

5 stjörnur
Des Knaben Wunderhorn eftir Mahler. Jóhann Kristinsson og Ammiel Bushakevitz fluttu.
Salurinn í Kópavogi
þriðjudaginn 23. mars
Einu sinni gekk kaþólski dýrlingurinn Antóníus af Padóvu inn í kirkju þar sem hann hugðist predika. Því miður var hún tóm. Hann dó samt ekki ráðalaus, heldur hélt niður að sjó og hóf þar að predika yfir fiskunum. Þeir þurftu jú á guðsorði að halda líka. Antóníus hélt þrumandi ræðu sem var svo full af andakt að fiskarnir lögðu við hlustirnar. Þeir syntu í heilu torfunum upp að flæðarmálinu og urðu alveg hugfangnir. Þegar Antóníus hafði lokið máli sínu, sneru fiskarnir við, syntu burt og héldu áfram að vera þeir sjálfir. Þorskurinn var ennþá þorskur og krabbinn krabbi. Ekkert hafði breyst.
Þessa kómísku sögu er að finna í safni þýskra þjóðkvæða sem kom út árið 1805 undir nafninu Undrahorn piltsins, eða Des Knaben Wunderhorn. Ljóðið sem hér er til umræðu fjallar á skemmtilegan hátt um breyskleika mannsins og frumhvatirnar sem ráða öllu. Stundum þarf meir en eina predikun til að hafa einhver varanleg áhrif. Gustav Mahler samdi tónlist við ljóðið, sem og mörg önnur úr kvæðasafninu. Lagaflokkurinn var á dagskránni á tónleikum í Salnum í Kópavogi. Þar komu fram Jóhann Kristinsson baríton og Ammiel Bushakevitz píanóleikari.
Ævintýraljómi yfir öllu
Sum ljóðin eru hnyttin, önnur mun dekkri. Mahler var mjög upptekinn af dauðanum og hann áleit tónlist sína yfirnáttúrulega, hún kæmi frá himnum – eða helvíti. Hann óttaðist að myrkari tónlist sín gæti haft skaðleg áhrif á hlustendur. Einu sinni samdi hann tónlist við ljóð þar sem dauði barna er syrgður. Nokkrum árum síðar dó hans eigin dóttir. Hann var kvalinn af samviskubiti, því hann trúði að tónlistin hefði átt þátt í dauða hennar. Í Undrahorninu voru vissuleg skuggaleg lög og þau voru sérlega áhrifamikil á tónleikunum.
Jóhann Kristinsson var í einu orði sagt frábær. Rödd hans var dásamleg, í senn breið og voldug, en líka fínleg þegar við átti. Hann hafði afar næma tilfinningu fyrir inntaki hvers ljóðs og hann kom því til skila af einstakri smekkvísi. Í túlkun hans voru óheftar tilfinningar; angist, ofsi og ástríður, en líka léttleiki og húmor. Blæbrigðin í söngnum voru svo ríkuleg og lokkandi að mann langaði til að hlusta á allt saman aftur þegar tónleikunum var lokið.
Lyfti upp í hæstu hæðir
Ammiel Bushakevitz var sömuleiðis magnaður við slaghörpuna. Þetta var enginn undirleikur, ef einhver skyldi halda það. Rödd píanósins stóð í hvívetna jafnfætis söngnum, lyfti honum upp í hæstu hæðir, umvafði hann og gæddi ávallt réttu litunum. Píanóleikurinn var nákvæmur og agaður, en einnig kraftmikill og glæsilegur. Útkoman var listviðburður sem var í algerum sérflokki.
Því miður voru þetta síðustu tónleikarnir sem maður fer á í bráð út af Covid. Tónleikalífið undanfarnar vikur hefur verið óvanalega gott. Kannski er ástæðan sú að fólk hefur haft nægan tíma til að undirbúa sig vel í allri einangruninni, og hefur fyrir vikið lagt sálu sína í tónlistina af óvanalegum krafti.
Niðurstaða:
Algerlega magnaðir tónleikar