Skrattinn í tónlistinni… og víðar

Seint á nítjándu öldinni birtist frétt í ónefndu blaði, þar sem sagði að tónlistarkennara hefði tekist að kenna apa að spila á píanó. Apinn hefði náð ótrúlegri færni, hann gæti meira að segja spilað fjórhent alveg sjálfur, þ.e. bæði með höndum og fótum. Og ekki bara það, hann fletti nótnablöðunum með rófunni.

Ég hugsa að fæstir hafi trúað fréttinni. En hefði maður trúað því um síðustu áramót, ef völva hefði spáð ósköpunum sem komu fyrir á árinu? Slíkur spádómur hefði þótt a.m.k. jafn fjarstæðukenndur og frétt af píanóspilandi, rófuflettandi apa.

Ashkenazy hvarf af sjónarsviðinu

Með Covid  í huga verður að segjast að hinn 82 ára gamli Vladimir Ashkenazy valdi rétta tímann til að draga sig í hlé frá tónleikalífinu. Hann gerði það 17. janúar og birtist frétt um það í öllum helstu heimsmiðlunum. Ashkenazy var lengi kallaður tengdasonur Íslands, kvæntur Þórunni Jóhannsdóttur. Hann varð heimsfrægur þegar hann vann fyrstu verðlaunin (ásamt John Ogdon) í Tsjajkovskíkeppninni í Moskvu árið 1962. Ferill hans varð afar farsæll, bæði sem píanóleikari og síðar sem hljómsveitarstjóri, og plöturnar hans eru óteljandi. Þær eiga eftir að verða ódauðlegar.

Óperuhúsin lokuðu

Skömmu eftir að Ashkenazy lét sig hverfa fóru fréttir að berast af lokunum óperuhúsa, og hver sinfóníuhljómsveitin á fætur annarri hætti störfum. Þetta gerðist auðvitað líka hér. Sinfóníuhljómsveit Íslands dró sig að mestu í hlé, en náði samt að halda upp á sjötugsafmælið sitt snemma í mars. Nýfenginn aðalstjórnandi, Eva Ollikainen, stjórnaði af festu og öryggi, og fyrsta sinfónían eftir Mahler lék í höndunum á henni og hljómsveitinni. Einleikarinn var Grammy-verðlaunahafinn Augustin Haderlich sem spilaði fiðlukonsertinn eftir Sibelius. Það var göldrum líkast.

Talandi um Grammy verðlaunin, þá hlotnaðist hljómsveitinni sá heiður á árinu að geisladiskur með leik hennar, þar sem hún flytur ný íslensk verk, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, var tilnefndur til verðlaunanna. Það var gaman að heyra.

Snautlegt afmæli Beethovens

Og meira um afmæli, því sjálfur höfuðmeistari klassískrar tónlistar, Ludwig van Beethoven, átti 250 ára afmæli seint á árinu. Fyrirhuguð var spennandi tónleikaröð í Salnum í Kópavogi. Þar áttu allar píanósónötur Beethovens, þrjátíu og tvær talsins, að vera fluttar af íslenskum píanóleikurum. Röðin hófst í haust, en svo óheppilega vildi til að um svipað leyti fór Covid-tilfellunum að fjölga aftur, og herlegheitunum var frestað. Ég sat þó upphafstónleika raðarinnar, með grímu auðvitað.

Tónleikarnir voru undarlegir. Kristín Jónína Taylor, sem er búsett í Bandaríkjunum, flutti sónötu eftir meistarann. Eiginmaður hennar, Bryan Stanley, sem er líka píanóleikari, lék aðra sónötu. Þau voru ekki einu sinni á staðnum. Vegna Covid 19 komust þau ekki hingað til að spila. Í staðinn var upptökum með leik þeirra varpað á tjaldið fyrir ofan sviðið. Það var frekar þunnur þrettándi.

Ekki má þó gleyma frábærum útvarpsþáttum Árna Heimis Ingólfssonar um Beethoven. Þeir eru ákaflega fróðlegir og vandaðir, tónskáldið birtist manni ljóslifandi. Ég hvet fólk til að hlusta á þættina.

Mislukkað streymi

Zoom varð vinsælt á árinu, og í tónlistarlífinu var að sama skapi boðið upp á streymistónleika. Maður virðir auðvitað viljann til að gera gott úr ástandinu, mikil ósköp, en það var bara ekki alltaf nógu vel að þessu staðið.

Heima í Hörpu var tónleikaröð þar sem valdir listamenn komu fram í tómri Eldborginni, og flutningnum var sjónvarpað á netinu. Auðvitað þarf sjónarhornið að vera áhugavert þegar svo ber undir, en upptökustjórnin var stundum óþarflega óróleg. Sífellt var verið að skipta um sjónarhorn, og það var ekki alltaf í takt við tónlistina.

Fyrir kom að útkoman var fáránleg. Á einum tónleikunum var reynt að gera framúrstefnulegt verk fyrir hörpu áhugavert með nærmyndum af strengjum hljóðfærisins, sem litu út eins og kappakstursbrautir. Í þokkabót var stiginn dans við tónlistina, en dansarinn valhoppaði inn og út úr mynd í sífellu. Þarna var kvikmyndatakan ekki nægilega vel undirbúin.

Gott og slæmt

Tveimur tónleikum sem sýndir voru í beinni í sjónvarpinu var líka klúðrað. Á Sinfóníutónleikum í vor eyðilagðist annars sannfærandi túlkun Hallveigar Rúnarsdóttur sópran á þremur aríum eftir Mozart. Söngurinn var himneskur, en brestir í hljóðinu voru það ekki, og var heildaruplifunin því mikil vonbrigði.

Sömu sögu er að segja af nýafstöðnum tónleikum Sinfóníunnar þar sem upprennandi söngstjarna, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, söng af yfirburðum tónlist eftir Händel og Mozart. Hljóðið var klént og helminginn vantaði af kreditlistanum.

Hinn stafræni vettvangur var samt ekki alslæmur. Útvarpsþættir Víkings Heiðars Ólafssonar um píanógoðsagnir voru opinberun. Sömu sögu er að segja um Músíkmola, stutta sjónvarpsþætti sem Víkingur gerði með konunni sinni, Höllu Oddnýju Magnúsdóttir. Þar lék Víkingur aðallega af geisladiski sínum með tónlist Rameaus og Debussys. Ekki má heldur gleyma mögnuðum streymistónleikum Stuarts Skeltons og Bjarna Frímanns Bjarnasonar á vegum Íslensku óperunnar. Þeir voru flottir.

Að lokum…

Nú er þetta annus horribilis, hið hræðilega ár, á enda. Svo ég haldi áfram með latínuna, þá má kalla árið Diabolus in musica, þ.e. skrattann í tónlistinni, þó hugtakið hafi upphaflega verið um stækkaða ferund, sem þótti svo ljótt tónbil í den. Vonandi náum við hjarðónæmi, vonandi fer menningarlífið aftur í fullan gang, vonandi fáum við lífið okkar til baka. Ég óska lesendum mínum alls hins besta í framtíðinni og þakka þeim samfylgdina á þrautagöngunni á árinu sem er að líða.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s