Bölvun klarinettunnar lætur vel í eyrum

Geisladiskur

4 og hálf stjarna

Brahms & Khoury: Klarinettukvintettar

Paladino Music

Munurinn á lauk og klarinettu er sá að þegar klarinettan er skorin, grætur enginn.

Þessi brandari endurspeglar þá staðreynd að hljóðfærið getur verið býsna hvasst ef þannig er leikið á það. Verra er þó að bölvun fylgir því. Dæmin sanna það:

Mozart skrifaði klarinettukonsertinn KV 622 árið 1791. Tveimur mánuðum síðar dó hann. Carl Nielsen samdi klarinettukonsert 1928. Hann lifði aðeins í þrjú ár eftir það. Francis Poulenc samdi klarinettusónötu árið 1962. Nokkru síðar var hann allur. Schubert lét eftir sig Fjárhirðinn á bjarginu, fyrir klarinettu, sópran og píanó, fáeinum mánuðum fyrir dauða sinn. Camille Saint-Saëns samdi klarinettusónötuna op. 167 skömmu áður en hann lést úr hjartaáfalli. Og Brahms, sem var sestur í helgan stein og hættur tónsmíðum, heillaðist svo af spili klarinettuleikara að hann dró fjaðurpennan aftur fram og skapaði nokkur klarinettuverk. Litlu síðar datt hann niður dauður.

Dimitri Ashkenazy leikur

Ein þessara tónsmíða eftir Brahms er klarinettukvintett. Kvintettinn er að finna á nýútkomnum geisladiski. Dimitri Ashkenazy leikur á klarinettuna, Robin Sharp og Mechthild Karkow á fiðlur, Jennifer Anschel á víólu og Gundula Leitner á selló.

Tónlistin er fremur lágstemmd, samin af manni sem er saddur lífdaga. Ástríðurnar sem einkenndu eldri tónlistina eru kulnaðar, en eftir er einhver hjartahlýja sem kemst fullkomlega til skila í vönduðum leiknum. Hér eru engar málamiðlanir. Það er ekkert verið að skapa spennu til að gera tónlistina bitastæðari fyrir spennufíkla. Tónlistin fær að flæða áreynslulaust, alveg ómenguð. Þetta er ekki kvikmyndatryllir, hvað þá spennusaga, heldur meira í ætt við ljóðaupplestur. Stemningin er innhverf, gædd ljúfsárri nostalgíu sem hittir mann í hjartastað.

Þvert á móti kurteisleg

Brahms gat verið dálítill þurs í samskiptum, og einu sinni, þegar hann var að kveðja veislugesti, sagði hann: „Hafi ég gleymt að móðga einhvern, þá biðst ég afsökunar.“ Þennan hrjúfa karakter er ekki að finna í tónlistinni á geisladiskinum. Þvert á móti er hún fáguð og á einhvern hátt kurteisleg. Í takt við það er hljóðfæraleikurinn nákvæmur og tær, tæknileg atriði eru eins og best verður á kosið. Allir eru í sparifötunum, stimamjúkir og diplómatískir.

Hitt verkið á geisladiskinum er Gardens of Love eftir líbanska samtímatónskáldið Houtaf Khoury. Þar vefst keimur austurlenskra þjóðlaga saman við vestræna fjölröddun og aga. En ekki bara það, heldur blandast líka andrúmsloft trega og kærleika, eftirsjár og vonar, óhugnaðar og útópískrar sýnar. Rétt eins og hjá Brahms er tónlistin lágstemmd, hún gefur í skyn fremur en að skella meiningunni framan í opið geð hlustandans.

Hljóðfæraleikurinn hér er einnig firnagóður. Fínleg blæbrigði eru nostursamlega ofin, samleikurinn er flottur. Hljóðfæraleikararnir fimm spila sem einn maður. Hvert smáatriði er úthugsað. Form verksins er dálítið óljóst og erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað gerist, en þetta EITTHVAÐ nær tökum á manni. Ekki er hægt að biðja um meira en það.

Þess má geta að kvintettinn var saminn fyrir rúmum tíu árum og Khoury er enn á lífi. Nú? Bölvun klarinettunnar hefur sennilega verið aflétt í seinni tíð, sem betur fer.

Niðurstaða:

Mögnuð tónlist með frábæru listafólki.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s