4 stjörnur
Verk eftir Bottesini og Brahms í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Jacek Karwan. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
Fimmtudaginn 21. janúar
Búdda er sagður hafa öðlast hugljómun þegar hann sat undir svokölluðu bodhitré. Viðurinn úr því er því talinn heilagur, og hljóðfæri sem er smíðað úr honum hlýtur að vera í beinu sambandi við Almættið. Hljóðfærasmiðurinn Giuseppi Testore, sem var uppi í byrjun 19. aldar, sagðist hafa smíðað kontrabassa úr bodhitrénu, og ekki bara það; strengjahaldarinn á bassanum væri úr krossinum sem Jesús var negldur á!
Bassinn var fyrst í eigu allnokkurra miðlungs bassaleikara, en dagaði svo uppi í bakherbergi í brúðuleikhúsi í Mílanó, innan um alls konar rusl. Þar var hann uppgötvaður af ungum og upprennandi bassaleikara, Giovanni Bottesini, sem keypti gripinn.
Þá gerðust einhverjir galdrar. Bottesini öðlaðist svo mikið vald á hljóðfærinu að honum var líkt við mesta fiðluleikara sögunnar, Niccolo Paganini. List þeirra beggja þótti beinlínis yfirnáttúruleg.
Fagurlega mótað
Kontrabassakonsert nr. 2 eftir Bottesini var á efnisskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Kontrabassi í einleikshlutverki er yfirleitt dálítið klunnalegur, efstu tónarnir í honum eru ögn hjáróma, eins og ungur drengur sem er í mútum. Konsertinn eftir Bottesini var þó alls ekki klunnalegur í meðförum einleikarans, Jacek Karwan, en hann er liðsmaður í hljómsveitinni. Ýmiss konar hlaup upp og niður strengina voru fimlega spiluð, og tónarnir almennt fagurlega mótaðir.
Sjálf tónlistin var líka haganlega gerð, hljómsveitarröddin rímaði ágætlega við einleikinn, hún valtaði aldrei yfir hann. Laglínurnar voru sjarmerandi og tónlistin í heild einkenndist af ljúfu flæði sem ánægjulegt var að upplifa.
Töfrandi stef
Hitt verkið á dagskránni var þriðja sinfónían eftir Brahms. Hún er einstaklega falleg. Stefin eru töfrandi og uppbyggingin mögnuð. Bjarni Frímann Bjarnason stjórnandi var í essinu sínu; hann sýndi afar næma tilfinningu fyrir tónlistinni. Túlkun hans var full af ákefð og ástríðu, rauði þráðurinn slitnaði aldrei, hvergi var dauður punktur. Hljómsveitin spilaði í senn hreint og af krafti, hver einasti tónn var þrunginn merkingu sem skilaði sér ómenguð til áheyrenda.
Brahms var piparsveinn alla ævi og í sinfóníunni er leiðarstef sem samanstendur af tónunum F-As-F. Það er skammstöfun á Frei aber froh, sem þýðir frjáls en hamingjusamur. Í sinfóníunni finnur maður fyrir þessari hamingju hins frjálsa piparsveins, en hún er ekki alveg þessa heims. Þar er nostalgía og náttúrustemning, stundum hrikalegar skýjamyndir, en á köflum skín sólin í gegn. Þegar það gerist eru áhrifin máttug. Mörg tónskáld myndu gefa útlim til að geta samið viðlíka melódíur og eru í þriðja kaflanum af fjórum. Þarna um kvöldið fengu þær að njóta sín til fulls í vönduðum leik hljómsveitarinnar. Hvílík fegurð!
Niðurstaða:
Flottur einleikur, himnesk tónlist.