Skáldavíman í píanóleiknum er smitandi

3 og hálf stjarna

Árni Kristjánsson leikur verk eftir Mozart, Beethoven og Chopin

Polarfonia

Sagt er að Chopin hafi alltaf spilað á píanó í myrkri. Hann byrjaði á þessu þegar hann var lítill, slökkti á öllum kertum áður en hann settist við píanóið. Sama gerði hann fullorðinn. Hann mun líka hafa spilað mjög fínlega. Ekki var mikil breidd í styrkleikabrigðum í leik hans, en innan þröngs ramma voru ótal blæbrigði.

Þetta kemur á óvart, því ef marka má óteljandi upptökur með mörgum píanóleikurum, þá var tónlist Chopins samin af glysgjörnum extróvert. Yfirborðskennd túlkunin virðist vitna um það.

 Árni Kristjánsson (1906-2003), sem var á vissan hátt faðir íslensks píanóleiks, bregður upp öðru ljósi af Chopin en maður á að venjast. Á geisladiski sem kom út fyrir nokkru eru fjölmargar prelúdíur. Þær eru úr safni og bera saman ópusnúmerið 28. Þar er einnig vögguvísa, Berceuse, sem Chopin samdi seint á lífsleiðinni.

Tignarlegur og háleitur

Árni var fyrst og fremst frábær kennari, en hann kom oft fram á tónleikum, venjulega sem meðleikari. Upptökurnar sem hér er að finna, allt einleikur, eru því forvitnilegar.

Túlkun Árna á verkum Chopins einkennist af innblæstri og dýpt sem maður upplifir sjaldan þegar tónskáldið er annars vegar. Þar er hjartahlýja og skáldavíma sem er smitandi. Árni leggur auðheyrilega alla sálu sína í flutninginn. Leikurinn er svo tignarlegur og háleitur að maður fellur í stafi og finnur sig knúinn til að hlusta aftur – og aftur.

Árni var lítillátur listamaður. Það sést best á því að þegar hann starfaði sem tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, lét hann eyðileggja flestar upptökur sem höfðu verið gerðar af leik hans fyrir útvarpið. Túlkunin á Chopin er þó síður en svo hógvær eða feimnisleg. Þar er grípandi snerpa og dramatískar andstæður, en líka fínofin viðkvæmni sem er alveg einstök.

Síðri Mozart og Beethoven

Tónsmíðar eftir tvö önnur tónskáld eru á diskinum. Það eru sónata í C-dúr KV 545 eftir Mozart, og sónata op. 109 í E-dúr eftir Beethoven. Þessar upptökur eru töluvert eldri en Chopin. Árni spilar Mozart prýðilega, af tæknilegri nákvæmni og fágun, en tekst ekki almennilega að lyfta verkinu upp úr meðalmennskunni. Að mati undirritaðs er þetta er eitt af sístu verkum tónskáldsins.  

Lakasta upptakan er þó sónatan eftir Beethoven, en hún er tæpum 40 árum eldri en upptökurnar með Chopin. Himinn og haf skilur þær að. Túlkunin á Beethoven er í ákveðnu ójafnvægi, bæði tæknilega og listrænt séð. Sónatan sjálf er vissulega snilldarverk, en túlkun Árna, sérstaklega í síðasta kaflanum, er fremur óróleg – eins og hann hafi verið taugaóstyrkur þegar upptakan fór fram. Heildarmyndin er ekki sérlega sannfærandi.

Hljómurinn í upptökunum er misgóður svo sem við er að búast. Elsta upptakan er frá 1947 en þær yngstu frá 1983. Þær síðarnefndu eru auðvitað bestar, en þó vantar þar einhvern glans og fyllingu í hljóminn, hver svo sem ástæðan er. Fyrir bragðið þarf maður að hafa dálítið fyrir upplifuninni, lesa á milli línanna eins og sagt er. Chopin gerir það þess virði.

Niðurstaða:

Magnaður flutningur þegar best tekst til.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s