Himnesk fegurð orgelsins

Geisladiskur

5 stjörnur

Haukur Guðlaugsson: Organflóra 2

Haukur Guðlaugsson gefur út

Ég sá einu sinni myndband á YouTube af tónleikum þar sem orgelleikari í hljómsveit rekur sig í tónflutningstakka. Fyrir bragðið er leikur hans í allt annarri tóntegund en restin af hljómsveitinni. Útkoman er skelfileg, en um leið óborganlega fyndin.

Ekki alveg eins skondin var uppákoma í brúðkaupi í íslenskri kirkju fyrir allmörgum árum síðan. Þegar búið var að gefa brúðhjónin saman og allir bjuggust við sigri hrósandi brúkaupsmarsinum eftir Mendelssohn, heyrðust ógurleg óhljóð frá orgelinu. Orgelleikarinn hafði hnigið niður á hljómborðin, með tilheyrandi hávaða. Svo skall hann á gólfið og kirkjugestir sáu andlit hans afmyndað við rimlana á svölunum fyrir ofan. Hann hafði fengið hjartaáfall.

Annað er uppi á teningnum á nýútkomnum tvöföldum geisdiski með Hauki Guðlaugssyni organleikara. Þar er allt eins og það á að vera. Hver einasti tónn er á sínum stað, og innra samræmi og yfirvegun ríkir í hvívetna. Samt er geisladiskurinn ekki leiðinlegur, síður en svo.

Mætti heyrast víðar

Orgelið er drottning hljóðfæranna, með öllum sínum voldugu röddum og möguleikum. Engu að síður er það svo að þorri manna heyrir aldrei orgelleik nema við hátíðlegar athafnir á borð við brúðkaup, sem eru ekki á hverju ári. Þetta er synd, því til eru óteljandi tónsmíðar fyrir orgel.

Kannski að geisladiskurinn bæti aðeins úr þessu. Hann er einkar vandaður, og orgelleikurinn er magnaður. Haukur fagnar níræðu um þessar mundir og útgáfan inniheldur upptökur frá ýmsum tímabilum og frá fjölmörgum kirkjum. Þarna er að finna dásamlega tónlist eftir Bach og Buxtehude, Mozart, Franck, Reger og marga aðra erlenda meistara. Einnig er tónlist eftir Karl Ó. Runólfsson og Pál Ísólfsson.

Fegurðin ber vitni

Haukur leikur allt af aðdáunarverðri fagmennsku. Spilamennskan einkennist af næmri tilfinningu fyrir inntaki tónverkanna, fyrir innblæstrinum sem þar liggur að baki. Takturinn í hverri tónsmíð er hárnákvæmur, túlkunin er ávallt tignarleg. Maður dáist að fegurðinni í tónlistinni, og hún ber hæfileikum organistans fagurt vitni.

Staðreyndin er sú að þegar flytjandinn vekur meiri aðdáun en tónlistin sem hann leikur, þá er eitthvað að. Egó flytjandans er orðinn þrándur í götu hins óumræðilega sem liggur að baki ódauðlegra tónverka. Þannig er því ekki farið hér. Þvert á móti er leikur Hauks farvegur fyrir það sem er æðra skilningi manns, og þannig á það einmitt að vera. Þetta gerist bara svo sjaldan. Af þessum ástæðum er geisladiskurinn mikill og sjaldheyrður fjársjóður.

Niðurstaða:

Afskaplega fallegur flutningur á himneskri tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s