Einmitt! Þú ert kaldur og ekki með nein eyru

Einu sinni voru kanína og snákur í göngutúr saman. Þau voru bæði blind og vissu ekki hvaða dýrategund þau tilheyrðu. Kanínan vissi ekki að hún var kanína og snákurinn ekki að hann var snákur. Kanína bað því snákinn að þukla á sér og segja henni hvers hann yrði vísari. Snákurinn gerði það og sagði: „Hmm. Þú er loðin og með löng eyru. Þú hlýtur að vera kanína.“ Næst gerði kanínan það sama við snákinn. Hún sagði: „Einmitt! Þú ert kaldur og ekki með nein eyru. Þú hlýtur að vera tónlistargagnrýnandi.“

Tónlistarfólk hampar vissulega góðum dómum sem það fær og uppsker fagnaðarlæti vina sinna á Facebook. En þegar dómurinn er slæmur verður sami fámenni hópurinn brjálaður og finnur gagnrýnandanum allt til foráttu.

Auðvitað geta menn gert mistök. Frábært tónskáld getur sent frá sér léleg tónverk. Árni Heimir Ingólfsson bendir á það í frábærri útvarpsþáttaröð sinni um Beethoven að oft hafi langur tími liðið á milli verka. Það litla sem hann náði að semja á slíkum þurrkatímabilum hafi verið fremur slakt.

Gagnrýnendur geta líka gert mistök. Þeir hafa hrósað einhverju sem sagan hefur síðar dæmt úr leik, og öfugt. Oft er erfitt að koma auga á snilldina þegar tónskáld er að ryðja brautina með því að tjá sig á alveg nýjan hátt. En óneitanlega er sumt af því bara nýju fötin keisarans. 

Heyrnarleysið heyrðist

Hér koma nokkur gullkorn úr gamalli tónlistargagnrýni, sem reyndist ekki sannspá.

Einn gagnrýnandi skrifaði eftirfarandi um níundu sinfóníu Beethovens: „Vér höfum heyrt þann orðróm að herra Beethoven sé heyrnarlaus. Eftir að hafa hlýtt á níundu sinfóníuna hans, sannfærumst vér um að orðrómurinn er réttur.“

Í gamla daga tíðkaðist að nota kröftugt líkingarmál í tónlistargagnrýni. Í bókinni A Survey of Contemporary Music eftir Ceecil Grey fékk Alexander Skrjabín dágóða dembu yfir sig: „Tónlist hans er eins og vímuefni. Það eru margar fleiri tegundir til, eins og kókaín, hass, heróín, svo maður tali ekki um áfengi. Það hlýtur að vera nóg. Afhverju þarf að gera tónlistina að andlegu eiturlyfi? Í einni sinfóníu eftir Skrjabín eru átta horn og fimm trompetar. Hjá honum er það þó ekki merkilegra en átta líkjörar og fimm tvöfaldir viskí.“

Annar skrifaði í Musical America árið 1907: „Þriðja sinfónía Skrjabíns er verk sem myndi sóma sér á geðveikrahæli. Þar eru vistmennirnir að halda upp á fjórða júlí og eru búnir að skrifa undir sjálfstæðisyfiirlýsinguna. Þeir hafa samþykkt að hver megi spila það sem honum sýnist og geti gert eins mikinn hávaða og hann lystir.“

Tónræn sveppasýking

Tónlistin eftir Franz Liszt var eitt sinn sögð vera bara villt óp og viðbjóðsleg sveppasýking. Brahms fékk líka sinn skerf, en gagnrýnandi skrifaði árið 1893: „Ég skal viðurkenna að c-moll sinfónían er stór og mikil, og allt það. Hið sama má segja um þoku yfir Ermasundi…“ Annar var hnitmiðaðri og sagði einfaldlega: „Lífið er stutt og listin löng, það á sérstaklega við um sinfóníu eftir Brahms. Sá þriðji var enn gagnorðari er hann ritaði um þunglyndislegt verk eftir Webern: „Einfrumungurinn grætur.“

Ef tónsmíðar þóttu torræðar var vinsælt að segja að þær hljómuðu eins og kínverska. Gagnrýnandi kvað fiðlukonsert Schönbergs hljóma eins og fyrirlestur um fjórðu víddina, fluttur á kínversku. Annar hélt því fram að hamagangurinn í hljómsveitarverki eftir Richard Strauss virkaði eins og morðatriði í kínversku leikhúsi. Og um óperuna Lohengrin eftir Wagner var skrifað: „Óperan hefur engan rétt á að vera kölluð tónlist, a.m.k. ekkert frekar en hávaðinn sem Kínverjar gerðu með gong-bjöllum uppi á hæðarbrún til að reka burtu enska dáta.“

Wagner sem Dalai Lama

Wagner verðskuldar sérstaka athygli. Hann var ekki heppinn með gagnrýnendur, enda framúrstefnulegur með afbrigðum. Sjálfur Oscar Wilde gerði grín að honum í bókinni Myndin af Dorian Grey: „Wagner er uppáhalds tónskáldið mitt. Hann hefur svo hátt að maður getur talað allan tímann án þess að nokkur heyri til.“ Annar skrifaði að Wagner ættu sín góðu augnablik, en slæmu stundarfjórðunga. Sá þriðji ritaði eftirfarandi: „Wagner telur sig vera Dalai Lama. Svo heldur hann að kúkurinn úr sér sé guðleg útgeislun.“

Eins og sjá má hafa gagnrýnendur ekki alltaf verið sannspáir. Sagan hefur fellt dóm sinn, ofangreind tónskáld eru orðin ódauðleg, en gagnrýnendurnir brenna í helvíti.

Í gamla daga áttu gagnrýnendur oft síðasta orðið, en með samfélagsmiðlum hefur það breyst, líkt og hér kom fram í upphafi. Það  gat samt auðvitað gerst að fólk fékk nóg af slæmri gagnrýni og svaraði fyrir sig, þó að Facebook væri ekki til staðar. Max Reger skrifaði bréf til ónefnds gagnrýnanda, þar sem hann sagði: „Ég sit í minnsta herberginu í íbúð minn. Ég held á gagnrýni yðar. Eftir örlitla stund verður hún komin undir mig.“

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s