
5 stjörnur
Verk eftir Wagner og Martinu á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Julia Hantschel. Stjórnandi: Eva Ollikainen.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 25. febrúar
Tveir menn standa við þvottavél sem heitir Wagner. Annar maðurinn segir: „Þetta er frábær vél. En ekki velja „ring cycle“ því þá tekur þvotturinn 15 tíma og í lokin kviknar í vélinni og allt flýtur um húsið.“
Hér er vísað til fjögurra ópera eftir Wagner sem bera sameiginlega nafnið Niflungahringurinn. Þar er fjallað um örlög Sigurðar fáfnisbana, norrænu goðanna og alls heimsins. Wagner var stórhuga og óperurnar hans eru í kosmískri stærð. Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið voru leikin tvö atriði úr óperunni Tristan og Isolde (sem reyndar er ekki í Niflungahringnum, heldur sjálfstætt verk). Þetta var forleikurinn og hinn svokallaði Ástardauði. Saga elskendanna fer ekki vel, og tónlistin er að sama skapi dökk. Engu að síður rís hún upp í hæstu hæðir, og áhrifamáttur hennar er geysisterkur.
Fagurlega mótað
Eva Ollikainen, stjórnandi hljómsveitarinnar að þessu sinni, var í banastuði. Leikur hljómsveitarinnar var vandaður og nákvæmur, fyllilega samtaka og fagurlega mótaður. Stígandin í spilamennskunni var sérlega mögnuð. Uppbyggingin var hæg en gríðarlega kröftug, og hápunktarnir svo yfirgengilegir að maður hefur sjaldan orðið vitni að öðru eins. Hvílík snilld!
Meiri Wagner var á dagskránni. Tenórinn Stuart Skelton söng hin svokölluðu Wesendonck ljóð við undirleik hljómsveitarinnar, en tónlistin er við ljóð eftir Mathildu Wesendonck. Þau eru tilfinningaþrungnar heimspekivangaveltur og er tónlistin og samruni hennar við textann kyngimögnuð opinberun.
Sum lögin eru skissur sem liggja til grundvallar Tristan og Isolde. Eitt þeirra heitir Í gróðurhúsinu, en þar tala tré saman og syrgja frelsið áður en þau lentu í núverandi vistarverum. Hugsanlega má tengja það við hugmyndir um að lífið á jörðinni sé útlegð mannsálarinnar frá Paradís. Þráin sem kraumar undir er alheimsleg.
Breiður og tignarlegur
Túlkun Skeltons var þrungin tilfinningum, og var litróf þeirra fjölbreytt. Ég talaði áður um kosmíska stærð, en hana var einnig að finna í söngnum. Hann var breiður og tignarlegur, röddin bæði stór, en einnig fínleg þegar við átti. Dásemd var á að hlýða.
Auk Wagners var óbókonsert eftir Bohuslav Martinu á dagskránni. Julia Hantschel lék einleik. Verkið var skemmtilegt. Laglínurnar voru mestan partinn fjölbreyttar og stundum sniðugar, eins og tónskáldið réði sér ekki fyrir kæti. Hægi kaflinn samanstóð að miklu leyti af svokölluðu tónlesi, sem er mitt á milli tals og söngs. Vissulega var enginn söngur hér, en hægt er að syngja á hljóðfæri þó að orð séu ekki til staðar. Bæði tónlesið og allt annað í konsertinum var fullt af merkingu. Hver einasta hending sagði sögu, sem einleikarinn og hljómsveitin miðluðu af aðdáunarverðri fagmennsku og með næmri tilfinningu fyrir stíl tónskáldsins. Það gerist varla betra.
Niðurstaða:
Tónleikarnir voru með þeim glæsilegri sem undirritaður hefur farið á.