Raddstyrkurinn var við sársaukamörkin

3 og hálf stjarna

Verk eftir Schumann, Wagner, Tosti, Verdi, Bellini, Puccini, Mozart, Leoncavallo, Smetana og Wolf. Stuart Skelton og Kristinn Sigmundsson sungu. Matthildur Anna Gísladóttir lék á píanó.

Salurinn í Kópavogi

föstudaginn 7. maí

Woody Allen hefur sagt að ef hann hlustar á Wagner fyllist hann alltaf löngun til að ráðast inn í Pólland. Hitler var mjög hrifinn af Wagner og margir tengja hann því við ofbeldi og gyðingahatur. Víst er að tónskáldið var ekkert sérstaklega aðlaðandi karakter. Hann var engu að síður húmoristi.

Eitt sinn varð hann vitni að því þegar hljómsveit var að æfa lokakaflann í sjöundu sinfóníunni eftir Beethoven. Það er mjög gleðirík tónlist. Wagner gerði sér lítið fyrir og stökk upp á svið og ýtti stjórnandanum til hliðar. Svo tók hann sjálfur við að stjórna hljómsveitinni sem spilaði alltaf hraðar og hraðar undir bendingum hans. Í lokin lék hljómsveitin á ofsahraða. Þegar hún var búinn dansaði Wagner út af sviðinu og réð sér ekki fyrir gleði.

Einkenndist af gríni

Stemningin var ekki ósvipuð á tónleikum í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið, en þar var einmitt Wagner á dagskránni. Tveir söngvarar sáu um skemmtunina, þeir Stuart Skelton og Kristinn Sigmundssonar. Matthildur Anna Gísladóttir lék á píanó.

Eitt af atriðunum eftir Wagner var aría úr óperunni Lohengrin, sem Skelton söng, en hann er svokallaður tenór. Hann er ekkert smáræðis raddsterkur. Ég verð að viðurkenna að þegar ég leit á miðann minn áður en ég kom á tónleikastaðinn og sá að ég sat mjög nálægt sviðinu, á fjórða bekk, fór um mig hrollur. Og það átti fullan rétt á sér, því raddstyrkurinn hjá Skelton var við sársaukamörkin. Engu að síður var rödd hans hrífandi fögur, þó að aðeins hafi ýskrað í henni hér og þar á tónleikunum. Kannski var söngvarinn ekki í sínu besta formi.

Rembingur sem fer úr böndunum

Kristinn virtist hins vegar í essinu sínu, og hann söng afar vel. Eitt minnistæðasta lagið sem hann söng var Die beiden Grenadiere eftir Schumann. Það fjallar um tvo franska hermenn sem eru að koma heim úr stríði í Rússlandi, nær dauða en lífi. Þeir eru fullir af þjóðernisrembingi, sem fer gersamlega úr böndunum. Kristinn túlkaði þetta af sannfærandi tilþrifum, gríðarlegum krafti og svo ýktri tilfinningasemi að það varð eiginlega hálf kómískt.

Efnisskráin var í léttari kantinum, þótt einhver Wagner hafi verið á dagskránni. Lögin voru öll á topp tíu listanum og fátt ef nokkuð sem var beinlínis athyglisvert. Hins vegar var Kristinn mjög skemmtilegur, hann reytti af sér brandarana, það kjaftaði á honum hver tuska. Tónleikarnir voru því aldrei leiðinlegir.

Matthildur Anna Gísladóttir lék á píanó eins og áður sagði. Hún gerði það ágætlega, fylgdi söngnum prýðilega og náði að gæða tónlistinni viðeigandi stemningu. Þetta voru fínir tónleikar, ristu samt grunnt og skildu fátt eftir sig, en það þarf ekkert alltaf.

Niðurstaða:

Líflegir tónleikar sem einkenndust af húmor.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s