

Ég heyrði einu sinni Vladimir Ashkenazy æfa sig á píanó bak við luktar dyr. Hann var að æfa etýðu eftir Rakhmanínoff. Það voru engin smáræðis átök. Hann spilaði seinni hluta etýðunnar aftur og aftur, alltaf á fullum hraða. Hann gerði aldrei mistök, sló ekki feilnótu, en samt hélt hann áfram uppteknum hætti.
Rauðhetta og úlfurinn
Ashkenazy er sérfræðingur í Rakhmanínoff. Núna þegar páskarnir nálgast og engir tónleikar eru í boði út af Covid, er tilvalið að hlusta á snillinginn spila á Spotify (eða YouTube). Ég mæli með hinum myndrænu etýðum, Etudes-Tableaux op. 39 eftir Rakhmanínoff. Þar eru miklir galdrar. Sérstaklega er sjötta etýðan flott, en hún mun vera innblásin af ævintýrinu um Rauðhettu og úlfinn. Hún samanstendur af taugaveikluðum, ofurhröðum nótnarunum ofarlega á tónsviðinu sem tákna Rauðhettu. Hinsvegar eru ógnandi bassahendingar sem eru urrið og glefsið í úlfinum.
Spilamennskan er makalaus. Ashkenazy, sem núna hættur að leika á píanó sökum aldurs, var ótrúlegur meistari og það kemur ekki síst fram hér. Tónlistin er svo spennuþrungin að hún er eins og geimtryllir í samþjöppuðu formi. Upplifunin er mergjuð.
Háfleygur Bach
Einn af vinum Ashkenazys er fiðluleikarinn Itzak Perlman, og með þeim tveimur eru til fjöldinn allur af upptökum. Með þeim mögnuðustu er sónata nr. 2 eftir Prókofíev, en hún er sérdeilis skemmtileg. Hér er þó fyrst og fremst mælt með einleikssónötunum og partítunum eftir Bach með Perlman einum. Páskarnir eru fyrir marga trúarhátíð, og ef tónlist Bachs hefur ekki beinar trúarlegar skírskotanir, þá eru þær óbeinar.
Verkin sem hér um ræðir eru á „háu plani“ ef svo má að orði komast. Perlman skilar þeim til hlustandans af aðdáunarverðri fagmennsku. Einhver sannfæringarkraftur liggur þar að baki, sem og tærleiki. Það er nánast eins og Perlman og Bach séu trúboðar, og hafi náð að fanga kjarnan í öllum trúarbrögðum, handan við kreddur og illa hugsaða heimsmynd. Maður fær andan beint í æð. Þetta er glæsilegur flutningur og sérstaklega er önnur sónatan falleg.
Betri en allir hinir
Ashkenazy vann á sínum tíma önnur verðlaun í keppni sem kennd er við Frederic Chopin. Sá sem vann fyrstu verðlaunin í sömu keppni fimm árum síðar var bara átján ára, hinn ítalski Maurizio Pollini. Forseti dómnefndarinnar, Arthur Rubinstein, sagði þá við félaga sína, sem voru vitaskuld afburðapíanóleikarar sjálfir, að Pollini spilaði betur en þeir allir til samans.
Mörgum hefur þó fundist Pollini dálítið kuldalegur túlkandi, og það er kannski rétt í sumum tilvikum. En sónatan í fís-moll eftir Schumann með Pollini er dásamleg. Schumann var innblásinn snillingur, og þessi sónata er ein af hans bestu tónsmíðum. Tónskáldið þjáðist af geðhvarfasýki og samdi flest verka sinna í geðhæð. Fyrir vikið eru þau stundum dálítið laus í reipunum. Innblásturinn er svo ríkulegur og Schumann liggur það mikið á hjarta að hann lætur reglur um form tónlistarinnar sér í léttu rúmi liggja. Útkoman kemur oft á óvart, en fyrst og fremst eru laglínurnar svo fallegar að það er óviðjafnanlegt. Pollini nær þessu öllu fullkomlega. Hvílíkt flæði í skáldskapnum, hvílík fegurð!
Óheppni gat af sér snilldarverk
Og meira píanó, en í þetta sinn djass. Keith Jarrett er einn af risum djassheimsins, og söluhæsta píanóplata allra tíma er Kölnarkonsertinn svokallaði. Eins og nafnið ber með sér er platan upptaka af tónleikum í Köln, snemma á áttunda áratugnum.
Jarrett var ekki vel upp lagður. Hann var á tónleikaferðalagi og óheppnin elti hann. Eftir langt og þreytandi ferðalag í bíl kom hann til Kölnar og fór rakleiðis í tónleikahúsið. Þar uppgötvaði hann sér til skelfingar að vitlaus flygill var á sviðinu. Þetta var æfingahljóðfæri sem var hálfgerður garmur. Of seint var að skipta um flygil, því tónleikarnir áttu að byrja eftir skamma stund. Í millitíðinni var farið með Jarrett á matsölustað, en pöntunin misfórst og hann fékk ekkert að borða. Hann var því bæði svangur og þreyttur, og flygillinn lélegur.
Þar sem bassanóturnar voru mjóróma og efstu tónarnir mattir, einblíndi Jarrett á miðju hljómborðsins, og reyndi að gera gott úr ástandinu. Útkoman er meistarastykki, langt og viðburðaríkt ferðalag um ólíka heima kyngi og fegurðar.
Vindurinn sem aukalag
Aukalagið er líka með Keith Jarrett. Það nefnist The Wind og er af annarri plötu sem er upptaka frá tónleikum í París nokkrum árum síðar. Þetta er einskonar ballaða, og er ekki eftir Jarrett heldur Russ Freeman og Jerry Gladstone. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa laginu, en það er svo fallegt að vart er hægt að fá nóg af því. Góðar stundir!
(Lesendum til hægðarauka hef ég sett upp spilunarlista á Spotify, undir nafni mínu. Listinn heitir Tónlist í samkomubanni, og þar má hlusta á verkin sem eru nefnd í þessari grein).