverju. Kannski tók skatturinn hina kaflana.   

Hljómsveitin spilaði prýðilega undir öruggri stjórn Evu Ollikainen. Samhljómurinn var þéttur og góður, túlkunin þrungin tilfinningum. Uppröðun hljóðfæraleikaranna á sviðinu var þó kynleg. Sellóleikararnir voru furðu aftarlega, fyrir miðju, og mikilvægt stef sem þeir léku hljómaði óþarflega hæverskt. Fyrir bragðið voru hlutföllin á milli ólíkra radda ekki alveg í jafnvægi, og heildarmyndin var því ekki sannfærandi.

Á röngum stað

Ekki var heldur heppilegt að setja verk eftir Þuríði Jónsdóttur, Flow and Fusion, á eftir Schubert. Þuríður hefur samið margt flott og magnað, en þessi drungalega og fremur einstrengingsleg tónsmíð passaði engan veginn þarna. Áheyrendum var sagt að klappa ekki á eftir Schubert, svo Þuríður myndi byrja í beinu framhaldi. Átti hún að vera þriðji og fjórði kaflinn í Ófullgerðu sinfóníunni?

Varla. Fátt gerðist í tónlistinni, annað en að óræður tónavefur varð smám saman þykkari og skuggalegri. Vissulega hefði hann verið áhugaverður undir réttu kringumstæðunum, enda tónlistin haganlega skrifuð. Hér var hins vegar Schubert bara skotinn niður, og það var ekki alveg málið.

Niðurstaða:

Glæsilegur hörpukonsert, en Schubert virkaði ekki alveg og Þuríður Jónsdóttir var seint rúsínan í pylsuendanum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s