Kraftmikil sinfónía, máttlaus konsert

3 og hálf stjarna

Verk eftir Chaminade, Saint-Saëns og Brahms. Einleikari: Emilía Rós Sigfúsdóttir. Stjórnandi: Eivind Aadland.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 11. mars

„Hún er ekki kona sem semur tónlist, heldur tónskáld sem er kona.“ Þetta var sagt um Cecile Chaminade (1857-1944), en konur áttu lengi erfitt með að hasla sér völl sem tónskáld. Chaminade var þó mjög vinsæl, bæði í heimalandi sínu, Frakklandi, sem og víðar. Eftir dauða hennar hefur minna heyrst af verkum hennar, og því var kærkomið að hlýða á einskonar smákonsert, concertino, fyrir flautu og hljómsveit. Hann var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið.

Virkaði ekki alveg

Flutningurinn heppnaðist ekki sem skyldi. Verkið var upphaflega samið fyrir flautu og píanó, og þannig kemur það talsvert betur út. Hljómsveitarútgáfan er alltof viðamikil og á tónleikunum var einleiksflautan kaffærð aftur og aftur. Emilía Rós Sigfúsdóttir lék á flautuna; hún er vissulega frábær flautuleikari eins og hún hefur sýnt og sannað í gegnum tíðina. Hér þurfti hún hins vegar að berjast fyrir tilveru sinni. Ekki aðeins var hljómsveitin of hávær, heldur var hljómsveitarstjórinn, Eivind Aadland, ekki nógu sveigjanlegur. Þau tvö voru ekki alltaf samtaka og á tímabili var það pínlegt áheyrnar. Það var eins og Fríða væri að dansa tangó við Dýrið, sem steig á tærnar á henni í sífellu.

Emilía Rós lék annað stutt verk með hljómsveitinni, Rómönsu eftir Camille Saint-Saëns. Það var ósköp máttlaust. Tónsmíðin var óspennandi, laglínurnar voru væmnar og hljómsveitarröddin litlaus og óáhugaverð. Eftir því var tónlistin leiðinleg.

Magnaður Brahms

Meira var varið í fjórðu sinfóníu Brahms. Hún er undurfögur. Bæði er hún viðkvæm, en líka skemmtilega hvöss. Síðasti kaflinn samanstendur af fjölmörgum tilbrigðum við stutt stef sem er leikið í upphafi. Yfirbragð kaflans er hrjóstrugt og lokahnykkurinn magnaður.

Brahms gat verið óttalegt kvikindi í samskiptum sínum við aðra, ekki síst kollega sína. Eitt sinn var hann að spila á píanó með sellóleikara. Rétt eins og Dýrið í tangónum við Fríðu var hann full kraftmikill. Á eftir kvartaði sellóleikarinn, sagðist ekki hafa heyrt í sjálfum sér. Brahms svaraði: „Þú ert heppinn. Ég heyrði í þér!“ Andrúmsloftið í lokakafla sinfóníunnar var einmitt eitthvað á þessa leið. Tónlistin eirði engu.

Eivind Aadland sýndi góða tilfinningu fyrir sinfóníunni. Flæðið í túlkuninni var sannfærandi. Hápunktarnir virkuðu eðlilegir og rauði þráðurinn slitnaði aldrei. Mýktin var líka til staðar, og skapaði áhrifaríkt mótvægi við árásargirnina. Útkoman var sjaldheyrður unaður, ekki síst vegna þess hve vel hljómsveitin spilaði. Hver einasti tónn var á sínum stað. Samhljómurinn var þéttur og fallega mótaður, mismunandi hljóðfærahópar voru með allt á hreinu. Þetta var snilld.

Niðurstaða:

Flautuverkin ollu vonbrigðum en fjórða sinfónía Brahms var himnesk. Eða djöfulleg.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s