4 og half stjarna

Jóhannesarpassían eftir Bach í flutningi Kórs og Kammersveitar Langholtskirkju. Magnús Ragnarsson stjórnaði. Einsöngvarar: Benedikt Kristjánsson, Fjölnir Ólafsson Hildigunnur Einarsdóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson.
Langholtskirkja
sunnudaginn 14. mars
Nýlega varð allt brjálað þegar grínisti í skemmtiþættinum Saturday Night Live lagði út frá því að Ísraelar væru búnir að bólusetja helming þjóðarinnar. Hann sagðist giska á að það væri gyðinglegi helmingurinn.
Tónsmíð eftir Bach hefur verið umdeild af svipuðum ástæðum. Það er Jóhannesarpassían, stórt verk fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Verkið byggir á textanum í Jóhannesarguðspjalli, og fjallar um handtöku, yfirheyrslu og krossfestingu Jesú Krists. Af öllum guðspjöllunum er gyðingum þar mest kennt um dauða hans. Þeir eru vondi gæinn í sögunni.
Í sumum uppfærslum á Jóhannesarpassíunni hefur textanum verið breytt, „gyðingar“ orðið að “fólkinu“. Það var ekki gert á tónleikum í Langholtskirkju á sunnudagskvöldið.
Fögur kóratriði og aríur
Jóhannesarpassían er magnað tónverk, burtséð frá því hverjir eiga sök á krossfestingunni. Kóratriðin eru fögur og sumar aríurnar svo hrífandi að það er alveg einstakt.
Tónsmíðin er byggð upp eins og sú kristna hugleiðsla sem hefur verið við lýði í gegnum aldirnar, og er kölluð Lectio divina, þ.e. andlegur lestur. Þar er stuttur texti úr Biblíunni, venjulega Nýja testamentinu, lesinn hægt nokkrum sinnum, og síðan hugleiddur. Loks er beðið út frá honum.
Í Jóhannesarpassíunni er sögumaður sem syngur frásögnina, en einsöngvarar og kórinn eru í hlutverki persónanna í sögunni. Með reglulegu millibili er atburðarásin fleyguð með aríum og kóratriðum, þar sem efni ritningarinnar er hugleitt og tilfinningar um það eru tjáðar. Með þessu móti er farið talsvert dýpra í guðspjallið en ef sagan væri eingöngu sögð eins og hún kemur fyrir í Biblíunni.
Af hástemmdri hjartahlýju
Flutningurinn olli ekki vonbrigðum. Leikur Kammersveitar Langholtskirkju var stílhreinn og akkúrat. Helst mátti finna að barokkhljóðfærinu sem Sigurður Halldórsson sellóleikari spilaði á um tíma, en það var býsna hjáróma.
Kór Langholtskirkju söng af hástemmdri hjartahlýju, túlkunin var blátt áfram, en samt einlæg. Samsöngurinn var þéttur og fallegur.
Einsöngvararnir stóðu sig frábærlega vel. Frammistaða Benedikts Kristjánssonar, sem var guðspjallamaðurinn og sagði söguna, var mergjuð. Hann söng meira og minna allan tímann, en verkið tekur um tvær klukkustundir. Mikið var á hann lagt. Hann þurfti að túlka allskonar tilfinningar með fínlegum blæbrigðum sem komu afar vel út hjá honum. Gaman hefur verið að fylgjast með honum vaxa; söngur hans er orðinn miklu kraftmeiri en bara fyrir nokkrum árum síðan.
Fjölnir Ólafsson var líka flottur sem Jesús og Hildigunnur Einarsdóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson stóðu sig með prýði.
Magnús Ragnarsson stjórnandi hélt utan um alla þræði verksins af smekkvísi og fagmennsku. Tónlistinni fékk að flæða tilgerðarlaust, en var samt þrungin tilfinningum. Fyrir bragðið varð Jóhannesarpassían að einhverju sem var miklu meira en tónlist. Hún var dyr inn í æðri veruleika sem ekki er hægt að lýsa með orðum.
Niðurstaða:
Stórbrotinn flutningur á Jóhannesarpassíunni eftir Bach.