Fínn tónlistarflutningur, slæm dagskrárgerð

2 og hálf stjarna

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Vivaldi, Händel og Mozart. Einsöngvari: Álfheiður Erla Guðmundsdóttir. Einleikarar: Páll Palomares og Vera Panitch. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.

Eldborg í Hörpu, bein sjónvarpsútsending RÚV

fimmtudagur 10. desember

Sagt hefur verið að eina leiðin til að fá tvo fiðluleikara til að spila hreint er að skjóta annan þeirra. Þetta er auðvitað brandari, en það er sannleikskorn í honum eins og ótal dæmi sanna. Hann átti hins vegar ekki við á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Tónleikunum var streymt úr Hörpu og sýndir á RÚV. Á efnisskránni var fiðlukonsert í a-moll eftir Vivaldi. Einleikarar voru Vera Panitch og Páll Palómares. Samleikur þeirra var hreinn, takturinn nákvæmur og flutningurinn í heild fumlaus og öruggur.

Slæmu fréttirnar eru að hljómurinn í útsendingunni var ekki góður. Í tónlist Vivaldis eru ótal fíngerð blæbrigði. Nægir að benda á Árstíðirnar sem flestir þekkja. Þar eru ýmiss konar smáatriði, sem segja svo ótalmargt. Sama er uppi á teningnum í fiðlukonsertinum hér. Í útsendingunni var aftur á móti svo mikill glymjandi að allt þetta nostursamlega flattist út og útkoman var afar leiðinleg. Ég hlustaði á útsendinguna í vönduðum stúdíóhátölurum, svo ekki er hægt að kvarta undan græjunum. Nei, hér var einfaldlega ekki vandað nægilega til verka.

Afburða söngkona

Hljómurinn var líka skringilegur þegar Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran söng. Það var Let the Bright Seraphim og Lascia ch‘io pianga eftir Händel og Al destin che la minaccia eftir Mozart. Söngur Álfheiðar var vissulega stórfenglegur, einstaklega fágaður og hljómmikill; túlkunin innileg og grípandi. Sérstaklega var Mozart glæsilegur, söngurinn var í senn kröftugur og áreynslulaus. Aftur á móti var styrkleikajafnvægið á milli söngs og hljómsveitar ekki alveg rétt. Hljómsveitin var fullsterk í samhenginu við sönginn, ekki alvarlega, en nægilega til að það truflaði stundum upplifunina.

Lokaverkið á dagskránni var sinfónía nr. 25 eftir Mozart. Hún er í molltóntegund og því nokkuð þungbúin. Lengi vel var hún ekki meðal þekktust tónsmíða tónskáldsins, þótt sjálfur Beethoven hafi haft mikið dálæti á henni. Með kvikmynd Milosar Forman, Amadeus, á níunda áratug síðustu aldar, breyttist það. Sinfónían leikur stórt hlutverk í myndinni, skapar dramatískt andrúmsloft þrungið spennu.

Tærleikann vantaði

Daníel Bjarnason stjórnandi sýndi þarna ágæta tilfinningu fyrir tónlistinni, laglínurnar voru fagurlega mótaðar og framvindan sannfærandi. Það dugði þó skammt því glymjandinn í útsendingunni, sérstaklega í bassanum, var of mikill. Þetta var óþægilega áberandi í hæga kaflanum, þar sem allt flaut í bergmáli, og svo sem víðar líka.

Annað klúður átti sér stað í lok þáttarins, þegar kreditlistinn rúllaði yfir skjáinn. Einn af flautuleikurunum á tónleikunum var sagður vera Hallfríður Ólafsdóttir, sem andaðist fyrir skemmstu. Og svo hvarf seinni helmingurinn af kreditlistanum fyrirvaralaust. Hvort tveggja var einstaklega klaufalegt. Það verður að gera betur en þetta.

Niðurstaða:

Fínn tónlistarflutningur hjá Sinfóníunni, magnaður söngur Álfheiðar Erlu Guðmundsdóttur, en illa pródúserað af RÚV.

LEIÐRÉTTING: Mér var bent á, eftir að greinin birtist, að hljóðið í útsendingunni var ekki í höndunum á RÚV, heldur utanaðkomandi aðila. En hver svo sem raunverulega bar ábyrgðina, þá var hljóðið ekki gott og verður vonandi bætt úr þessu næst. Sinfóníuhljómsveitin, einsöngvarinn og einleikararnir áttu betra skilið, svo maður talar ekki um þá sem hlustuðu heima.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s