Fuglasöngur og örbylgjuniður á Sinfóníutónleikum

4 og hálf stjarna

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Schumann og Saariaho. Einleikari: Áshildur Haraldsdóttir. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 14. janúar

Lítill drengur segir við mömmu sína: „Ég ætla að verða flautuleikari þegar ég verð fullorðinn.“ Mamma hans klappar honum á kollinum og segir: „Karlinn minn, þú getur ekki verið bæði.“ Annar brandari hljómar svona: Flautuleikarar verja helmingi af tíma sínum í að stilla flautuna. Hinn helmingurinn fer í að spila falskt.

Nú veit ég ekki með fyrri brandarann, en sá síðari átti pottþétt ekki við um Áshildi Haraldsdóttur flautuleikara, sem lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fimmtudagskvöldið. Verkið sem hún flutti með hljómsveitinni var konsert eftir Kaiju Saariaho, Aile de Songe. Það þýðir Vængur draumsins, en tónlistin er innblásin af ljóðabók eftir Saint-John Perse sem fjallar um fugla.

Próflausir fuglar

Segja má um fuglasöng að hann er eina ómstríða tónlistin sem allir eru sammála um að sé falleg. Fuglasöngur fer ekki eftir gamaldags reglum um dúr og moll; fuglarnir eru ekki með framhaldspróf í tónlist. Og samt slá þeir í gegn – ef svo má segja – dag eftir dag.

Flautuleikur Áshildar minnti svo sannarlega á fuglasöng. Satt best að segja var alger unaður að hlusta á hana spila, því hún hefur svo fallegan tón. Hann er tær og munúðarfullur í senn. Leikur hennar á tónleikunum var kraftmikill, en líka blíður og allt þar á milli. Hver einasta hending sagði sögu, var full af merkingu.

Skondin dulúð

Á tímabili var rödd flautunnar ekki nóg, því Áshildur talaði og hrópaði í gegnum flautuna. Tveir ungir menn, sem sátu fyrir framan mig, litu hvor á annan og skelltu upp úr. Þetta var nýstárlegt vissulega, en samt rökrétt á einhvern dularfullan hátt. Tónlist Saariaho einkennist af dulúð; ýmis náttúrufyrirbrigði, eða tákn, eru henni innblástur, en svo fer hún handan við hið áþreifanlega. Konsertinn hér var vissulega úthverfari en margt annað eftir hana; einleikskonsert er jú eins konar samkeppni einleikara og hljómsveitar. Hann hitti samt í mark, alveg yndislega spúkí.

Hljómsveitin spilaði vel undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Hljómsveitarröddin var mikið til á efri tónum tónstigans, og heildarmyndin minnti helst á örbylgjunið. Allskonar blæbrigði sem ólíkar hljóðfærasamsetningar sköpuðu, voru fallega útfærð og nostursamlega mótuð. Útkoman var hástemmd og mögnuð.

Féll í skuggann

Hitt verkið á efnisskránni var sinfónía nr. 4 eftir Schumann. Frumflutningurinn á henni mun hafa misheppnast. Hljómsveitin spilaði illa, og svo féll sinfónían í skuggann á stórstjörnunni Franz Liszt, píanóleikaranum og tónskáldinu. Hann steig niður af himnum til að spila dúett með Clöru, eiginkonu Schumanns, en hún var einnig frægur píanóleikari (og tónskáld). Það var bara ekki hægt að toppa svoleiðis undur.

Á vissan hátt má segja að sama hafi gerst nú. Sinfónían féll í skuggann á afburða leik Áshildar. Sinfónían var samt sem áður einstaklega glæsileg í meðförum hljómsveitarinnar undir stjórn Daníels. Hamslaus rómantíkin var hrífandi, og tæknileg atriði voru prýðilega útfærð af hljóðfæraleikurunum. Hápunkturinn í lokin var svo flottur að maður fékk gæsahúð. Þetta var snilld.

Niðurstaða:

Vandaðir tónleikar með skemmtilegum einleik og dásamlegri tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s