Lyfti andanum í hæstu hæðir

4 og hálf stjarna

Verk eftir Rameau, Debussy og Mússorgskí. Víkingur Heiðar Ólafsson lék á píanó.

Eldborg í Hörpu

þriðjudaginn 9. mars

Í einu ævintýrinu um Múmínálfana er vondur lystigarðsvörður. Hann leyfir ekkert í garðinum og börnin vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Á víð og dreif eru skilti þar sem stendur: Bannað að blístra. Bannað að hlæja. Bannað að hoppa jafnfætis.

Stemningin var ekki ósvipuð á tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar í Hörpu á þriðjudagskvöldið. Vondi lystigarðsvörðurinn var með míkrófón og sagði: „Bannað að taka af sér grímuna á meðan Víkingur er að spila. Bannað að mynda hópa í hlénu. Bannað að fara allir í einu út úr Hörpu á eftir dagskrána.“ Óneitanlega var þetta dálítið þrúgandi, sem og að vera með grímu út heila tónleika með hléi.

Þetta virtist þó ekki hafa mikil áhrif á Víking, sem greinilega gaf sig allan í píanóleiknum. Á efnisskránni voru fyrst verk eftir Debussy og Rameau, sem var blandað saman á alls konar hátt, þótt tónskáldin tilheyri sitthvoru tímabili og stíl í tónlistarsögunni. Debussy var gagnrýnandi auk þess að vera tónsmiður, og gat verið hvass í umsögn um önnur tónskáld. Hann sagði t.d. um Till Eulenspiegel eftir Richard Strauss að það væri klukkutími af nýrri tónlist fyrir geðsjúklinga. Svona líkingar voru ekkert einsdæmi hjá honum.

Hann var hins vegar mjög hrifinn af Rameau, sem var uppi um tveimur öldum fyrr. Í einu píanóverki sínu, Images, er kafli sem er skrifaður í anda gamla snillingsins. Þetta varð Víkingi innblástur að kanna tengslin á milli tónskáldanna, setja hin og þessi verk eftir annað þeirra í samhengi við tónlist eftir hitt. Kokteillinn kemur vel út á geisladiskinum sem leit dagsins ljós í fyrra, og hann var líka grípandi á tónleikunum. Eitt áhrifamesta atriðið fyrir hlé var prelúdía eftir Debussy sem nefnist Sporin í snjónum. Það er eitthvert þunglyndislegasta píanóverk sögunnar, þráhyggjukenndur tónaseiður hendinga sem nísta mann inn að beini. Við hliðina á heiðríkju Rameaus virtist það jafnvel ennþá átakanlegra.

Eftir hlé flutti Víkingur eina þekktustu tónsmíð rússneskrar tónlistar, Myndir á sýningu eftir Mússorgskí. Myndirnar eru í tíu köflum, jafnmörgum og málverkin sem höfðu svona sterk áhrif á tónskáldið. Kaflarnir eru tengdir með sama stefinu, sem þó fer í gegnum alls konar umbreytingar.  

Upphaflega útgáfa verksins er fyrir píanó, en rithátturinn er dálítið ferkantaður, hver svo sem ástæðan er. Fyrir vikið hafa ýmsir búið til meira krassandi gerð, eins og Ravel, sem gerði hljómsveitarútgáfu, sem og Vladimir Ashkenazy löngu síðar. Einnig til rokkútgáfa, raftónlistarútgáfa og örugglega eitthvað fleira.

Sú gerð sem hér bar fyrir eyru var eftir Vladimir Horowitz. Hún er talsvert viðameiri og brjálæðislegri en upprunalega gerðin, og undirritaður er mjög hrifinn af henni. Víkingur lék hana af glæsibrag, alls konar flugeldasýningar voru tilkomumiklar. Dramatískar andstæður, allt frá hugleiðslukenndri ferð á úlföldum í eyðimörkinni yfir í hryllinginn í kringum nornina Baba Yaga, voru magnaðar. Hápunkturinn í lokin var beinlínis geigvænlegur, hann var svo flottur. Heildarútkoman var töfrakenndur skáldskapur sem lyfti andanum upp í hæstu hæðir.

Niðurstaða:

Afar glæsilegir tónleikar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s