Beethoven var í beinu sambandi

Um þessar mundir eru 250 ár síðan Beethoven fæddist. Af því tilefni hefur Árni Heimir Ingólfsson unnið einkar vandaða þáttaröð sem er á finna á Rás 1. Hún er frábær. Þar er allskonar fróðleikur um meistarann, gnægð tóndæma, stundum um verk sem maður hefur aldrei heyrt. Árni Heimir er einstaklega vel máli farinn, hann segir skemmtilega frá, frásögn hans er lifandi og litrík.

Skapanornirnar voru óvægnar við Beethoven. Hann þurfti að bera þyngri byrðar en flestir, því heyrnarleysi gerði að verkum að hann var nánast útlægur úr mannlegu samfélagi. Síðustu tíu ár ævi sinnar lifði hann að mestu í algerri þögn og það eina sem hann heyrði voru eigin verk sem ómuðu stöðugt í höfði hans.

Næstum því Mozart

Áður en sjúkdómurinn gerði vart við sig var Beethoven einn færasti píanóleikari samtíðar sinnar. Strax í bernsku var ljóst að hann var enginn venjulegur píanónemandi. Hæfileikar hans stigu föður hans mjög til höfuðs. Hann var drykkfelldur og raupsamur tónlistarmaður, sem aldrei hafði náð langt í list sinni. Hann var því bláfátækur og hugsaði sér gott til glóðarinnar þegar bera fór á snilli sonar síns. Yrði hann kannski annar Mozart?

Það varð aldrei. Mozart var frík sem hafði samið sinfóníu barn að aldri, og það afrek gat Beethoven litli ekki leikið eftir. Ekki einu sinni þótt pabbi hans kæmi stundum fullur heim um miðja nótt og heimtaði að hann færi þá á fætur til að æfa sig.

Þjáningin skapaði eldmóð

Þetta hörmungarástand á heimilinu gerði að verkum að lífið hjá Beethoven var enginn dans á rósum. Hann skildi fljótt að þjáningin var órjúfanlegur hluti lífsins, en þessi djúpa innsýn lamaði hann ekki, heldur gerði hann staðráðinn í að sigrast á öllum erfiðleikum. Eldmóðurinn kom fram í listsköpun hans og er einkennandi fyrir alla hans tónlist. Þessi innri styrkur bjó hann líka undir þær raunir sem hann átti eftir að glíma við síðar á lífsleiðinni.

Þegar Beethoven var 21 árs hélt hann til Vínarborgar, sem þá var einskonar höfuðborg tónlistarheimsins. Hann trúði á mátt sinn og megin, enda lá heimurinn að fótum hans. Hamingjutíminn varði þó ekki lengi, því heyrnarleysið sem hrjáði hann gerði fyrst vart við sig um fimm árum síðar.

Greip örlögin kverkataki

Ekki er vitað um ástæður heyrnarleysisins, en hverjar sem þær voru var Beethoven ekki á því að gefast upp. „Ég skal grípa örlögin kverkataki“ sagði hann í bréfi til vinar síns. Hann fór nú að þjálfa sig í að semja tónlist, og jafnframt heyra hana í huganum eins fullkomlega og auðið var. Með því að nota hans innri eyru þegar tónsmíðar væru annarsvegar myndi heyrnin ekki skipta hann neinu máli. En örvæntingin greip hann þegar hann fann að hann átti í stöðugt meiri erfiðleikum með mannleg samskipti og að hann var að einangrast í einmannalegum heimi þagnarinnar.

Innri átök, síðar innri friður

Er hér var komið fór tónsköpun Beethovens að miklu leyti að snúast um innri átök; örlögin, náttúruna, vilja Guðs, manninn og alheiminn í kringum hann. Síðar öðlaðist hann innri frið og í verkunum sem hann samdi þá alveg heyrnarlaus er að finna nýja lífsýn og uppgjör við fortíðina. Margar af þessum tónsmíðum eru hans bestu, eins og fjórar síðustu píanósónöturnar, níunda sinfónían og strengjakvartettarnir ópus 127 og upp úr.

Beethoven var ekki hamingjusamur maður, en hæfileikar hans, menntun og lífsreynsla sameinaðist í að gefa heiminum tónlist sem er engri lík. Þegar ég hlusta á sum verk hans finnst mér eins og verið sé að segja mér einhver djúp sannindi um manninn og lífið, jafnvel Guð sjálfan; þeir eru ekki margir tónsmiðirnir sem ná að skapa slík listaverk.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s