Mendelssohn var ekki endurfæddur Mozart

4 stjörnur

Verk eftir Prókofíev og Mendelssohn. Einleikari: Rannveig Marta Sarc. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 6. maí

Maður nokkur erfir málverk og fiðlu eftir Rembrandt og Stradivarius. Hann hugsar með sér: Nú er ég moldríkur. En svo kemst hann að því að málverkið er eftir Stradivarius, en fiðlan eftir Rembrandt. Stradivarius var mun betri fiðlusmiður en málari, og öfugt.

Allar vita að Stradivarius fiðlur eru bestar. Eða hvað? Franskur rannsakandi, Claudia Fritz, hefur á undanförnum árum sýnt fram á hið gagnstæða. Fyrir einhverju síðan fékk hún tíu fiðluleikara í heimsklassa til að prófa nokkrar fiðlur blindandi. Sumar þeirra voru gamlar Stradivarius fiðlur, aðrar nýjar. Það merkilega var að fiðluleikararnir gátu ekki greint þar á milli. Það sem meira var, þeir töldu þær nýju vera betri. Síðar framkvæmdi Fritz aðra rannsókn þar sem ýmist var spilað á gamlar eða nýjar fiðlur fyrir framan áheyrendur. Hið sama gerðist, áheyrendur gátu ekki sagt til um aldur hljóðfæranna, en voru almennt hrifnari af þeim nýju.

Íslenskur Stradivarius

Þetta kom upp í hugann á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Árni Heimir Ingólfsson var kynnir á tónleikunum, og hann upplýsti áheyrendur um að einleikari kvöldsins spilaði á íslenska fiðlu. Einleikarinn var Rannveig Marta Sarc og fiðlusmiðurinn Hans Jóhannsson. Ég persónulega gat ekki heyrt sérstakan mun á hljómi fiðlunnar og öðrum dýrgripum sem þarna hafa komið við sögu. Hljómurinn var hlýr, breiður og safaríkur, hvort sem spilað var ofarlega eða neðarlega á tónsviðinu.

Einleikarinn var ekki heldur neinn aukvisi. Rannveig Marta hefur nýlokið námi í Juilliard tónlistarháskólanum og hún mun hafa verið síspilandi síðan hún var fjögurra ára gömul. Viðfangsefni hennar á tónleikunum var annar konsertinn eftir Prókofiev. Skemmst er frá því að segja að hann lék í höndunum á henni. Allskonar tónahlaup voru skýr og jöfn, fullkomlega af hendi leyst. Heljarstökkin upp og niður strengina voru eins og áhættuatriði í geimtrylli.

Verkið sjálft er skemmtilegt. Það er sérkennileg blanda af módernisma og alþýðukveðskap. Fyrsti kaflinn er tormeltur og maður veit aldrei hvað kemur næst. Annar kaflinn er einfaldur, heillandi vals og sá síðasti gríðarlegur fingurbrjótur þar sem engu er eirt. Rannveig Marta hafði þetta allt á valdi sínu. Hún spilaði af innlifun og andríki, túlkunin var kröftug , en líka viðkvæm þegar við átti. Rauði þráðurinn slitnaði aldrei.

Sætt, en fúlt undir yfirborði

Hin tónsmíðin á dagskránni var fjórða sinfónían eftir Mendelssohn. Hún nefnist Hin ítalska, því hún er innblásin af menningunni þar. Kynnirinn, Árni Heimir, kallaði Mendelssohn Mozart rómantíska tímans. Undirritaður hugsaði þá í einfeldni sinni: Kannski var Mendelssohn endurfæddur Mozart. Sá síðarnefndi var skítblankur og sem hinn ríki Mendelssohn öðlaðist hann það sem á vantaði í fyrra lífi. En um leið og sinfónían byrjaði var ljóst að það gat ekki verið. Mendelssohn var vissulega ótrúlega hæfileikaríkur, en tónlist hans er bara á allt öðru plani, og nokkrum hæðum fyrir neðan þá sem Mozart samdi. Kveðskapurinn er fallegur á yfirborðinu, en ódýr; frásögnin er andlaus, lokahnykkurinn fyrirsjáanlegur, laglínurnar innantómar.

Bjarni Frímann Bjarnason stjórnaði hljómsveitinni og gerði það vel. Hljómsveitin spilaði af tærleika og krafti, samhljómurinn var flottur og fallegur. Allskonar slaufur og krúsídúllur voru vel framkvæmdar og mismunandi hljóðfærahópar voru með sitt á tæru. Þetta var glæsilegt, en til hvers? Tónlistin var óspennandi sem endranær, þrátt fyrir góðan vilja og vasklega framgöngu. Maður býr ekki til silkipoka úr svínseyra, ó nei.

Niðurstaða:

Snilldar fiðluleikur, en miðlungs sinfónía, sem þó var ágætlega spiluð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s