
4 og hálf stjarna
Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Daníel Bjarnason. Einleikari: Pekka Kuusisto. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 18. mars
Yfirmaður bækistöðvar CIA í Berlín á tímum Kalda stríðsins var tónlistargagnrýnandi í hjáverkum. Hann hét Henry Pleasants. Ein af bókunum sem hann skrifaði bar nafnið The Agony of Modern Music. Hún kom út árið 1955. Líkt og titillinn gefur til kynna, er hún mikill bölmóður um tónlist samtímans. Í þá daga var ákveðin tegund akademískrar tónlistar áberandi og byggðist á ströngum formúlum. Pleasants hataði hana og taldi dauða. Skoðun hans var að djassinn væri hinn raunverulegi arftaki klassískrar tónlistar nítjándu aldarinnar.
Þetta var óþarfa bölsýni. Alls konar stefnur í tónsköpun hafa litið dagsins ljós síðan bókin var skrifuð. Í dag veit maður aldrei á hverju er von þegar ný tónlist er frumflutt. Gott dæmi voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Þar voru flutt þrjú ný verk eftir íslensk tónskáld. Þau voru fjarskalega ólík, og komu stöðugt á óvart. Og ekki bara það, þau voru skemmtileg líka.
Tilnefnt til Grammy verðlaunanna
Tvær tónsmíðarnar eru á geisladiski sem var tilnefndur til Grammyverðlaunanna, en hreppti þó ekki hnossið, því miður. Önnur þeirra var Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Það var áhugaverð tónlist. Hún var mun viðburðaríkari en margt annað sem ég hef heyrt eftir Önnu. Verkið einkenndist af snarpri atburðarás og ástríðufullri stígandi. Mikið var um svokallað glissando, þ.e.a.s. rennerí eftir strengjum. Kraftmiklir slagverkskaflar voru eggjandi, og í hápunktinum leystist allt upp í afar munúðarfulla hljóma sem voru einstaklega krassandi. Útkoman var mögnuð.
Næst á dagskrá var Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, sem er einnig að finna á geisladiskinum. Verkið var allt öðruvísi en það sem Anna samdi. Áferðin var miklu jafnari, litur tónlistarinnar samfelldari. Engu að síður voru dramatískir hápunktar og í heild var einhver annarsheimslegur sjarmi yfir músíkinni, sem erfitt er að skilgreina með orðum.
Hvað ertu tónlist?
Í þessu samhengi má nefna að Beethoven spilaði einu sinni verk eftir sjálfan sig á píanó fyrir hóp fólks. Á eftir spurði einn meðal áheyrenda um merkingu þess sem hann heyrði. Beethoven reiddist, og í stað þess að svara settist hann aftur við píanóið og lék verkið á ný. Megnið af tónlist væri ekki til ef hægt væri að útskýra hana á einhvern annan hátt en með henni sjálfri. Verk eins og það sem hér heyrðist á tónleikunum á bara að vera dularfullt.
Ennþá dularfyllri var fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason, sem jafnframt stjórnaði hljómsveitinni á tónleikunum. Gríðarleg breidd var í styrkleikabrigðum, sem og í hraða. Stemningin var allt frá því að vera eins og í hugleiðslu yfir í villimannslega orgíu. Laglínurnar voru framandi, en heillandi á einhvern skrýtinn hátt. Á köflum heyrðust undarlegir flaututónar; einleikarinn spilaði ekki bara á fiðluna, heldur blístraði líka. Það var eins og vindurinn væri með á tónleikunum.
Einleikurinn var í höndunum á hinum finnska Pekka Kuusisto. Leikur hans var stórbrotinn og glæsilegur, einkar kraftmikill, en líka viðkvæmur þegar við átti. Hljómsveitin spilaði sömuleiðis afar vel. Útkoman var full af karakter, dálítið sérviskuleg en alltaf áhugaverð; uppbyggingin spennandi og hápunktarnir áhrifaríkir. Þetta var gaman.
Niðurstaða:
Líflegir tónleikar með kræsilegri tónlist og flottum einleik.