Frosin tónlist… en samt svo lifandi

3 stjörnur

Verk eftir Mozart, Walker, Haydn og Hauk Tómasson. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 7. janúar

Þegar sinfónía nr. 96 eftir Joseph Haydn var frumflutt, vildi ekki betur til en að risastór ljósakróna sem hékk hátt yfir höfðum áheyrenda, datt á gólfið með tilheyrandi brambolti. Engum varð þó meint af, sem leiddi til þess að sinfónían var síðar kölluð Kraftaverkasinfónían.

Ég býst ekki við að neinum hafi heldur orðið meint af sinfóníu nr. 104 eftir Haydn, sem flutt var á fyrstu opnu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í háa herrans tíð. Langt bil var á milli tónleikagesta, og Eldborginni var skipt í sóttvarnarhólf. Allir voru með grímur, nema hljóðfæraleikararnir, en þeir sátu lengra hver frá öðrum en vaninn er.

Laust í reipunum

Þessi fjarlægð á milli hljóðfæraleikara er erfið. Auðvitað gengur greiðlegar að stilla sig saman þegar maður heyrir almennilega í sessunaut sínum, það gefur augaleið. Kannski af þessum sökum var fyrsta verkið á dagskránni, forleikurinn að óperunni Cosi fan tutte Mozart dálítið laus í reipunum. Allar nótur voru vissulega á sínum stað, en hraðar tónahendingar voru stundum nokkuð hráar, og því virkaði forleikurinn í heild fremur flausturslegur.

Næsta atriði efnisskrárinnar var tilfinningaþrungin tónsmíð, Lyric, fyrir strengi, eftir George Walker. Hann var fyrsta þeldökka tónskáldið til að hljóta Pulitzer verðlaunin fyrir tónsmíðar. Það sem hér heyrðist var æskuverk, fullt af seiðandi laglínum og munúðarfullum hljómum sem voru prýðilega útfærðir af hljómsveitinni undir öruggri stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Kuldaleg á góðan hátt

Talsvert færri hljóðfæraleikarar voru á sviðinu í verkinu sem á eftir kom, Nature Morte eftir Hauk Tómasson. Einn hljóðfæraleikarinn, Frank Aarnink, stal senunni í upphafi, því hann var í æpandi neon-strigaskóm. Þeir skáru sig óneitanlega úr hefðbundnum dresskóða hljómsveitarinnar. Þessi myndræni vinkill var samt viðeigandi. Tónlist Hauks mun vera innblásin af japönskum litaskúlptúrum, sem verða til þegar litarefnum er hellt í vatn og það svo snöggfrosið. Í takt við það var tónlistin kuldaleg, en á góðan hátt. Mikið var um tóna á efsta tónsviðið, og samspil ólíkra radda þar skapaði ávallt áhugaverð litbrigði. Hljómarnir voru framandi og um leið töfrakenndir, og í heild var útkoman spennandi áheyrnar.

Lokaverkið, áðurnefnd sinfónía eftir Haydn, var líka á margan hátt skemmtileg. Fyrstu tveir kaflarnir voru vel spilaðir og tilkomumiklir, en hinir tveir voru síðri. Ýmis smáatriði hefðu mátt vera fágaðri, og eins og sagt er þá er Guð í smáatriðunum. Tónlistin var því óþarflega loðin og fyrir vikið missti hún nauðsynlega snerpu.

Engu að síður voru tónleikarnir fagnaðarefni, það var dásamlegt að heyra hljómsveitina í lifandi umgjörð. Hvílíkur munur á því og streyminu sem við höfum þurft að sætta okkur við.

Niðurstaða:

Sinfónían stóð sig vel undir krefjandi aðstæðum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s