Margt býr í þokunni

4 stjörnur

Tónlistarhátíð Rásar 1. Verk eftir Hauk Þór Harðarson, Högna Egilsson, Veronique Vöku og Sóleyju Stefánsdóttur.

Norðurljós í Hörpu í beinni útsendingu.

Miðvikudaginn 25. nóvember

Í den töpuðu vitaverðir oft glórunni. Einmannaleikanum sem óhjákvæmilega fylgdi starfinu var kennt um það. Síðar kom sannleikurinn í ljós. Fyrir tíma rafmagns var ljóskastarinn trekktur upp eins og í klukku, og til að auðvelda snúninginn og fækka upptrekkingunum var kastarinn látinn fljóta í kvikasilfri. Hreinsa þurfti kvikasilfrið með reglulegu millibili, og við það andaði vitavörðurinn að sér eiturgufum, sem gerðu hann brjálaðan. Þessi staðreynd var Sóleyju Stefánsdóttur innblástur að verki sem flutt var á tónlistarhátíð Rásar 1 á miðvikudagskvöldið í beinni útsendingu. Tónleikarnir fóru fram í Norðurljósasalnum í Hörpu og Elektra Ensemble lék.

Hljóðræn hryllingsmynd

Um var að ræða einskonar hljóðræna hryllingsmynd um ofskynjanir vitavarðarins. Á píanó spilaði Ástríður Alda Sigurðardóttir og hún táknaði vitavörðinn. Hinir hljóðfæraleikararnir stóðu fyrir ljósið í vitanum. Það voru þær Emilía Rós Sigfúsdóttir á flautu, Helga Björg Arnardóttir á klarinettu, Helga Þóra Björgvinsdóttir á fiðlu og Margrét Árnadóttir á selló. Þær voru með allt á hreinu. Einmannalegir tónar píanósins sköpuðu óhugnanlega stemningu og í ómstríðum samleik hinna hljóðfæraleikaranna brá fyrir ýmiss konar furðum. Margt býr í þokunni! Sívaxandi undiraldan skapaði sterkt andrúmsloft; þetta var frábært verk.

Anna Þorvaldsdóttir var listrænn stjórnandi hátíðarinnar, og hún fór þá sniðugu leið að velja tvo tónsmiði sem alla jafna eru þekktari í heimi dægurtónlistar, og svo tvö tónskáld á jaðrinum. Heildarmyndin var reglulega áhugaverð í fjölbreytileika sínum.

Haukur Þór Harðarson var ekki með neinar málamiðlanir. Efniviðurinn hans var brot úr verki eftir Max Richter, þekkt kvikmyndatónskáld. Smátt og smátt var tálgað úr brotinu þar til eiginlega ekkert var eftir, eins og sandkastali á ströndinni sem leysist upp í öldunum. Tónlistin var mjög afstrakt og ólagræn, leitandi að fókus sem aldrei kom. Þema hátíðarinnar var hugleiðingar um tímann, og þarna var sterk mynd af tímanum, sem engu eirir.

Tjáningarríkt, þjáningarríkt

Tónsmíð eftir Högna Egilsson var allt öðruvísi, fantasía í fimm þáttum sem greinilega voru innblásnir af átökum. Þeir voru mjög tjáningarríkir, og kannski þjáningarríkir í leiðinni. Tónmálið var klassískt, lagrænt og tónalt, en ekki fyrirsjáanlegt, hvað þá klisja. Verkið var haganlega skrifað fyrir raddirnar fimm, mismunandi litir samsvöruðu sér vel; útkoman var sársaukafull og tregablandin, en ávallt falleg.

Verk eftir Veronique Vöku var líka áhrifamikið. Yrkisefni hennar var fjórði kaflinn í Sveitasinfóníu Beethovens, sem er lýsing á stormi. Tónlist Veronique var þó alls ekki óróleg, þvert á móti. Að sögn var hún að leita að kyrrðinni á milli vindkviðanna. Tónmálið var sérlega ómstrítt en smám saman öðlaðist það tærleika sem skapaði stemningu friðar og helgi. Það var magnað.

Niðurstaða:

Áhugaverðir tónleikar með spennandi tónlist og glæsilegum hljóðfæraleik.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s